Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

Bæir og þorp

13228644684_f2c83671f8_z.jpg
Bæir og þorp

Allir bæir á Austurlandi hafa sín sérkenni og í sumum sjávarþorpunum má sjá greinileg erlend áhrif. Til að mynda á Fáskrúðsfirði þar sem frönsk áhrif eru sterk. Þar má t.d. lesa götuheitin á íslensku og frönsku! Þá má sjá norsk áhrif má sjá í byggingum á Eskifirði og á Seyðisfirði en þarlendir sjómenn höfðu búsetu á þessum stöðum á síðustu og þarsíðustu öld. Á Egilsstöðum eru engin slík áhrif að finna en bærinn er sá yngsti á Austurlandi. Varð til á fimmta tug aldarinnar sem leið.  

 

Borgarfjörður eystri

Borgarfjörður eystri er nyrsti fjörðurinn sem gengur inn í Austfjarðahálendið. Hann er um 4ja km. breiður og 5 km. langur og mjög opinn fyrir hafáttum, einkum norðaustanátt. Undirlendi er með ströndinni og inn af fjarðarbotninum er breiður og grösugur dalur, um 8 km langur. Dalinn umlykur formfagur og litskrúðugur fjallahringur sem gerir Borgarfjörð eitt fegursta byggðarlag á landinu. Fjöllin eru með hinum elstu á Íslandi, um 10-15 milljón ára gömul, og hér er að finna annað stærsta líparítsvæði landsins. Bakkagerði er fallegt sjávarþorp þar sem búa um 100 manns. Flestir lifa á sjávarafla og búskap, en ferðaþjónustu vex fiskur um hrygg.

Þorpið er áhugavert, samsett af dreifðri byggð býla og engin götunúmer þar að finna. Íbúarnir eru gestrisnir og listfengir og gangast árlega fyrir vinsælum tónlistarhátíðum. Kirkjan er prýdd altaristöflu eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval. Við þorpið er Álfaborgin þar sem drottning álfanna er sögð búa og liggur þangað göngustígur að útsýnisskífu. Í Hafnarhólmanum er eitt besta aðgengi til fuglaskoðunar hérlendis . Í og við Borgarfjörð er eitt best skipulagða göngusvæði hérlendis með stórbrotnu og fjölbreyttu landslagi. Gönguleiðir í Stórurð og á Víknaslóðir eru góð dæmi um það. Frá Borgarfirði er hægt að komast til Breiðuvíkur, Húsavíkur og Loðmundafjarðar eftir jeppaslóða.

Breiðdalsvík

Breiðdalur er víðlend sveit miðað við aðra dali sem ganga inn af Austfjörðum. Breiðdalur skiptist með greinilegum mörkum í þrjá hluta, Norðurdal, Suðurdal og Útsveit. Breiðdalsvík, sem er þjónustumiðstöð hreppsins, er tiltölulega ungt kauptún og fór ekki að byggjast að marki fyrr en upp úr 1960. Íbúafjöldi 1. jan.2010 144. Um byggð á Breiðdalsvík er ekki vitað með fullri vissu fyrr en um 1880 er Gránufélagið lætur reisa þar vörugeymsluhús. En föst búseta var þar þó ekki fyrr en 1896 er Brynesverslun á Seyðisfirði reisti hús undir starfsemi sína efst á Selnesi við austurkrók Selnesbótar.

Vorið 1906 brann verslunarhúsið til kaldra kola og var þá óðar reist nýtt verslunarhús vestan víkurinnar. Stendur það hús enn og telst því elsta hús Breiðdalsvíkur. Gamla Kaupfélagið hefur verið endurreist og þar er nú jarðfræðisetur, enda vel við hæfi þar sem Austfjarðaeldstöðin er í Breiðdalnum eins og sjá má á litum fjalla. Þar er stofa Stefáns Einarssonar fv. prófessors við John Hopkins háskóla í Baltimore.

Djúpivogur

Berufjörður er um 20 km langur og 2-5 km að breidd. Hann liggur milli Hamarsfjarðar að sunnan og Breiðdalsvík að norðan. Upp úr honum ganga Búlandsdalur og Fossárdalur. Búlandstindur setur mikinn svip á fjörðinn og egghvass fjallarhringurinn, gnípur og ríolítinnskot eru áberandi. Flikrubergið, sem er grænleitt afbrigði þess er áberandi í lágum grænum höfða norðan megin fjarðarins einnig sker og boðar í fjarðarmynninu. Fjörðurinn er straummilkill. Nönnusafn og geislasteinasafn á Teigarhorni er meðal þess sem finnst í Berufirði. Í Berufjörð er hægt að komast eftir hringvegi 1 strandleiðina eða yfir Öxi, til Fljótsdalshéraðs.
Djúpivogur er þéttbýlið sunnan fjarðarins. Það stendur í skjóli undir Búlandstindi við náttúrulega höfn og hefur verið verslunarstaður síðan 20. júní 1589. Upphaflegi verslunarstaðurinn var í Gautavík og er hans getið í Landnámabók.

Djúpivogur er lifandi sjávarpláss og þar er líka menningunni gert hátt undir höfði. Skólahald hefur verið þar síðan 1888. Fugla- og steinasafn sem heldur úti heimasíðu. Langabúð, þar sem eru söfn Eysteins Jónssonar stjórnmálamanns og Ríkarðs Jónssonar listamanns, minjasafn og kaffihús. Glæsileg sundlaug, golfvöllur og íþróttasalur.
Frá Djúpavogi eru margar merktar gönguleiðir af öllum erfiðleikagráðum og nokkrar hefðir s.s. ganga á Búlandstind og Faðivorahlaup sem koma frá Útvarps og blaðamanninum Stefáni Jónssyni sem bjó þar lengi.

Egilsstaðir

Þéttbýlið Egilsstaðir var stofnað 1947 með lögum frá Alþingi. Nafnið dregur bærinn af stórbýlinu Egilsstöðum. Við stofnun þess voru 110 íbúar á staðnum. Sjúkrahúsið og búvélaverkstæði komu til skjala 1945, síðar bættist Kaupfélag Héraðsbúa við og varð þetta kveikjan að mikilli fjölgun íbúa. Opinberar stofnanir og þjónusta eru helstu afkomu-uppsprettur.Vegferð um Egilsstaði er upplagt að hefja við hringsjá á Hömrum fyrir ofan gamla Sláturhúsið sem nú er menningarmiðstöð.

Gálgaklettur er skammt frá Egilsstaðakirkju . Þar var fyrrum aftökustaður og er áletraður skjöldur til minningar um það. Frá kirkjunni er víðsýni yfir Löginn - og bjóðast vegleg verðlaun þeim sem getur tekið mynd af Lagarfljótsorminum. Annar útsýnisstaður er á klettinum við sundlaugina þar sem Kvennavarðan stendur. Hún var hlaðin í tilefni Vest-Norden ráðstefnu í bænum. Á Egilsstöðum er alþjóðaflugvöllur, menntaskóli, menningarhús, safnastofnun og afgreiðsla Sýslumanns.

Eskifjörður

Eskifjörður er innfjörður úr Reyðarfirði norðanverðum. Sunnan megin við hann er Vöðlavík, með sendinni strönd og malarrifi. Búið var meðfram strönd Eskifjarðar allri út að Kaganesi sem er nær undirlendislaust undir Snæfugli, þangað liggur slóði.

Norðmenn stunduðu síldveiðarvið Eskifjörð upp úr 1870 og höfðu aðsetur með strandlengjunni og má víða greina leifar þeirrar atvinnustarfsemi. Námuvinnsla á silfurbergi var í Helgustaðanámu frá 17 öld, fram á fyrri hluta 20. aldar og er göngustígur þangað frá Eskifirði. Á leið þangað er Mjóeyri sem er síðasti aftökustaður á Austurlandi og þar er rekin ferðaþjónusta. Börn og unglingar bæjarins hafa sett þar vegalengdaskilti til allra helstu staða heims. Þau hafa einnig markað útlínur hvals í fjörunni gengt bænum.

Eitt af því sem setur hlýlegan svip á Eskifjarðarkaupstað eru sjóhúsin sem standa út í fjörðinn. Sum þeirra eru lifandi söfn og frábært að heimsækja þau. Annað er Gamlabúð sem er sjóminja og atvinnuvegasafn, þar er sagan gerð lifandi og leiðsögnin frábær. Listaverkið sem prýðir Hraðfrystihúsið er einnig virði skoðunarferðar. Svo er Myllan og fossinn í Bleiksánni sem er upplýst árið um kring.

Norðan fjarðarins gnæfa Askja og Hólmatindur sem eru einkennistákn fjarðarins.Milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar er ekið yfir Hólmaháls. Þar er völvuleiði sem vert er að skoða. Einnig er Hólmanes sem er friðlýstur fólkvangur neðan vegar. Þar eru gönguleiðir merktar og þar má finna fuglabjarg með tiltölulega auðveldu aðgengi.

Á Eskifirði er golfvöllur, ný útisundlaug, gott íþróttahús, skóli og leikskóli, Þar er einnig heilsugæsla, lögreglustöð, og Sýslumannssetur.

Fáskrúðsfjörður

Fáskrúðsfjörður er vel í sveit settur í hjarta Austfjarða. Næstur honum til norðurs er Reyðarfjörður og skilur Vattarnes á milli með illræmdum skriðum sínum. Sunnan við er Stöðvarfjörður og skilur Kambanes í millum. Eyjan Skrúður í fjarðarmynninu er nafngjafi fjarðarins. Fáskrúðsfjörður byggir afkomu sína að mestu á sjávarútvegi og þjónustu og hefur atvinnulíf blómgast með tilkomu ganganna og stækkun atvinnusvæðis.

Kauptúnið Búðir býr að mörgum fallegum gömlum húsum og snyrtilegu umhverfi. Í daglegu tali er Fáskrúðsfjörður nefndur "franski bærinn" og götuskilti eru á frönsku og íslensku. Tengingin við Frakkland á rót að rekja til veiða franskra sjómanna undan Austfjörðum. Frakkar reistu spítala, kapellu og skammt frá bænum er að finna kirkjugarð franskra sjómanna. Halda bæjarbúar "franska daga" síðustu helgina í júlí ár hvert.

Mjóifjörður

Mjóifjörður er 18 km. langur og skerst inn í ströndina millum Norðfjarðarflóa og Seyðisfjarðar. Hann er einstaklega veðursæll, berjablár og girtum tignarlegum fjöllum. Leiðin til Mjóafjarðar frá Fljótsdalshéraði er þéttbýlisbúum og öðrum gestum einstök upplifun, allt að Dalatanga þar sem er bíða viti og býli við ysta haf. Á leiðinni eru fagrir fossar, lækir, skriður, klettar, dalir og annað hið besta er austfirsk náttúra hefur fram að bjóða. Fara má sjóleiðina með flóabáti frá Neskaupstað tvisvar í viku. Brekkuþorp er snotur þéttbýliskjarni er byggir á sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu.

Neskaupstaður

Norðfjarðaflói er sunnan við Mjóafjörð og afmarkast af Nípunni, hæsta standbergi í sjó fram á Íslandi, og Barðsneshorni að austanverðu.Norðfjörður er nyrsti fjörðurinn sem gengur inn úr Norðfjarðaflóa. Sunnan við eru Hellisfjörður og Viðfjörður. Neskaupstaður fékk kaupstaðaréttindi 1929. Sjávarútvegur, fiskvinnsla og tengd þjónusta er aðalatvinnuvegur íbúanna.Síldarvinnslan hf. rekur eitt stærsta fiskiðjuver í Evrópu og gerir út mörg þekkt aflaskip. Á Neskaupstað er Fjórðungssjúkrahús Austurlands og Verkmenntaskóli Austurlands. Þá er nokkur landbúnaður í Norfjarðasveit. Menningastarfsemi er öflug og listiðnaður blómstrar með Gallerý Theu og Listasmiðjuna í fararbroddi. Íþróttalíf stendur með blóma. Blakdeild Þróttar er í fremstu röð á landinu, sundaðstaða með ágætum, golfvöllur er á staðnum og kajakklúbburinn Kaj er hinn elsti á landinu.

Oddsskarð er miðstöð skíðaiðkunar í Fjarðabyggð og oft kallað "Austfirsku Alparnir." Norðfjarðarfólkvangur sem friðlýstur var 1972 er yndisreitur Norðfjarðarbúa. Þar eru stuttar gönguleiðir og margháttaður fróðleikur um ýmis náttúrufyrirbæri. Það er ekki skortur á áhugaverðum göngu- og ferðaleiðum í Norðfirði og hefur Ferðafélag Fjarðamanna verið ötult við merkingu þeirra. Gerpissvæðið, eyðifirðirnir Hellis- og Viðfjörður,Vöðlavík og Sandvík eru skemmtileg svæði og söguslóðir tengdar sjósókn og búsetu erlendra aðila.

Mikil upplifun er að fara í Páskahelli, t.d. frá Norðfjarðarvita. Völurnar sem byltast með öldunni upp og niður fremja tónlist allt eftir veðurfari. Þær eru misstórar og hljóma aldrei alveg eins; sannkölluð sjávarharpa. Páskahellir er þægilegur viðkomustaður ferðamanna; stutt að fara, undurfallegt landslag, náttúrustígur með upplýsingaskiltum, dúfur í varpi, sjávarlíf í pollum, holur eftir forn tré, fallegt útsýni, sérkennilegar urðir og margt fleira.

Reyðarfjörður

Reyðarfjörður er lengstur Austfjarða um 30 km langur. Hann liggur milli Vöðlavíkur að norðan og Fáskrúðsfjarðar að sunnan. Undirlendi er talsvert, dýpi mikið og fjörðurinn er veðursæll. Þorpið nefnist Búðareyri og stendur að norðanverðu í firðinum. Í gegnum bæinn fellur Búðará. Helstu atvinnuvegir eru þjónusta og verslun en stærsti vinnustaðurinn er álver Alcoa við Hraun. Höfuðstöðvar Vegagerðar ríkisins á Austurlandi eru á Reyðarfirði og um bæinn liggja krossgötur til Héraðs og hinna fjarðanna í sveitafélaginu Fjarðabyggð.

Reyðfirðingar lifðu litríka tíma á dögum hernámsins. Þangað komu Bretar, Norðmenn og Bandaríkjamenn. Íslenska stríðsminjasafnið á Reyðarfirði gefur góða mynd af þeim tíma Íslandssögunnar en finna má stríðsminjar víðsvegar um fjörðinn. Í kirkjugarðinum hvíla nokkrir breskir hermenn. Jarðhiti er til staðar í firðinum og þar hefur rafveita starfað frá 1930 er Búðará var virkjuð í Svínadal. Á Kollaleiru er munkaklaustur. Margar merktar gönguleiðir eru í og við Reyðarfjörð, ganga á Grænafell er vinsæl og er þá oftast farið frá Fagradal. Undir Grænafelli var samkomustaður Reyðfirðinga fyrrum. Ganga upp með Geithúsárgili er fögur og hrikalegt gilið augnayndi. Gönguleiðin um Stuðlaskarð til Fáskrúðsfjarðar er einnig skemmtileg og auðveld og jeppaslóðar liggja um Þórdalsheiði til Skriðdals.

 

 

Seyðisfjörður

Á Seyðisfirði er mikið um gömul timburhús sem kúra í skjóli hárra og formfagurra fjalla. Litrík, norskættuð timburhúsin frá fyrstu áratugum 20. aldarinnar gera Seyðisfjörð einstakan meðal bæja á Íslandi. Fjölmargir listamenn hafa komið við sögu Seyðisfjarðar og hafa dvalið þar við listsköpun um lengri eða skemmri tíma. Frá náttúrunnar hendi er hafnaraðstaðan í firðinum einstök og hefur hún gert Seyðisfjörð að mikilvægri samgönguæð allt frá aldamótunum 1900 til dagsins í dag. Eina farþega- og bílaferjan sem siglir milli Íslands og meginlands Evrópu kemur til Seyðisfjarðar vikulega. Fiskvinnsla og útgerð hafa verði aðalatvinnuvegurinn fram til þessa en ferðaþjónusta vex stöðugt. Í bænum er tónlistarskóli, heilsugæsla og ágæt aðstaða til hvers kyns íþróttaiðkunar.

Hýr halarófa er árviss viðburður.

MANNLÍF

Seyðisfjarðarkaupstaður er rómaður fyrir afslappað andrúmsloft og úrval menningarviðburða. Þar er að finna Tækniminjasafn Austurlands, Fjarðarselsvirkjun og hljóðskúlptúrinn Tvísöng. Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, stendur fyrir sýningum árið um kring. Þar er m.a. að finna verk eftir hinn kunna listamann Dieter Roth og The Dieter Roth Academy.

Á Seyðisfirði er fjöldi gönguleiða sem henta öllum.

ÚTIVIST

Fjölbreyttir möguleikar eru til útivistar í Seyðisfirði. Þar má bæði finna langar og stuttar gönguleiðir, á borð við Fossagönguna, Fjarðarselshringinn, Tvísöng og Vestdal. Einnig er hægt að skella sér í fjallgöngu á Bjólf, Hádegistind eða Strandartind. Það er líka skemmtilegt að rölta um bæinn í rólegheitum og skoða gömlu húsin.

Á Seyðisfirði eru leikvellir fyrir börn og einnig má finna bæði golf- og folfvöll. Svo er hægt að skella sér í sund í hinni sjarmerandi Sundhöll Seyðisfjarðar.

Stöðvarfjörður

Stöðvarfjörður liggur milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur. Fjörðurinn er grunnur og undirlendi takmarkað að sunnanverðu. Inn af firðinum skerast Jafnadalur og Stöðvardalur. Um Stöðvardal fellur samnefnd á út í fjörð og myndar svonefnda Öldu við sjóinn. Stöð hét kauptúnið áður og er snyrtilegt þorp. Viðurværi hafa Stöðfirðingar af sjávarútvegi en þar þrífst einnig blómlegur listiðnaður og ferðaþjónusta. Út með firðinum norðanverðum, rétt við hin gömlu hreppamörk Stöðvarhrepps og Fáskrúðsfjarðarhrepps, er einstakt náttúrufyrirbrigði; gatklettur sem nefnist Saxa. Í austlægum vindáttum dregur Saxa til sín þara, rekavið og annað lauslegt úr sjó, kurlar það í smátt og feykir hátt í loft upp.

Fjallahringur Stöðvarfjarðar er fagur. Ofan kauptúnsins eru Steðji og Sauðabólstindur og sunnan við fjörðinn eru Súlurnar. Súlurnar eru blágrýtistindur sem klofinn er í tennt. Þangað er krefjandi gönguleið fyrir klifurkappa. Neðra eru Kambanesskriður sem áður fyrr voru verulegur farartálmi. Á Kambanesi er fagurt útivistarsvæði. Í Jafnadal er steinbogi í hlíðum Álftafells og einnig klettaþyrpingin Einbúinn. Fjöllin eru auðkleif og sérlega góð gönguleið er upp á svonefndar Landabrúnir og Ólukku. Í þessum gömlu formfögru fjöllum hafa fundnist dýrgripir þeir sem prýða steinasafn Petru.

Vopnafjörður

Vopnafjörður liggur milli Héraðsflóa og Bakkaflóa, víðlendur og veðursæll. Vopnafjarðarhérað skiptist í þrjá dali. Syðstur er Hofsdalur, í miðjunni Vesturárdalur og nyrstur er Selárdalur. Um þessa dali falla þrjár af þekktari laxveiðiám landsins, Hofsá, Selá og Vesturdalsá. Í Selárdal eru heitar uppsprettur og við þær sundlaug sem engan á sinn líka með útsýni yfir Selána. Fyrir miðjum firði er Kolbeinstangi þar sem Vopnafjarðarbær stendur. Norðan tangans eru Nýpsfjörður og inn af honum Nýpslón.

Af Bustarfelli er einstakt útsýni yfir fjörðinn og samnefndur torfbær er landskunnur. Útsýni er einnig mikið af Hellisheiðinni. Í kauptúninu Vopnafirði hefur verið verslunarstaður frá fornu fari. Þangað lágu líka leiðir skipa er fluttu landnema til Vesturheims. Nú er þar Vesturfarmiðstöð í menningarsetrinu Kaupvangi þar sem veitt er þjónusta við að rekja ættartengsl Vestur-Íslendinga ef unnt er. Í húsinu er einnig Múlastofa, sem helguð er lífi og list bræðranna Jóns Múla og Jónasar Árnasona, svo og þekkingarnet Austurlands.Sjávarútvegur og ferðaþjónusta eru meginatvinnugreinar og er stærsti atvinnurekandinn HB Grandi hf.

Austurland

Bæir og þorp

Allir bæir á Austurlandi hafa sín sérkenni og í sumum sjávarþorpunum má sjá greinileg erlend áhrif. Til að mynda á Fáskrúðsfirði þar sem frönsk áhrif eru sterk. Þar má t.d. lesa götuheitin á íslensku og frönsku! Þá má sjá norsk áhrif í byggingum á Eskifirði og á Seyðisfirði en þarlendir sjómenn höfðu búsetu á þessum stöðum á síðustu og þarsíðustu öld. Á Egilsstöðum eru engin slík áhrif að finna en bærinn er sá yngsti á Austurlandi, varð til á fimmta tug aldarinnar sem leið, og hefur orðið að þjónustumiðstöð Austurlands.  

Map Vopnafjörður Borgarfjörður Eystri Egilsstaðir Seyðisfjörður Mjóifjörður Neskaupstaður Breiðdalsvík Eskifjörður Reyðarfjörður Fáskrúðsfjörður Stöðvarfjörður Djúpivogur