Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Borgarfjörður eystri

Borgarfjörður eystri er nyrsti fjörðurinn sem gengur inn í Austfjarðahálendið. Formfagur og litskrúðugur fjallahringur umlykur dalinn sem gerir Borgarfjörð að einu fegursta byggðarlagi á landinu. Borgfirðingar stunda landbúnað, sjómennsku og ferðaþjónustu. Bakkagerði er fallegt sjávarþorp þar sem búa um 100 manns. Þorpið er áhugavert, samsett af dreifðri byggð býla og engin götunúmer þar að finna. Íbúarnir eru gestrisnir og listfengir og gangast árlega fyrir vinsælum tónlistarhátíðum. Kirkjan er prýdd altaristöflu eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval.

Útsýnisskífan á Álfaborginni

AFÞREYING

Við þorpið er Álfaborgin þar sem drottning íslenskra álfa er sögð búa og þar liggur göngustígur að útsýnisskífu. Í Hafnarhólmanum er eitt besta aðgengi til fuglaskoðunar hérlendis og er svæðið sérstaklega þekkt fyrir blómlega lundabyggð.

Í Hafnarhólma er frábær aðstaða til þess að skoða lunda - og aðra fugla

 

Í og við Borgarfjörð er eitt best skipulagða göngusvæði hérlendis með stórbrotnu og fjölbreyttu landslagi. Gönguleiðir í Stórurð og á Víknaslóðir eru góð dæmi um það. Frá Borgarfirði er hægt að komast til Breiðuvíkur, Húsavíkur og Loðmundarfjarðar eftir jeppaslóða.

 

Svavar Knútur við Lindarbakka

Það er ótrúlega erfitt að nefna einn ákveðinn stað á Austfjörðum sem ég tengi sterkar við en aðra, enda eiga Austfirðir ríflega hnefafylli af hjarta mínu. Djúpivogur og Breiðdalsvík eru dásamleg sjávarpláss með ríka sögu og menningararf sem blæðir úr hverjum steini og þúfu, með bæjarstæði sem fylla hjartað að fornum kenndum. Skriðuklaustur, rammur minnisvarði um stóra drauma og erfiða tíma og fegurð sem lifir, bæði í formi bókmennta og byggingarlistar er líka einn af mínum uppáhaldsstöðum. Seyðisfjörður og Vopnafjörður, hvor á sinn hátt einstakur og svo má lengi telja. En hjartað mitt slær á endanum þyngst handan Dyrfjalla, í Borgarfirði eystri, þar sem amma mín bjó og þar sem ég er alltaf kominn heim. Þar kemur allt heim og saman í hjarta mínu. Hafið, fjöllin, álfaborgin, smábátahöfnin, líf manna og fugla ofin saman í fagurt teppi sem breiðir sig yfir sálina.

Ég finn djúpt þakklæti þegar ég kem austur á firði og þetta þakklæti kórónast í Borgarfirðinum.

Svavar Knútur, tónlistarmaður

6f3426060ce9f6bb278348435e2c2645
Borgarfjörður eystri
GPS punktar N65° 32' 36.183" W13° 47' 16.708"
Póstnúmer

720

Borgarfjörður eystri - ferðaupplýsingar

Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands

Aðrir

Fjarðarhjól ehf.
Ferðasali dagsferða
  • Bakkavegur 9
  • 720 Borgarfjörður eystri
  • 770-0791
Kayhike
Dagsferðir
  • Fjarðarborg
  • 720 Borgarfjörður eystri
  • 869-2159

Aðrir

Já sæll - Grill og bar
Veitingahús
  • Fjarðarborg
  • 720 Borgarfjörður eystri
  • 4729920
Saga og menning
Njarðvíkurskriður og Naddi

Áður en vegur var lagður milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar eystra árið 1949, var einvörðungu unnt að fara þar á milli fótgangandi eða á hestbaki. Í skriðurótunum hélt sig skrímsli sem nefnt var Naddi. Var það í mannsmynd ofan mittis en í dýrslíki að neðan. Olli Naddi vegfarendum mörgum skráveifum og aldurtila. Að endingu tókst bónda nokkrum að fyrirkoma Nadda og hrinda honum í sjó fram.
Í framhaldi var reistur kross í skriðunum og hefur trúartákn staðið þar síðan eða allt frá árinu 1306 eða þar um það bil.

Saga og menning
Bakkagerðiskirkja

Skammt frá Álfaborgini á frægu í útjaðri þorpsins á Borgarfirði eystri stendur Bakkagerðiskirkja sem vígð var árið 1901. Altaristafla kirkjunar er verk hins kunna listmálara Jóhannesar S. Kjarvals frá árinu 1914 og er fjallræða Krists viðfangsefni hennar. Þetta er eitt af þekktustu verkum Kjarvals og dregur að fjölda ferðamanna á hverju ári.

Náttúra
Kúahjalli og Hrafnatindur

Ein af merktu gönguleiðunum við Bakkagerðisþorp á Borarfirði Eystra liggur upp á Kúahjalla og Hrafnatind ofan við þorpið. Gengið er upp með Bakkaá og þaðan á Hrafnatind en frá honum er einstakt útsýni yfir þorpið og Borgarfjörð allan. Áfram er gengið út Kúahjalla og niður að minnisvarða Kjarvals við Geitavík. Gangan tekur um 3 klst. og liggur hæst í 350 m. hæð. Skammt ofan við minnisvarðann er stígur að rústum smalakofa Kjarvals undir Kúahjalla.

Saga og menning
Lindarbakki

Borgarfjörður eystri er þekktur fyrir einstaka fegurð og ríka sögu. Lindarbakki, lítið fallegt torfhús, hefur heillað marga gesti sem þangað koma og er ómissandi viðkomustaður þegar bærinn er heimsóttur, enda sýnir húsið vel hvernig húsin voru í kringum 1859 þegar Borgarfjörður fékk verslunarréttindi og þéttbýliskjarni byrjaði að myndast.

Saga og menning
Álfaborg

Rétt hjá þorpinu Bakkagerði á Borgarfirði eystri er tignarleg klettaborg sem kölluð er Álfaborg. Álfadrottning Íslands er sögð búa í Álfaborginni en margar sögur um álfa, og samskipti álfa við heimamenn, eru til. Margir staðir eru tengdir þessum sögum um samskipti álfa og manna, t.d. er Kirkjusteinn á Krækjudal inn af Borgarfirði kirkja borgfirskra álfa.

Þægileg gönguleið liggur upp á Álfaborgina en þar er hringsjá sem útskýrir allan fjallahringinn umhverfis Borgarfjörð. Auk þess er tjaldsvæðið á Borgarfirði við Álfaborgina.

Náttúra
Stórurð

Frá Vatnsskarði, á leiðinni til Borgarfjörður Eystri, er gengið í Stórurð sem er ein hrikalegasta náttúrusmíð á Íslandi. Í urðinni er einstök náttúra, sléttir grasbalar, hrikalegir grjótruðningar, steinblokkir, sumar tugir metra á hæð, fagrar tjarnir og sérstakur gróður. Ganga í Stórurð er einstök upplifun og best er að hefja hana uppi á Vatnsskarði, ganga inn eftir fjallasyrpunni og til baka neðri leiðina út í Ósfjall (um 16 km.). Einnig er hægt að halda áfram til Borgarfjarðar norðan eða sunnan Dyrfjalla. Í Stórurðargöngu þarf heilan dag til að njóta svæðisins að verðleikum. Gestabók er í Urðinni.

Powered by Wikiloc

Náttúra
Dyrfjöll

Dyrfjöll eru ein af perlum Austurlands. Fjöllin eru þekkt fyrir stórt skarð í miðju fjallgarðsins sem eru eins og risastórar dyr og draga fjöllin nafn sitt af þessu skarði. Það er erfið ganga upp á topp Dyrfjalla og ættu aðeins vanir göngumenn að leggja í ferðu upp á toppinn. Hægt er að fá leiðsagnar vanra fjallaleiðsögumanna upp á topp ef þess sé óskað.

Útsýnið af toppnum er stórkostlegt og sést meðal annars mjög vel yfir hina fallegu náttúruperlu Stórurð þaðan.

Powered by Wikiloc
Náttúra
Hafnarhólminn

Við smábátahöfnina í Borgarfirði Eystra er "Hafnarhólmi",svæði sem hentar sérdeilis vel til fuglaskoðunar. Heimamenn hafa gert Hafnarhólmann vel úr garði og eru upplýsingar til reiðu um þá fugla sem sjá má. Hvergi á Íslandi er eins auðvelt að komast í návígi við lunda. Sjálfur er hólminn og leiðin þangað augnayndi. Kríuvarp er þar með mesta móti og líf í höfninni er bátarnir leggja að eða frá.

Austurland

Bæir og þorp

Allir bæir á Austurlandi hafa sín sérkenni og í sumum sjávarþorpunum má sjá greinileg erlend áhrif. Til að mynda á Fáskrúðsfirði þar sem frönsk áhrif eru sterk. Þar má t.d. lesa götuheitin á íslensku og frönsku! Þá má sjá norsk áhrif í byggingum á Eskifirði og á Seyðisfirði en þarlendir sjómenn höfðu búsetu á þessum stöðum á síðustu og þarsíðustu öld. Á Egilsstöðum eru engin slík áhrif að finna en bærinn er sá yngsti á Austurlandi, varð til á fimmta tug aldarinnar sem leið, og hefur orðið að þjónustumiðstöð Austurlands.  

Map Vopnafjörður Borgarfjörður Eystri Egilsstaðir Seyðisfjörður Mjóifjörður Neskaupstaður Breiðdalsvík Eskifjörður Reyðarfjörður Fáskrúðsfjörður Stöðvarfjörður Djúpivogur