Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Menningarhátíð undir kvöldhimni

Menningarhátíðin Dagar myrkurs hefst 28. október næstkomandi og stendur til 1. nóvember. Hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 2000 og hefur fyrir löngu tryggt sér sess sem einn af helstu menningarviðburðum ársins fyrir austan þar sem íbúar fjórðungsins taka höndum saman og gera tilveruna bjarta þrátt fyrir takmarkaða dagsbirtu.

Menningarhátíðin Dagar myrkurs hefst 28. október næstkomandi og stendur til 1. nóvember.  Hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 2000 og hefur fyrir löngu tryggt sér sess sem einn af helstu menningarviðburðum ársins fyrir austan þar sem íbúar fjórðungsins taka höndum saman og gera tilveruna bjarta þrátt fyrir takmarkaða dagsbirtu.

Dagar myrkurs eru byggðahátíð á Austurlandi þar sem gervallur landshlutinn leggst á eitt við að gera íbúum og gestum þeirra glaða daga í svartasta skammdeginu og lýsa þá upp m.a. með skírskotun í ríkan drauga- og vættaarf sem Austfirðingar eiga. Hátíðin hefur lengst af verið tíu daga löng þar sem hver viðburðurinn rekur annan en eftir Daga myrkurs í fyrra var ákveðið að stytta hana í fimm daga hátíð og hefst hún því miðvikudaginn næsta og lýkur á sunnudegi.

Sem fyrr er hér um að ræða glæsilega menningarveislu þar sem allir hljóta að finna eitthvað við sitt hæfi. Má þar nefna stórtónleika Sinfóníusveitar Íslands á Egilsstöðum 29. október, tónleika hljómsveitarinnar Evu á Eskifirði og Seyðisfirði (29. og 30. október), opnun sýningar á verkum Eyborgar Guðmundsdóttur og Eyglóar Harðardóttur undir sýningarstjórn Gavins Morrison í Skaftfelli á Seyðisfirði 31. október, Sigfúsarvaka í Safnahúsinu á Egilsstöðum, tileinkuð Sigfúsi Sigfússyni þjóðsagnasafnara frá Eyvindará, tónleikar Páls Rósinkranz á Breiðdalsvík 31. október, bílabíó á Eskifirði 1. nóvember, Ljós í myrkrinu á Hótel Héraði og hrekkjavökupartí svo eitthvað sé nefnt.

Frekari upplýsingar um þessa viðburði og aðra viðburði Daga myrkurs 2015 má sjá á síðunni East.is. Þá er lesendum jafnframt bent á að skoða heimasíður sveitarfélagana fyrir nánari upplýsingar um viðburði á hverjum stað fyrir sig: breiddalur.is, djupivogur.is, visitegilsstadir.is, visitfjardabyggd.is, sfk.is og vopnafjardarhreppur.is en að venju eru alls kyns uppákomur fyrirhugaðar í öllum byggðakjörnum Austurlands.

Nánari upplýsingar um Daga myrkurs 2015 fást hjá Austurbrú ses. sem heldur utan hátíðina í samvinnu við sveitarfélög eystra.