Flýtilyklar
Eskifjörður
Eskifjörður er innfjörður úr Reyðarfirði norðanverðum. Sunnan megin við hann er Vöðlavík, með sendinni strönd og malarrifi. Á yfirborðinu er Eskifjörður sjávarpláss í hnotskurn og útbærinn með sínum gömlu sjóhúsum, sem minna okkur á upprunann og ástæðu þess að búið er á fjörðunum, er tvímælalaust ein af perlum Austurlands. Námuvinnsla á silfurbergi var í Helgustaðanámu frá 17. öld fram á fyrri hluta 20. aldar. Nú eru helstu atvinnuvegir útgerð og ferðaþjónusta. Á Eskifirði er ýmis þjónusta, svo sem skóli og leikskóli, heilsugæsla, lögreglustöð, og Sýslumannssetur.

Hólmatindur og Hólmanes
Norðan fjarðarins standa Askja og Hólmatindur sem eru einkennistákn fjarðarins. Milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar er ekið yfir Hólmaháls en þar er einstaklega skemmtilegt útivistarsvæði.

Randulffssjóhús á Eskifirði
AFÞREYING
Eitt af því sem setur skemmtilegan svip á Eskifjarðarkaupstað eru gömlu sjóhúsin sem standa út í fjörðinn. Sum þeirra eru lifandi söfn sem fróðlegt er að heimsækja. Gamlabúð er sjóminja- og atvinnuvegasafn, þar er sagan gerð lifandi og leiðsögnin frábær. Listaverkið sem prýðir Hraðfrystihúsið er einnig vel þess virði að skoða, sem og Myllan og fossinn í Bleiksánni sem er upplýstur árið um kring.

Á Hólmahálsi er útsýnisstaður við völvuleiði sem vert er að skoða og neðan vegar er friðlýstur fólkvangur. Þar eru gönguleiðir merktar og tiltölulega gott aðgengi er að líflegu fuglabjargi. Helgustaðanáma er vel þess virði að skoða en þar var mesta silfurbergsnáma heims og þangað er merkt gönguleið. Á leiðinni út að Helgustöðum er Mjóeyri en þar var síðasti aftökustaður á Austurlandi. Börn og unglingar bæjarins hafa sett þar upp vegalengdaskilti til allra helstu staða heims. Þau hafa einnig markað útlínur hvals í fjörunni gengt bænum.
Á Eskifirði er ný útisundlaug með dásamlegu útsýni og golfvöllurinn Byggðarholtsvöllur.

735
Eskifjörður - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands