Flýtilyklar
Borgarfjörður eystri
Borgarfjörður eystri er nyrsti fjörðurinn sem gengur inn í Austfjarðahálendið. Hann er um 4ja km. breiður og 5 km. langur og mjög opinn fyrir hafáttum, einkum norðaustanátt. Undirlendi er með ströndinni og inn af fjarðarbotninum er breiður og grösugur dalur, um 8 km langur. Dalinn umlykur formfagur og litskrúðugur fjallahringur sem gerir Borgarfjörð eitt fegursta byggðarlag á landinu. Fjöllin eru með hinum elstu á Íslandi, um 10-15 milljón ára gömul, og hér er að finna annað stærsta líparítsvæði landsins. Bakkagerði er fallegt sjávarþorp þar sem búa um 100 manns. Flestir lifa á sjávarafla og búskap, en ferðaþjónustu vex fiskur um hrygg.
Þorpið er áhugavert, samsett af dreifðri byggð býla og engin götunúmer þar að finna. Íbúarnir eru gestrisnir og listfengir og gangast árlega fyrir vinsælum tónlistarhátíðum. Kirkjan er prýdd altaristöflu eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval. Við þorpið er Álfaborgin þar sem drottning álfanna er sögð búa og liggur þangað göngustígur að útsýnisskífu. Í Hafnarhólmanum er eitt besta aðgengi til fuglaskoðunar hérlendis . Í og við Borgarfjörð er eitt best skipulagða göngusvæði hérlendis með stórbrotnu og fjölbreyttu landslagi. Gönguleiðir í Stórurð og á Víknaslóðir eru góð dæmi um það. Frá Borgarfirði er hægt að komast til Breiðuvíkur, Húsavíkur og Loðmundafjarðar eftir jeppaslóða.

720
116
Borgarfjörður eystri - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands