Flýtilyklar
Egilsstaðir
Þéttbýlið Egilsstaðir var stofnað 1947 með lögum frá Alþingi. Nafnið dregur bærinn af stórbýlinu Egilsstöðum sem nú stendur rétt fyrir utan þorpið. Við stofnun bæjarins voru 110 íbúar á staðnum. Sjúkrahúsið og búvélaverkstæði komu til skjala 1945, síðar bættist Kaupfélag Héraðsbúa við og varð þetta kveikjan að mikilli fjölgun íbúa. Opinberar stofnanir og þjónusta eru helstu afkomu-uppsprettur. Á Egilsstöðum er alþjóðaflugvöllur, menntaskóli, menningarhús, safnastofnun og afgreiðsla sýslumanns ásamt margs konar annarri þjónustu.

Egilsstaðir
AFÞREYING
Vegferð um Egilsstaði er upplagt að hefja við hringsjá á Hömrum fyrir ofan gamla Sláturhúsið sem nú er menningarmiðstöð. Gálgaklettur er skammt frá Egilsstaðakirkju . Þar var fyrrum aftökustaður og er áletraður skjöldur til minningar um það. Frá kirkjunni er víðsýni yfir Löginn – og margir reyna að koma auga á Lagarfljótsorminn. Annar útsýnisstaður er á klettinum við sundlaugina þar sem Kvennavarðan stendur.

Við Fardagafoss
Margar og fjölbreyttar gönguleiðir eru á Egilsstöðum eða í næsta nágrenni. Upplagt er að fara í kvöldgöngu eða brjóta upp langa bílferð með göngu í Selskógi. Einnig er skemmtilegt að ganga að Taglarétt, Rjúkandafossum eða Fardagafossi. Í fellunum, hinum megin við Lagarfljótið, er gaman að ganga á Hrafnafell.

Ingunn Snædal á Landsenda
Einn af uppáhaldsstöðum mínum á Austurlandi er Landsendi, stórkostlegur staður við nyrðri enda Héraðssands og við rætur hinnar mögnuðu Hellisheiði, sem býður upp á undurfagra göngu um sendnar fjörur, grónar hlíðar, kynlegar og ægifagrar klettamyndanir, sjó, seli og útsýni yfir hin litríku Móvíkurflug. Betri náttúrustemning er vandfundin og svo er nafnið Landsendi alveg sérstaklega ævintýralegt.
Ingunn Snædal, skáld og þýðandi

700
Egilsstaðir - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands