Fara í efni

Á Austurlandi er margt að skoða og upplifa. Við mælum með því að þið gefið ykkur að minnsta kosti þrjá daga í ferðina. Ef þið hafið ekki svo rúman tíma er alltaf hægt að velja eina eða tvær dagleiðir eða ákveðna staði og koma aftur seinna, það er alltaf skemmtilegra að tíma til að njóta.

Athugið að sumar dagleiðirnar gera ráð fyrir akstri um svæði þar sem takmörkuð þjónusta er til staðar og því gott að vera við öllu búin. Einnig er oft um talsverðan akstur að ræða og því gott að vera búin að ákveða við hvaða áfangastaði á að stoppa svo þið verðið ekki dagþrota.

Flakkað um firði

 

Seyðisfjörður
Litagleði og sköpunarkraftur eru áberandi á Seyðisfirði en bærinn einkennist af litskrúðugum húsum og fjölbreyttu listalífi. Síðustu ár hefur staðurinn verið einna þekktastur fyrir hina einstaklega myndrænu Regnbogagötu sem liggur að Seyðisfjarðarkirkju, sem einnig er kölluð Bláa krikjan. Það er auðséð hvers vegna staðurinn er jafn vinsæll á meðal ferðamanna og hann er, náttúrufegurðin í bland menningarlíf staðarins hvetur gesti til þess að draga fram gönguskó og myndavél.  Skærlitu norsku hús bæjarins eru flest byggð á fyrri hluta 20. aldarinnar. Vegna nálægðar við Evrópu og hversu góð hafnarskilyrðin í firðinum eru frá náttúrunnar hendi var bærinn mikilvæg miðstöð verslunar og þjónustu á 19. og 20. öld. Höfnin er enn í mikilli notkun því þangað siglir ferja einu sinni í viku. Ferjan tengir Ísland sjóleiðina við Danmörku og Færeyjar en á sumrin flytur Norræna ógrynni af ferðamönnum til landsins. Þrátt fyrir að íbúar Seyðisfjarðar séu einungis um 700 þrífst þar öflugt listalíf sem inniheldur meðal annars listahátíðir, gestavinnustofur listafólks, og hljóðskúlptúr uppi í fjalli. Göngustígar áhugasama meðal annars að hljóðskúlptúrnum Tvísöng, inn með Fjarðaránni sem rennur út í fjörðinn, eða um hæðir og dali til þess að skoða fossa og aðra fallega staði.  Þjónustustigið á Seyðisfirði er frábært, þar er mikið um veitinga- og gististaði. Áherslur Ganga – innan um fossana á náttúruminjasvæðinu í Vestdal, upp að Vestdalsvatni og skúta Fjallkonunnar. Bragð – á Seyðisfirði er hægt að fá allt frá einstaklega fersku sushi til skapandi skyndibita, auk þess sem bjór er bruggaður á staðnum undir nafni skips sem fórst á stríðsárunum, El Grillo.  Afþreying – skelltu þér í ferð á kajak, eða fiskibát til þess að reyna fyrir þér í sjóstangveiði.
Tvísöngur
Tvísöngur er tónlistarskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne en listaverk Lukasar Kühne snúast um samspil rýmis og tíðni. Það sam­an­stend­ur af fimm sam­byggðum hvelf­ing­um af mis­mun­andi stærð. Hæð hvelf­ing­anna er tveir til fjór­ir metr­ar en flat­ar­mál verks­ins í heild er rúmlega 30 m2. Hver hvelfing hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni.Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur. Verkið er staðsett á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Til þess að fara að Tvísöng þarf að ganga malarveg sem liggur á móti fiskvinnslunni Brimberg í 15-20 mín.
Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands
Starfsemi Skaftfells er helguð samtímamyndlist á alþjóðavísu. Í miðstöðinni er öflug sýninga- og viðburðadagskrá, starfræktar gestavinnustofur fyrir listamenn og boðið upp á fjölþætt fræðslustarf. Á jarðhæð er veitingastofa þar sem boðið er upp á kaffi, öl og mat, ásamt þráðlausu neti og listbókasafn. Hægt er að skoða Geirahús og verk eftir alþýðulistamanninn Ásgeir Jón Emilsson (1931-1999) eftir samkomulagi. Í mars 2013 hlaut Skaftfell Eyrarrósina fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Listrænn heiðursstjórnandi Skaftfells 2015-2016 er skoski sýningarstjórinn og rithöfundurinn Gavin Morrison.
Tækniminjasafn Austurlands
Tækniminjafn Austusrlands er ein af þeim byggingum á Seyðisfirði sem varð fyrir skriðu í desember 2020. Safnið er því lokað eins og er, en safnið verður opnað í sumar. Tækniminjasafn Austurlands fjallar um sögu Íslands með áherslu á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag.  Sýndir eru m.a. munir, minjar, hús, myndir og verkferlar.  Vegna sérhæfingar okkar sem minjasafns er fjallar um nútímavæðingu þjóðarinnar er mikið um óvenjulegar vélar og búnað og aðrar menningarminjar sem ekki eru til sýnis í mörgum öðrum söfnum landsins.    Tækniminjasafnið sýnir hvernig tæknibreytingar á fjölmörgum sviðum, t.d. véltækni, rafmagn, fjarskipti, samgöngur og byggingalist eru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi. Safnið er einnig byggðasafn Seyðfirðinga.  Haldin eru námskeið og sýningar auk þess sem við stundum rannsóknir og kennslu og tökum þátt í margvíslegu menningarstarfi og samstafsverkefnum.   Sýningar eru lifandi og leitast við að endurvekja andrúm tímans sem fjallað er um. Safnasvæðið er jafnframt tilvalið útisvistarsvæði fyrir gönguferðir og samveru.  Lítil verslun er á safninu þar sem hægt er að fá bækur, sælgæti og minjagripi.
Regnbogagatan Seyðisfirði
Regnbogagatan á Seyðisfirði er líklega meðal mest mynduðu kennileita á Austurlandi, enda einstaklega skemmtilegt Regnbogagatan á Seyðisfirði er á meðal mest mynduðu kennileita á Austurlandi. Verkefnið var upprunalega tímabundin viðgerð á götunni, sem átti að endast eitt sumar. Verkefnið sló hins vegar aljgörlega í gegn, enda einstaklega skemmtilegt uppátæki hjá bæjarbúum sem hjálpuðust að við að mála götuna jafn fallega og raun ber vitni. Nú er gatan máluð á hverju vori og er hún einn vinsælasti ljósmyndaáfangastaður landsins. Við enda regbogagötunnar stendur svo Bláa kirkjan sem laðar ekki síður að sér gesti.
Brimnesviti
Brimnesviti stendur á Brimnesi sem skagar fram í fjarðarmynni á norðurströnd Seyðisfjarðar. Um 10 km. akstur er frá miðbæ Seyðisfjarðar út að Selsstöðum en þaðan liggur 5,5 km. gönguleið eftir gömlum jeppaslóða út á Brimnes. Fyrr á tímum var ein öflugasta útgerð landsins á Brimnesi og þar má enn líta tóftir gamalla bygginga í einstaklega fallegu umhverfi.  
Brimnes
Brimnes skagar fram í fjarðarmynni á norðurströnd Seyðisfjarðar. Um 10 km. akstur er frá miðbæ Seyðisfjarðar út að Selsstöðum en þaðan liggur 5,5 km. gönguleið eftir gömlum jeppaslóða út á Brimnes. Fyrr á tímum var ein öflugasta útgerð landsins á Brimnesi og þar má enn líta tóftir gamalla bygginga í einstaklega fallegu umhverfi. Á nesinu er einnig viti. 
Fardagafoss gönguleið
Fardagafoss fellur skammt frá Egilsstöðum, við rætur Fjarðarheiðar. Hann er efstur fossanna í Miðhúsaánni en hinir heita Gufufoss og Folaldafoss. Merkt gönguleið liggur að fossinum og er hún greiðfær fyrir utan seinasta spölinn sem er svolítið erfiður yfirferðar. Gengið er frá bílastæði við Áningatstein (við veg 93.) Á bak við fossinn er hellir en sagan segir að í honum hafi búið ferleg tröllskessa. Talið er að göngliggi í gegnum Fjarðarheiðina yfir í Gufufoss í Fjarðará í Seyðisfirði. Skessan undir Fardagafossi var fræg fyrir að eiga ketil fullan af gulli. Þegar skessan var orðin svo gömul að hún vissi dauða sinn nálægan þá renndi hún katlinum með gullinu niður í djúpan skessuketil sem er í miðjum Gufufossi, neðar í Miðhúsaánni. Sagt er að sjáist í handfangið á katlinum þegar lítið vatn er í ánni.  Powered by Wikiloc
Íslenska Stríðsárasafnið
Andi stríðsáranna endurvakinn Gestir Íslenska stríðsárasafnsins hverfa rúm 70 ár aftur í tímann, allt aftur til 5. áratugarins þegar heimsstyrjöldin síðari geisaði. Sýningar safnsins gera þessu tímabili vönduð skil, bæði út frá sjónarhóli hins almenna hermanns í setuliði bandamanna og íbúa Reyðarfjarðar. Safnið er staðsett við bragga sem voru hluti af stórum spítalakampi. Sjá má líkan af kampnum ásamt aðstöðu óbreyttra hermanna og yfirmanna. Fjöldi upprunalegra muna glæða safnið lífi og veita óvenjulega innsýn í þessa löngu liðnu tíma, þá ógn sem stöðugt vofði yfir en einnig hversdagslegar aðstæður og tískustrauma. Íslenska stríðsárasafnið geymir óvenjulega tíma í lífi íslensku þjóðarinnar og skapar ógleymanlegar stundir þeim sem það heimsækja. Safnið er opið alla daga kl. 13:00 - 17:00 (júní-ágúst) eða eftir samkomulagi á öðrum árstímum.  
Hólmanes
Hólmanes milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar var friðlýst sem fólkvangur og að hluta til sem friðland árið 1973. Þar er mikið fuglalíf og sérkennilegar bergmyndanir. Hólmanes er kjörið til útivistar, hvort sem er í klettum eða fjöru.  Á leið út í nesið frá Eskifirði má líta útlínur hvals sem skólabörn mynduðu í fjörunni.  Auðvelt aðgengi er að bjarginu og tilvalinn staður til fuglaskoðunar.  Mikilfengleg urð verður á vegi göngugarpa Reyðafjarðarmegin. Powered by Wikiloc
Eskifjörður
Eskifjörður er eins og sýnishorn af Austurlandi, en það má segja að í firðinum sé allt dregið saman sem er heillandi við landshlutann í heild. Samspil sögu og náttúru er töfrandi, en á Eskifirði kemstu í kynni við tignarleg fjöll, náttúruverndarsvæði, svartar strendur, söguna eins og tíminn hafi staðið í stað, og áhugaverða jarðfræði.  Þegar þú nálgast Eskifjörð eftir vegi 92 hringar vegurinn sig um rætur Hólmatinds, sem er stolt og prýði Eskfirðinga. Fjallið er 985 metra hátt og gnæfir yfir fólkvanginn og friðlandið Hólmanes, þar sem göngustígar leiða þig á milli klettamynda og niður í fjöru.  Í þorpinu eru minjar um sögu fiskveiðar og verslunar áberandi en Eskifjörður varð löggildur verslunarstaður árið 1789. Heimsókn í Sjóminjasafn Austurlands setur söguna í samhengi, og heimsókn í Randulffssjóhús veitir persónulega innsýn á svæðið. Sjóhúsið er gömul verbúð þar sem hægt er að sjá vistarverur sjómanna eins og þær voru 1890. Sjávarútvegssýningarnar og bragðið af staðbundnu sjávarfanginu á veitingastaðnum tvinnast saman og skapa einstaka stemmingu í húsinu. Á sumrin getur þú leigt bát og veiðafæri og reynt fyrir þér við veiðar á firðinum. Áherslur Ganga – innan um klettana og fuglana á Hólmanesi, og svo er alltaf möguleiki á því að hvalir sýni sig undan ströndinni. Bragð – sýndu hugrekki og smakkaðu hákarl í Randulffssjóhúsi.  Bað – með heimafólki í sundlaug Eskifjarðar, þar eru bæði rennibrautir og heitir pottar. Bíltúr – eftir vegi 954 til Vöðlavíkur, eyðivíkur þar sem svört strandlengja teygir sig milli hárra fjalla. Nauðsynlegt er að vera á fjórhjóladrifnum bíl. 
Ferðaþjónustan Mjóeyri
Gistiheimilið er staðsett í fögru og friðsælu umhverfi á Mjóeyri, rétt utan við þéttbýlið við Eskifjörð. Húsið er nýlega innréttað, var byggt árið 1895 og ber merki gamalla og nýrra tíma. Við leggjum áherslu á hlýlegt og heimilislegt andrúmsloft. Stórkostlegt útsýni er út Reyðarfjörð, inn Eskifjörð, yfir Hólmanes og Hólmatind. Hægt er að fá morgunmat og kvöldmat ef pantað er með fyrirvara. Boðið er upp á gistingu í fjórum, eins til tveggja manna herbergjum með sameiginlegum eldhúskrók, setustofu með sjónvarpi og góða hreinlætissaðstöðu. Útvarp og sjónvarp er í öllum herbergjum. Reyklaust umhverfi er innandyra. Stór sólpallur er við innganginn á neðri hæð og þaðan er einnig gengið inn í morgunverðarsal. Ferðaþjónustan á Mjóeyri býður einnig upp á fimm 39m2 smáhýsi. Húsin eru klædd að innan með panil og á gólfi er parket, hvert hús er með verönd og á efri hæð eru svalir með frábæru útsýni. Hvert hús rúmar 4-6 manns. Í setustofu er sjónvarp og útvarp með geislaspilara. Eldhúsið er úbúið með örbylgjuofni, ísskáp, hraðsuðukatli og pressukönnu auk áhalda og borðbúnaðar. Í setustofunni er sófi sem auðvelt er að breyta í þægilegt tvíbreitt rúm. Á efri hæðinn er eitt herbergi með 2 rúmum og svefnloft með pláss fyrir 2-3 persónur. Baðherbergið er á neðri hæðinni. Á Mjóeyri er einnig baðhús með heitum potti og sauna. Þá eru þrjú nýbyggð 24m2 og tvö 29m2 hús. Þau eru með 2x90cm rúm á neðri hæðinni, eldunaraðstöðu, baðherbergi með sturtu og svefnlofti. Fínt fyrir tvo til fjóra gesti. Öll húsin eru með aðgangi að interneti.  Í næsta nágrenni Mjóeyrar er Randulffssjóhús sem er opið frá kl 12-21 alla daga sumarsins. Þar er matseðil bæði í hádeginu og á kvöldin og kaffimatseðil yfir daginn. Svo er auðvitað hægt að panta fyrir hópa á öðrum tímum. Í Randulffssjóhúsi starfa lærðir kokkar sem leggja mikla áheyrslu á ferskan mat úr nágrenninu.  http://www.mjoeyri.is
Hólmatindur gönguleið
Hólmatindur, 985 metra hár, er stolt Eskfirðinga en glæsilegur tindurinn stendur austan megin í firðinum, gengt þorpinu. Krefjandi gönguleið liggur á fjallið en á toppnum geta göngugarpar kvittað í gestabók.  Hólmatindur er eitt af „Fjöllunum fimm í Fjarðabyggð “ en það er verkefni sem skólabörn fundu upp en Ferðafélag Fjarðamanna hrinti í framkvæmd.    Powered by Wikiloc
Helgustaðanáma gönguleið
Silfurbergsnámuna í Helgustaðalandi er að finna á leiðinni frá Eskifirði til Vöðlavíkur og liggur göngustígur upp að henni.  Helgustaðanáma er gömul silfurbergsnáma í landi Helgustaða í Eskifirði sem var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Helgustaðanáma er ein frægasta silfurbergsnáma í heimi en þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Silfurberg er kennt við Ísland á fjölörgum tungumálum, til dæmis er enska heitið Iceland spar. Mest af því silfurbergi sem er að finna á söfnum víða um heim kemur úr Helgustaðanámu en einhver stærstu og tærustu eintök silfurbergs í heiminum hafa fundist í námunni. Silfurberg er sérlega tærir kristallar af steindinni kalsít en bergið gegndi veigamiklu hlutverki í þróun margvíslegra rannsókna á eiginleikum ljóss. Í dag er silfurbergið friðlýst og stranglega bannað er að nema það brott. 
Neskaupstaður
Neskaupstaður er sá þéttbýliskjarni sem stendur austast á Íslandi. Bærinn stendur á myndrænum stað við rætur himinhárra, fagurra fjalla. Fjörðurinn og fjöllin sem umlykja hann bjóða óteljandi möguleika til afþreyingar, til dæmis fjölbreyttar gönguleiðir og hestaferðir.   Neskaupstaður komst fyrst í vegasamband við aðra þéttbýliskjarna árið 1949, með veginum um Oddsskarð sem þó var ekki fær nema hluta úr ári. Með tilkomu Norðfjarðarganga 2017 komst Neskaupstaður loksins í öruggt vegsamband við Eskifjörð. Neskaupstaður er þekktur fyrir líflega tónlistarsenu en ein af þekktari sumarhátíðum á Íslandi, þungarokkshátíðin Eistnaflug, er árlegur viðburður. Safnahúsið er líka áhugavert fyrir þá sem vilja kynna sér menningu svæðisins en þar eru þrjú flott söfn undir einu þaki; Náttúrugripasafn, Sjóminja- og smiðjusafn Jósafats Hinrikssonar og Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar.   Eitt af því sem er sérstaklega heillandi við Neskaupstað er að þar hefur gömlum bryggjum verið haldið við og á sumrin getur verið mjög líflegt við sjávarsíðuna í bænum. Þaðan er hægt að fara í bátsferðir en það er magnað að sjá landslagið í Norðfirði, þ.m.t. Rauðubjörg, af sjó, og stundum sjást hvalir. Á landi er er skemmtilegt að keyra í gegnum þorpið, eins langt í austur og hægt er, til þess að skoða fólkvanginn sem er fyrir utan bæinn. Þar eru fjölmargar gönguleiðir og fjölskrúðugt fuglalíf undir bröttum hlíðum Nípunnar, auk Páskahellis sem er í fjörunni.  Neskaupstaður er með stærri byggðakjörnum á Austurlandi og þar er Umdæmissjúkrahús Austurlands. Þjónustustig bæjarins er gott, þar eru til dæmis góðir veitingastaðir og hótel.  Áherslur  Ganga – eftir stígnum sem liggur frá snjóflóðavarnargarðinum, rétt við tjaldsvæðið, en útsýnið frá honum yfir fjörðinn er magnað.   Bragð – lókal lambakjöt eða ferskt sjávarfang á einhverjum af veitingastöðum bæjarins, eða lautarferð í Lystigarðinum.   Bað – í Stefánslaug (þar er rennibraut og magnað útsýni), sem er í miklu uppáhaldi hjá heimamönnum.   Bíltúr – í gegnum bæinn, að bílastæðinu við Fólkvanginn, og skelltu þér svo í gönguferð. 
Sundlaugin Neskaupstað
Stefánslaug er einstaklega glæsileg útisundlaug með heitum útipottum, gufubaði og tveimur stórum rennibrautum. Staðsett á sólríkum stað í hlíðum Neskaupstaðar, veitir sundlaugin rómaða sólbaðaðstöðu og einstaka fjallasýn út yfir Norðfjörðinn.  Stefánslaug var tekin í notkun árið 1943 og stendur því á gömlum merg. Á árunum 2001 til 2006 var sundlaugin endurbyggð nánast frá grunni, fyrst 25 metra sundlaugarkarið og síðan þjónustuhúsið. Skömmu síðar bættust svo stóru rennibrautirnar við aðstöðuna en þær njóta mikilla vinsælda, ekki hvað síst hjá yngstu kynslóðinni.
Oddskarð
Það var ekki fyrr en árið 1949 að Norðfjörður komst fyrst í vegasamband við nágrannabyggðirnar. Leiðin lá um Oddsskarð, einn hæsta fjallveg á landinu, sem jafnan var erfiður yfirferðar vegna snjóþyngsla. Var því hafist handa við gerð jarðganga undir Oddsskarð á árunum 1974-1977. Göngin eru 626 m löng í 632 m h.y.s.  Við Oddsskarð er miðstöð vetraríþrótta. Þar er frábært skíðasvæði og skemmtilegar gönguleiðir. Þar hafa verið haldnar Týrólahátíðar um páska síðustu ár. Margháttuð fjölskylduskemmtun er í boði á skíðasvæðinu.
Safnahúsið í Neskaupstað
Húsið sem á sér merka sögu hefur að geyma þrjú glæsileg söfn undir sama þaki.  Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar Tryggvi Ólafsson er fæddur árið 1940 á Norðfirði. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1960-61 og við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn 1961-66. Tryggvi er meðal þekktustu núlifandi myndlistarmanna Íslendinga.  Sjóminja- og smiðjumunasafn Jósafats HinrikssonarÁ safninu eru áhugaverðir hlutir sem tengjast sjávarútvegi, bátasmíði, járn- og eldsmíði og einnig gömlum atvinnuháttum á Íslandi. Þarna er að finna eftirlíkingu af eldsmiðju föður Jósafats þar sem Jósafat lærði og byrjaði starfsferil sinn.  Náttúrugripasafnið í NeskaupstaðSafnið var stofnað 1965.  Fyrsta sýning þess var opnuð sumarið 1970 í Gagnfræðaskólanum í Neskaupstað,  en árið 1971 var sýningarsalur safnsins opnaður að Mýrargötu 37.  Var Hjörleifur Guttormsson fyrsti forstöðumaður safnsins og aðalhvatamaður þess.  Árið 1989 flutti safnið að Miðstræti 1,  þar sem það var til húsa til ársins 2006, en þá var það flutt í Safnahúsið í Neskaupstað, Egilsbraut 2, Neskaupstað. Safnið hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga ásamt ágætu fiskasafni með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskar plöntuvísindasafn og skordýrasafn. Safnið hefur að geyma flesta íslenska fugla auk fjölda flækinga ásamt ágætu fiskasafni með ýmsum sjaldséðum fiskum. Einnig eru í safninu ýmsir gripir af sjávarbotni, þar á meðal mjög gott safn skeldýra. Villtu íslensku spendýrin eiga sína fulltrúa á safninu og þar er einnig mjög gott steinasafn. Þá varðveitir safnið austfirskar plöntuvísindasafn og skordýrasafn.

Ferðaleiðir

Á Austurlandi ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Þar eru lítil þorp, stórbrotin strandlengja, þröngir firðir, fossar og fjöll. Nálægðin við náttúruna er mikil og landslagið er heillandi. Hér eru frábærir og fjölbreyttir möguleikar til útivistar, allt árið um kring. Hálendið er stórbrotið og útsýnisferðir meðfram ströndinni við jaðar Norður-Atlantshafsins eru ógleymanlegar.