Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

10 magnaðar gönguleiðir á Austurlandi

Austurland er sannkölluð gönguparadís og státar af einhverjum af fjölbreyttustu og stórfenglegustu landsvæðum Íslands. Hér má finna stórbrotnar strandlínur, djúpa dali, tignarleg fjöll og friðsælar slóðir sem bjóða upp á ógleymanlegar náttúruupplifanir. Yfir 600 km af merktum gönguleiðum tryggja að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem leitað er að léttum göngutúr, lengri dagsgöngu eða krefjandi margra daga ævintýri.

Hér fyrir neðan má finna 10 magnaðar gönguleiðir á Austurlandi sem vert er að kanna sumarið 2025.

   1.  Stórurð

Stórurð er ein af mögnuðustu náttúruperlum Íslands og hefur notið vaxandi vinsælda meðal göngufólks á síðustu árum. Svæðið varð til í lok síðustu ísaldar þegar hopandi jöklar skildu eftir sig risavaxin móbergs- og þursabergsbjörg sem mynda þetta einstaka landslag.

Aðalleiðin að Stórurð liggur frá Vatnsskarði og er um 15 km fram og til baka. Gangan tekur að jafnaði 2,5–3 klukkustundir hvora leið og krefst úthalds og þols. Launin eru þó óviðjafnanleg: draumkennt landslag með risabjörgum, tærum blágrænum vötnum og stórbrotnu útsýni yfir Dyrfjöll.

Til er styttri leið frá Njarðvík, en hún getur verið votlend og seinfarin svo mikilvægt er að kanna aðstæður vel áður en lagt er af stað.

Leiðin er almennt aðeins fær frá miðjum júlí og fram á haust, þar til fyrsti snjór fellur.

   2.  Fossahringurinn

Þessi 8 km hringleið er frábær hálfdagsganga sem liggur um fjölbreytt og hrjúft hálendislandslag. Gangan hefst og endar við Laugarfell og leiðir göngufólk meðfram fimm fossum, með stórbrotnu útsýni yfir Snæfell og að tilkomumiklu gljúfri.

Leiðin tekur að jafnaði 2–3 klukkustundir, allt eftir aðstæðum og hraða. Hún telst ekki sérstaklega erfið, en sums staðar eru brattar og grýttar brekkur, svo traustur og vatnsheldur skóbúnaður er nauðsynlegur.

Að göngu lokinni er tilvalið að slaka á í heitu náttúrulaugunum við Laugarfell. Gangan er almennt fær frá miðjum júní þegar snjó hefur leyst á hálendinu.

 

 3.  Bjólfur

Bjólfur er 1.085 metra hátt fjall sem gnæfir yfir Seyðisfjörð og býður upp á stórbrotið útsýni. Gangan hefst við Stafdal og fylgir gömlum fjallaslóða, yfir Stafdalsá, fram hjá fallegum fossi og áfram upp eftir fjallshryggnum.

Á toppnum er varða og gestabók, en ef haldið er örlítið niður frá hápunktinum kemur maður að stórbrotnum útsýnisstað með víðáttumiklu útsýni yfir fjörðinn og bæinn fyrir neðan.

Leiðin er fram og til baka, um 12 km löng með 645 metra hækkun. Gangan tekur yfirleitt 3–4 klukkustundir, allt eftir aðstæðum og gönguhraða. Snjór getur setið lengi í efri hlíðum, svo bestu aðstæður eru frá miðjum júní og út sumarið.

   4.  Víknaslóðir

Víknaslóðir er töfrandi gönguleið um afskekkt austfirsk landsvæði. Leiðin liggur um yfirgefna firði, litrík líparítfjöll og minjar um forn býli, þar sem fallegir firðir og víkur blandast saman við stórbrotna fjallasýn hvert sem litið er.

Gangan hefst á Borgarfirði eystri og er yfirleitt gengin á þremur dögum, en mögulegt er að bæta við degi og ganga alla leið til Seyðisfjarðar, sem gerir leiðina að fjögurra daga ferðalagi. Hægt er að gista í skálum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði, en einnig er leyfilegt að tjalda á ákveðnum svæðum.

Víknaslóðir bjóða upp á einstaka náttúruupplifun og kyrrð í stórbrotnu landslagi, með fáum öðrum á ferðinni. Besti tíminn til að fara þessa leið er frá lok júní og fram í byrjun september. Við hvetjum fólk til að kynna sér skipulagðar göngur á vegum Ferðafélags Fljótsdalshéraðs um Víknaslóðir til að njóta göngunnar með leiðsögn og í góðum félagsskap.

   5.  Stapavík

Stapavík er falleg gönguleið sem sameinar náttúrufegurð og sögu. Milli 1930 og 1945 var þar uppskipunarhöfn og er staðurinn nátengdur verslunarsögu Borgarfjarðar eystri og Héraðs. Víkin er þverhnípt og var varningur fluttur í land af skipum með handknúnu spili en leifar þess standa enn í víkinni til minningar um þennan tíma. Víkin sjálf er gríðarfalleg og útsýni til norðurs er stórfenglegt á góðum degi.

Leiðin er um 9 km fram og til baka og tekur um 2–3 klst. Þetta er þægileg ganga sem er flestum fær en nokkuð bratt og grýtt niður á ströndina. Frá Stapavík er einnig hægt að fylgja merktri leið um Gönguskarð niður í Njarðvík.

 

   6.  Steinboginn í Jafnadal 

Þessi náttúrulegi steinbogi í hlíðum Álftafells ofan Jafnadalsdals er sannkölluð falin perla. Gengið er frá Stöðvarfirði, upp Jafnadal þar sem við hittum fyrir klettinn Einbúa – einstakan stuðlabergsstapa. Frá Einbúanum er leiðin nokkuð krefjandi upp að steinboganum þar sem opnast mikilfengleg fjallasýn og útsýni yfir Stöðvarfjörð.

Gangan er nokkuð krefjandi, með um 650 metra hækkun og tekur um 3–4 klst. fram og til baka.

   7.  Gerpissvæðið

Gerpissvæðið er magnað landsvæði sem liggur á milli Reyðarfjarðar og Neskaupstaðar. Göngusvæðið bíður upp á fjölmargar merktar leiðar um brött fjöll og fallegar víkur. Gerpir, austasti tangi Íslands, rís á svæðinu 661 metra yfir hafið en þessir klettar eru með þeim elstu á landinu eða um 12 milljón ára gamlir.

Fjöldi dagsleiða er að finna á svæðinu sem hentar göngufólki sem er eitt á ferð en lengri ferðir krefjast skipulagningar og reynslu. Mælt er með leiðsögn sérkunns leiðsögumanns fyrir slíkar ferðir. Besti tíminn til að njóta þessa stórbrotna svæðis er frá miðjum júní til byrjun september.

 

   8.   Fuglabjarganes

Þessi fallega strandleið við norðanverðan Vopnafjörð býr yfir fjölbreyttri náttúru, háum sjávarbjörgum og ríku fuglalífi. Gengið er frá vegi 913 og fylgt 6 km hringleið um grösugar slóðir, strönd og höfða með einstöku útsýni.

Klettasnös, klettadrangar og smáar ár eru á leiðinni sem getur verið vot eftir rigningar. Gangan er flestum fær tekur um 1,5-2 klst. Gæta skal varúðar við bjargbrúnina.

 

   9.  Þerribjörg

Þerribjörg, austan við Hellisheiði eystri, bjóða upp á eina mögnuðustu strandlínu Austurlands. Gönguleiðin liggur um litskrúðugt líparítlandslag, niður grýtta brekku að Múlahöfn sem er afskekkt vík umkringd háum björgum og stórfenglegum dröngum.

Leiðin er um 10 km fram og til baka og tekur um 3–4 klst. Nokkuð krefjandi vegna grýttrar slóðar en verðlaunin eru einstakt útsýni og friðsæld sem gleymist seint. Besti tíminn til að fara þessa leið er frá lok júní og fram á haust. Gætið þess vel að Hellisheiði eystri sé fær áður en lagt er af stað. 

    10.   Fólkvangur á Neskaupstað

Fólkvangurinn á Neskaupstað er fyrsta friðland Íslands, stofnað árið 1972. Svæðið er einstök náttúruperla með fjölbreyttu landslagi, gróðursælu umhverfi og ríkulegu fuglalífi. Það nær frá Norðafjarðarvita niður að sjó og teygir sig yfir endilanga fjallshlíð, meðfram litlum fossum, þverhníptum björgum og opnu hafi á hina hliðina, niður að ströndinni.

Fuglalíf er fjölbreytt; þar má meðal annars sjá krumma, fýla, lunda og æðarfugla, og stundum sést selur. Jarðfræðileg sérkenni svæðisins, eins og sjávargöngin í Páskahelli, gera það einstakt. Merkt gönguleið liggur frá Neskaupstað að Páskahelli með útsýni yfir Norðfjörð. Leiðin er aðgengileg allt árið, en góður skóbúnaður er nauðsynlegur í snjó og hálku.

Gestir eru hvattir til að fylgja merktum leiðum og virða dýra- og plöntulíf til að tryggja varðveislu svæðisins fyrir komandi kynslóðir