Upplifðu Austurland

Leita
Finnur þú það ekki? Prófaðu leitina :)

HEIMAMENN MÆLA MEÐ

Fréttir

VIÐBURÐIR

Sjá viðburðadagatal

Austurland - Fullkomin kyrrð

Forsíða

Helllo

Fáskrúðsfjörður

Fáskrúðsfjörður er staðsettur í hjarta Austfjarða. Næstur honum til norðurs er Reyðarfjörður og skilur Vattarnes á milli með illræmdum skriðum sínum. Sunnan við er Stöðvarfjörður og skilur Gvendarnes þar á milli. Eyjan Skrúður í fjarðarmynninu er nafngjafi fjarðarins. Fáskrúðsfjörður er stundum kallaður „franski bærinn“ enda var Fáskrúðsfjörður fyrr á tíðum ein helsta bækistöð franskra sjómanna hér á landi. Frakkar reistu þar spítala, kapellu og skammt frá bænum er að finna kirkjugarð franskra sjómanna. Kauptúnið Búðir býr að mörgum fallegum gömlum húsum og snyrtilegu umhverfi. Í daglegu tali er Fáskrúðsfjörður nefndur "franski bærinn" og götuskilti eru bæði á íslensku og frönsku. Á Fáskrúðsfirði er öflugt atvinnulíf en staðurinn byggir afkomu sína að mestu á sjávarútvegi og þjónustu og hefur atvinnulíf blómgast með tilkomu ganganna og stækkun atvinnusvæðis.

Franska safnið á Fáskrúðsfirði

AFÞREYING

Heimamenn eru stoltir af tengingu sinni við Frakkland og hafa þeir hlúð að þessum menningararfi sínum. Frakkar á Íslandsmiðum er einstaklega metnaðarfullt safn veitir glögga innsýn í líf frönsku sjómannanna og starfsemi Franska spítalan. Safnið er að hluta til húsa í Læknishúsinu og Franska spítalanum en aðallega undirgöngum sem tengja húsin tvö saman. Á Fáskrúðsfirði hafa alls fimm frönsk hús verið gerð upp á vegum Minjaverndar en auk spítalans og Læknishússins eru það Sjúkraskýlið, Litla kapellan og Líkhúsið. Rétt utan við þéttbýlið er Franski grafreiturinn en þar er minnisvarði með nöfnum 49 franskra og belgískra sjómanna sem létu lífið á Íslansmiðum. Bæjarhátíðin Franskir dagar er haldin síðustu helgina í júlí ár hvert.

Fallegur dagur í Fáskrúðsfirði

Í öðru gömlu húsi, Wathneshúsi, er Norðurljósahúsið. Þar er boðið upp á stórbrotna sýningu um litadýrð norðurljósanna. Einnig er skemmtilegt að ganga um þorpið og skoða fallegar styttur og minnisvarða sem eru staðsettir víðs vegar um bæinn.

Skemmtilegar gönguleiðir eru víða í Fáskrúðsfirði. Þar má nefna Vattarnesið en þaðan er gott útsýni yfir í Skrúð, og sunnan megin í firðinum er hægt að ganga á Sandfell sem er glæsilegt og sérstætt líparítfjallUtarlega í firðinum sunnanverðum er Hafnarnes, lítið þorp sem fór í eyði upp úr 1970. Þar má enn sjá gömul hús og ýmsar minjar sem skemmtilegt er að rölta um og skoða.

Á Fáskrúðsfirði er hægt að fara í golf á Golfvellinum Nesi og í sund í sundlaug Fáskrúðsfjarðar.

Albert Eiríksson

Einn af mínum uppáhaldsstöðum er Franski grafreiturinn á Fáskrúðsfirði. Þúsundir franskra sjómanna létust við Ísland og aðeins fáir hvíla í vígðri mold. Það er áhrifaríkt að ganga um garðinn og velta fyrir sér lífi sjómannanna sem stunduðu sjóinn hér við land í marga mánuði ár hvert fjarri ástvinum og fósturjörðinni. Fáskrúðsfjörður var ein aðalbækistöð franskra sjómanna í aldalangri sjósókn þeirra til Íslands og hvergi á Íslandi eru álíka minjar og þar. 

Albert Eiríksson, matreiðslumaður // @alberteldar 

Stórurð

Frá Vatnsskarði, á leiðinni til Borgarfjörður Eystri, er gengið í Stórurð sem er ein hrikalegasta náttúrusmíð á Íslandi. Í urðinni er einstök náttúra, sléttir grasbalar, hrikalegir grjótruðningar, steinblokkir, sumar tugir metra á hæð, fagrar tjarnir og sérstakur gróður. Ganga í Stórurð er einstök upplifun og best er að hefja hana uppi á Vatnsskarði, ganga inn eftir fjallasyrpunni og til baka neðri leiðina út í Ósfjall (um 16 km.). Einnig er hægt að halda áfram til Borgarfjarðar norðan eða sunnan Dyrfjalla. Í Stórurðargöngu þarf heilan dag til að njóta svæðisins að verðleikum. Gestabók er í Urðinni.

Powered by Wikiloc

Hallormsstaðaskógur

Hallormsstaðarskógur er víðáttumesti skógur landsins. Hann liggur meðfram Lagarfljóti (Leginum) að austanverðu. Árið 1903 hófust þar tilraunir með plöntun erlendra trjáa en stórfelld ræktun hófst fyrst eftir 1950. Nú hafa verið gróðursettar í Hallormsstaðarskógi um 50 tegundir erlendra trjáa frá 177 mismunandi stöðum. Elsti lerkilundurinn var gróðursettur árið 1938 og heitir Guttormslundur, kenndur við Guttorm Pálsson sem var skógarvörður á Hallormsstað í 46 ár. Atlavík er innarlega í skóginum en við hana er vinsælt tjaldsvæði. Í Hallormsstaðarskógi hefur nú fjölmargt verið gert til að gera ferðafólki svæðið aðgengilegt, m.a. hafa verið lagðir göngustígar um skóginn auk þess sem opnað hefur verið trjásafn í gróðrarstöðinni Mörkinni sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara á ferð um Austurland.

Helgustaðanáma

Silfurbergsnámuna í Helgustaðalandi er að finna á leiðinni frá Eskifirði til Vöðlavíkur og liggur göngustígur upp að henni. Hún er ein frægasta silfurbergsnáma í heimi. Þar var silfurberg numið úr jörðu frá 17. öld fram á fyrri hluta 20. aldar.

Helgustaðanáman er nú friðlýst sem náttúruvætti.

Helgustaðanáma í Reyðarfirði er heimsþekkt sem fyrsti staðurinn þar sem mjög hreinir, stórir og gagnsæir kalsítkristallar fundust. Danski vísindamaðurinn Erasmus Bartholinus var fyrstur til að lýsa óvenjulegum eiginleikum silfurbergsins árið 1669. Vísindamenn hófu brátt að kenna þetta áður óþekkta efni við Ísland, á ensku sem Iceland crystal, en frá um 1780 varð heitið Iceland spar ráðandi.

Dalatangi

Leiðin út á Dalatanga liggur eftir mjóum slóða sem fikrar sig út eftir Mjóafirði. Ekið er meðfram skriðum og hamrabrúnum, framhjá fossum og dalgilum. Er Dalatangi birtist, er því líkast sem sé maður staddur á eyju inn í landi. Austar er ekki hægt að aka. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar.
Vitarnir tveir sem standa á Dalatanga eiga sér merka sögu, sá eldri reistur að frumkvæði norska útgerðar- og athafnamannsins Ottos Wathne 1895. Hann er hlaðinn úr blágrýti og steinlím á milli. Yngri vitinn sem er enn í notkun, reistur 1908. Á Dalatanga er fallegt býli og túnjaðrar býlisins nema við sjávarbrúnir. Við bæjarhúsin er skrúðgarður og gróðurhús.

Austurland

Bæir og þorp

Allir bæir á Austurlandi hafa sín sérkenni og í sumum sjávarþorpunum má sjá greinileg erlend áhrif. Til að mynda á Fáskrúðsfirði þar sem frönsk áhrif eru sterk. Þar má t.d. lesa götuheitin á íslensku og frönsku! Þá má sjá norsk áhrif í byggingum á Eskifirði og á Seyðisfirði en þarlendir sjómenn höfðu búsetu á þessum stöðum á síðustu og þarsíðustu öld. Á Egilsstöðum eru engin slík áhrif að finna en bærinn er sá yngsti á Austurlandi, varð til á fimmta tug aldarinnar sem leið, og hefur orðið að þjónustumiðstöð Austurlands.  

Map Vopnafjörður Borgarfjörður Eystri Egilsstaðir Seyðisfjörður Mjóifjörður Neskaupstaður Breiðdalsvík Eskifjörður Reyðarfjörður Fáskrúðsfjörður Stöðvarfjörður Djúpivogur
Vestfirðir Vesturland Norðurland Austurland Suðurland Reykjanes Höfuðborgarsvæðið

HVAÐ HEFUR ÍSLAND MEIRA UPPÁ AÐ BJÓÐA?

Ísland hefur upp á margt að bjóða og hver landshluti hefur sína sérstöðu hvort sem um er að ræða áhugaverða áfangastaði, einstök náttúrufyrirbrigði, mannlíf eða þjónustu. Gefðu þér tíma til að skoða hvað önnur svæði hafa uppá að bjóða og skipulegðu ferðina með okkar aðstoð.