Flýtilyklar
Djúpivogur
Berufjörður er um 20 km langur og 2-5 km að breidd. Hann liggur milli Hamarsfjarðar að sunnan og Breiðdalsvíkur að norðan. Upp úr honum ganga Búlandsdalur og Fossárdalur. Búlandstindur setur mikinn svip á fjörðinn og egghvass fjallahringurinn, gnípur og ríolítinnskot eru áberandi. Flikrubergið, sem er grænleitt afbrigði þess er áberandi í lágum grænum höfða norðan megin fjarðarins, sem og sker og boðar í fjarðarmynninu. Nönnusafn og Geislasteinasafn á Teigarhorni er meðal þess sem finnst í Berufirði. Í Berufjörð er hægt að komast eftir hringvegi 1 strandleiðina eða yfir Öxi, frá Fljótsdalshéraði. Djúpivogur er þéttbýlið sunnan fjarðarins. Það stendur í skjóli undir Búlandstindi við náttúrulega höfn og hefur verið verslunarstaður síðan 20. júní 1589. Upphaflegi verslunarstaðurinn var í Gautavík og er hans getið í Landnámabók.

AFÞREYING
Djúpivogur er lifandi sjávarpláss og þar er menningunni gert hátt undir höfði. Þar er fugla- og steinasafn sem heldur úti heimasíðu. Í Löngubúð eru söfn Eysteins Jónssonar stjórnmálamanns og Ríkarðs Jónssonar listamanns, en einnig minjasafn og kaffihús. Hægt er að fara í gönguferð um þorpið með sjálfsleiðsögn með smáforritunum Wapp eða PocketGuide. Glæsileg sundlaug, golfvöllur og íþróttasalur eru á Djúpavogi. Skammt frá þorpinu er fólkvangurinn Teigarhorn sem er dásamlegt útivistarsvæði.

Á Djúpavogi eru margar merktar gönguleiðir á öllum erfiðleikastigum. Ýmsar hefðisr tengjast sumum þeirra, s.s. ganga á Búlandstind og Faðivorahlaup sem koma frá útvarps- og blaðamanninum Stefáni Jónssyni sem bjó þar lengi.
Á Djúpavogi má finna leiksvæði fyrir börn, góða sundlaug og golfvöllur Golfklúbbs Djúpavogs er í Hamarsfirði.

Einn af mínum allra kærustu stöðum á Austurlandi eru sandarnir á Djúpavogi. Kyrrðin er áþreifanleg og svarti sandurinn virðist endalaus strönd yst á Búlandsnesi. Ég fæ hreinlega aldrei nóg og hér eru ný ævintýri við hvert fótmál, í hverri heimsókn. Þetta er staðurinn sem heillaði í upphafi, nóg til að taka skrefið og flytja alla leið í paradísina.Hér er brasað vikulega með börnin, leitað að skeljum og steinum, skokkað og jógað, allt til skiptis. Hálfpartinn í bakgarðinum heima, heppin ég!
Gréta Mjöll Samúelsdóttir atvinnu- og menningarmálafulltrúi

765
Djúpivogur - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands