Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Tónleikasumarið á Austurlandi

Tónleikasumarið á Austurlandi

Austurland hefur getið sér gott orð á síðustu árum sem landsfjórðungur tónlistar og eiga sumar af þekktustu og bestu tónlistarhátíðum landsins lögheimili sitt fyrir austan. 

Að skjótast austur á land er ævintýri. Ferðalagið getur verið langt hugsi menn eingöngu í kílómetrum og klukkustundum en góðum félagskap er það ógleymanleg upplifun að ferðast austur. Að skella sér á góða tónleika í fallegum firði eftir langt en skemmtilegt ferðalag í góðra vina hópi er minning sem hægt er að ylja sér við um ókomin ár. 

ATH. Talsverð breyting er á menningarviðburðum þetta árið útaf Covid-19.

EISTNAFLUG

Saga Eistnaflugs er einstaklega falleg. Eistnaflug er frábært dæmi um grasrótarhátíð sem hefur vaxið og dafnað jafnt og þétt frá því hún var fyrst haldin sumarið 2005 þegar hljómsveitir komu austur á land gegn því að fá ókeypis bensín og bjór. Í dag er þetta ein flottasta tónlistarhátíð landsins og tvímælalaust besta þungarokkshátíð Íslendinga. Á seinni árum hefur fjöldi hljómsveita sem koma fram margfaldast og nú er svo komið að mörg af þekktari böndum þessarar tónlistarhefðar á heimsvísu sækja Neskaupstað heim á Eistnaflugi. 

 

LUNGA

Árið 2000 leit listahátíð LungA dagsins ljós í fyrsta sinn; listahátíð þar sem sköpun, listum og menningu er fagnað með námskeiðum, fyrirlestrum og öðrum viðburðum og lýkur með uppskeruhelgi: sýningum og tónleikum. Hátíðin er frábær blanda af listum, sköpun, tjáningu og stórbrotinni náttúru. Hún hefur getið sér gott orðspor, bæði á Ísland og út fyrir landsteinana fyrir frábært andrúmsloft, námskeið af miklum gæðum og með mikilli virkni þátttakenda. Ennfremur færir hátíðin gleði, sjálfsþekkingu, elskendur, nýja vini og góðar minningar fyrir þá sem sækja hátíðina heim.

 

BRÆÐSLAN

Það er erfitt að finna orð til að lýsa tónlistarhátíðinni Bræðslunni á Borgarfirði. Þorpið er eins og athvarf frá ys og þys hversdagsins og tónlistarhátíðin sjálf er algerlega sér á báti. Andinn í gömlu síldarbræðslunni er eintakur og hátíðin dregur fram það besta í gestum og tónlistarmönnunum sem standa á sviðinu. Það er líka full ástæða til að mæta tímanlega á Bræðsluna en í "Bræðsluvikunni" svokölluðu þ.e. síðustu dagana fyrir hátíðina eru tónleikar í félagsheimilinu Fjarðaborg þar sem stemmningin er engu lík. 

Austurland

Bæir og þorp

Allir bæir á Austurlandi hafa sín sérkenni og í sumum sjávarþorpunum má sjá greinileg erlend áhrif. Til að mynda á Fáskrúðsfirði þar sem frönsk áhrif eru sterk. Þar má t.d. lesa götuheitin á íslensku og frönsku! Þá má sjá norsk áhrif í byggingum á Eskifirði og á Seyðisfirði en þarlendir sjómenn höfðu búsetu á þessum stöðum á síðustu og þarsíðustu öld. Á Egilsstöðum eru engin slík áhrif að finna en bærinn er sá yngsti á Austurlandi, varð til á fimmta tug aldarinnar sem leið, og hefur orðið að þjónustumiðstöð Austurlands.  

Map Vopnafjörður Borgarfjörður Eystri Egilsstaðir Seyðisfjörður Mjóifjörður Neskaupstaður Breiðdalsvík Eskifjörður Reyðarfjörður Fáskrúðsfjörður Stöðvarfjörður Djúpivogur