Flýtilyklar
Seyðisfjörður
Seyðisfjarðarkaupstaður fékk kaupstaðarréttindi árið 1895. Á Seyðisfirði er fjöldi gamalla timburhúsa sem kúra í skjóli hárra og formfagurra fjalla. Litrík, norskættuð timburhúsin frá fyrstu áratugum 20. aldarinnar gera Seyðisfjörð einstakan meðal bæja á Íslandi. Fjölmargir listamenn hafa komið við sögu Seyðisfjarðar og hafa dvalið þar við listsköpun um lengri eða skemmri tíma. Frá náttúrunnar hendi er hafnaraðstaðan í firðinum einstök og hefur hún gert Seyðisfjörð að mikilvægri samgönguæð allt frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag. Eina farþega- og bílaferjan sem siglir milli Íslands og meginlands Evrópu kemur til Seyðisfjarðar vikulega. Fiskvinnsla og útgerð hafa verði aðalatvinnuvegurinn fram til þessa en ferðaþjónusta vex stöðugt ásmegin og má finna fjölbreytta gisti- og veitingastaði í bænum. Í bænum er tónlistarskóli, listalýðskóli, heilsugæsla og ágæt aðstaða til hvers kyns íþróttaiðkunar.

Hýr halarófa er árviss viðburður.
MANNLÍF
Seyðisfjarðarkaupstaður er rómaður fyrir afslappað andrúmsloft og úrval menningarviðburða. Þar er að finna Tækniminjasafn Austurlands, Fjarðarselsvirkjun og hljóðskúlptúrinn Tvísöng. Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, stendur fyrir sýningum árið um kring. Þar er m.a. að finna verk eftir hinn kunna listamann Dieter Roth og The Dieter Roth Academy.

Á Seyðisfirði er fjöldi gönguleiða.
ÚTIVIST
Fjölbreyttir möguleikar eru til útivistar í Seyðisfirði. Þar má bæði finna langar og stuttar gönguleiðir, á borð við Fossagönguna, Fjarðarselshringinn, Tvísöng og Vestdal. Einnig er hægt að skella sér í fjallgöngu á Bjólf, Hádegistind eða Strandartind. Það er líka skemmtilegt að rölta um bæinn í rólegheitum og skoða gömlu húsin.
Á Seyðisfirði eru leikvellir fyrir börn og einnig má finna bæði golf- og folfvöll. Svo er hægt að skella sér í sund í hinni sjarmerandi Sundhöll Seyðisfjarðar.

Stafdalur
Uppáhaldsstaðurinn minn er Stafdalur og nágrenni, skíðasvæði Seyðfirðinga og Egilsstaðabúa. Það eru ekki margir staðir á Austurlandi sem ég hef eytt meiri tíma á um ævina, æskuheimilið mitt talið með. Ég byrjaði að skíða þar tveggja ára, æfði skíði fram á unglingsaldur og hef svo stundað snjóbretti þar alla tíð síðan. Það fer um mig alveg sérstök sælutilfinning að koma þangað hvern vetur vegna minninganna sem tengjast staðnum en í seinni tíð kemst ég líka alltaf betur og betur að því að þetta er eitt besta skíðasvæði landsins, sérstaklega fyrir fólk sem vill skíða fyrir utan brautir, en möguleikarnir eru ótal margir og ég er ennþá að finna faldar perlur á svæðinu.
Ívar Pétur Kjartansson, tónlistar- og snjóbrettamaður

Seyðisfjörður - ferðaupplýsingar
Úr gagnagrunni Ferðamálastofu Íslands