Snæfellsstofa
Snæfellsstofa er gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Hún opnaði árið 2010 og er fyrsta vistvænt vottaða byggingin á Íslandi samkvæmt BREEAM umhverfisstaðlinum. Snæfellsstofa var hönnuð af ARKÍS Arkitektum.
Form Snæfellsstofu er innblásið af eilífum sköpunarmætti jökulsins; hvernig hann ýmist brýtur sér leið eða hopar og sverfur nýjar, síbreytilegar náttúruperlur í landslagið. Þessi sköpunarverk eru fyrirmyndin að þeim rýmum og formum sem finna má í Snæfellsstofu. Hvað varðar byggingarefni sækir Snæfellsstofa hughrif til Gunnarshúss; lerki í veggklæðningum, úthagatorf á þaki og hleðslur á lóð úr heimfengnu grjóti. Skammt undan eru miklir skógar sem verða sýnilegir í ásýnd hússins. Lárétt og dálítið hallandi jarðlög (tertíer hraun) með áberandi skáskotnum berggangi endurspeglast í meginásnum bæði í formi og efnis- og litavali. Byggingin nýtur sín einstaklega vel þar sem hún stendur í hlíðum Fljótsdalsins.