Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Það er ekki mikið um skóga á Íslandi en þrátt fyrir það eru nokkrir á Austurlandi, þar með talinn Hallormsstaðaskógur sem talinn er stærstur íslenskra skóga. Skógar eru gjarnan frábær útivistarsvæði þar sem þeira skapa gott skjól fyrir veðri og vindum.

Hallormsstaðaskógur
Hallormsstaðaskógur er víðáttumesti skógur landsins og þekur um 740 hektara lands. Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands en Skógræktin hefur umsjón með þjóskógum. Árið 1903 hófust þar tilraunir með plöntun erlendra trjáa en stórfelld ræktun hófst fyrst eftir 1950. Elsti lerkilundurinn var gróðursettur árið 1938 og heitir Guttormslundur, kenndur við Guttorm Pálsson sem var skógarvörður á Hallormsstað í 46 ár. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með fjölbreyttu landslagi. Þar er að finna um 40 km af gönguslóðum og merktum gönguleiðum, vinsæl tjaldsvæði go grillsvæði. Þá er þar merkilegt trjásafn með um 80 trjátegudnum víðs vegar að úr heiminum, leiktæki og opin svæði og er skógurinn kjörinn til jurtaskoðunar og berja- og sveppatínslu. Skógurinn sér fuglum fyrir mat, hreiðurstæði og vernd fyrir ránfuglum. Meðal algengra fugla í Hallormsstaðaskógi eru auðnutittlingur, músarindill, glókollur, rjúpa og hrafn. Á sumrin eru þar einnig skógarþröstur, hrossagaukur og stundum sjást flækingar eins og svartþröstur, bókfinka og hringdúfa.
Hálsaskógur
Hálsaskógur er á Búlandsnesi, skammt vestan við Djúpavog. Skógurinn er afar skemmtilegur en hann hefur verið grisjaður og þar settar upp trjátegundamerkingar og upplýsingaskilti, borð og bekkir. Í skógræktinni eru kurli lagðir göngustígar og svæðið hentar því einkar vel fyrir þá sem kjósa léttar gönguferðir.
Selskógur
Selskógur er útivistarsvæði austan Egilsstaða handan við Eyvindará. Um skóginn liggja stígar í fallegu umhverfi. Hann er kjörinn til útivistar allt árið og hentar vel hvort sem þú ert á leið í göngutúr, hjólatúr eða á gönguskíði. Á veturnar er lagt gönguskíðaspor í skóginum sem er upplýst á kvöldin. Þú finnur upplýsingar hér um ástand sporsins.  Stígarnir eru flestir greiðfærir og liggja ýmist í gegnum skóglendi eða meðfram ánni. Auk þeirra eru torfærari stígar sem gaman er að kanna, fótgangandi eða á hjóli. Gönguleiðirnar um skóginn eru nokkrar og ættu allir að geta fundið leið við hæfi. Víða eru áningarstaðir með bekkjum þar sem gott er að tylla sér niður og njóta umhverfisins. Í skóginum er einnig leiksvæði þar sem er að finna leiktæki fyrir börn á öllum aldri og grillaðstöðu. Þar er einnig stór grasflöt þar sem hægt er að fara í fótbolta eða leiki.  Einnig er útileikhús í skóginum en þar eru reglulega haldinir tónleikar og leiksýningar undir berum himni.  Fáðu þitt eintak af korti af Selskógi hér. 
Jórvíkurskógur
Jórvíkurskógur er skógræktarsvæði eins og þau gerast best.  Kjarr og ræktaður skógur, gamalt hús í lundi en lækjarsprænur liðast niður hlíðina. Fuglalíf er með líflegasta móti, þægilegir göngustígar og notaleg aðstaða fyrir fjölskyldufólk.
Aldamótaskógur við Tinnu
Í tilefni aldamóta árið 2000 og 70 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands og Kaupþings var stofnað til svokallaðra Aldamótaskóga á fimm svæðum á landinu, einu í hverjum landshluta. Aldamótaárið 2000 gróðursettu sjálfboðaliðar og starfsmenn skógræktarfélaga liðlega 280 þúsundir skógarplantna, eina fyrir hvern Íslending, en Kaupþing lagði til plöntur og áburð. Plöntur Austurlands voru setta niður í landi Eydala Sumarið 2000 var gróðursettur í landi Eydala við Landnyrðingsskjólbakka. Nokkrum áratugun áður, eða á sjötta áratug 20. aldar, var talsvert gróðursett í þessum sama reit upp við Tinnudalsá og því varð þar til skemmtilegt útivistarsvæði. Falleg merkt gönguleið liggur í gegnum skóginn meðfram Tinnu, út á þjóðveg 1. Við Staðarborg hefur Skógræktarfélag Breiðdæla einnig gróðursett mikið síðustu ár og er þar einnig að verða til útivistarsvæði.
Trjásafnið í Hallormsstaðaskógi
Í Hallormsstaðaskógi er trjásafn með um 80 tegundum trjáa og runna víðsvegar að úr heiminum, og er safnið einstakt á landsvísu. Best er að hefja gönguna um trjásafnið á bílastæðinu við þjóðveginn, þar sem einnig er salernisaðstaða, og fylgja göngustígnum þaðan um safnið. Mælt er með að gefa sér 2 til 3 klukkustundir til þess að skoða safnið og njóta útiverunnar. Einnig er tilvalið að hafa með sér nesti, sem skemmtilegt er að taka með sér niður að Fljótinu og snæða.