Það er auðvelt að gleyma sér í fallegu umhverfi Austurlands. Hér að neðan höfum við tekið saman vinsæla áfangastaði sem að enginn ferðalangur má láta framhjá sér fara.
VINSÆLL ÁFANGASTAÐUR
Regnbogagatan
Regnbogagatan á Seyðisfirði er líklega meðal mest mynduðu kennileita á Austurlandi, enda einstaklega skemmtilegt uppátæki hjá bæjarbúum sem hjálpuðust að við að mála götuna jafn fallega og raun ber vitni. Við enda regbogagötunnar stendur svo Bláa kirkjan sem laðar ekki síður að sér fagurkera.
Hengifoss er í norðanverðum Fljótsdal á móts við innri enda Lagarfljóts. Hann er næst-hæsti foss landsins, 128 m hár. Í fossbrúninni eru blágrýtislög en undir þeim sandsteinn.Í berginu finnast steingerðir trjástofnar sem vitna um mun hlýrra loftslag, enda er sandsteinninn myndaður á tertíertíma. Nokkru neðan við Hengifoss er annar foss, Litlanesfoss, lukinn óvenju fallegri stuðlabergsumgjörð.
Auðvelt er að ganga upp að Hengifossi frá upphafsstað en það tekur um 40-60 mínútur að ganga frá bílastæði að fossinum.
Hengifoss er einn vinsælasti ferðamannastaður Austurlands.
Í Hafnarhólma, sem stendur við bátahöfnina á Borgarfirði eystri, er afar gott fuglaskoðunarsvæði en hvergi á Íslandi er jafn auðvelt að komast í návígi við lunda. Lundinn sest upp í hólmann um miðjan apríl ár hvert og elur þar unga sína fram í ágúst, þegar hann heldur út á haf aftur fyrir veturinn. Í Hafnarhólma er einnig allstórt æðarvarp auk þess sem þar má sjá ritu og fýl og aðrar fuglategundir sem halda til í og við hólmann.
Borgfirðingar hafa undanfarin ár byggt upp góða aðstöðu fyrir fuglaáhuga- og útivistarfólk í kringum bátahöfnina. Fróðleikur um höfnina, fugla og náttúrufar eru til reiðu fyrir gesti og upp í hólmann liggja góðir göngupallar. Árið 2020 opnaði Hafnarhúsið þar sem meðal annars eru haldnar listasýningar og gestir geta sest inn á kaffihús og notið þess að fylgjast með hafnarstarfseminni og lífinu í Hafnarhólma.
Hólmanes milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar var friðlýst sem fólkvangur og að hluta til sem friðland árið 1973. Þar er mikið fuglalíf og sérkennilegar bergmyndanir. Hólmanes er kjörið til útivistar, hvort sem er í klettum eða fjöru. Á leið út í nesið frá Eskifirði má líta útlínur hvals sem skólabörn mynduðu í fjörunni. Auðvelt aðgengi er að bjarginu og tilvalinn staður til fuglaskoðunar. Mikilfengleg urð verður á vegi göngugarpa Reyðafjarðarmegin.
Á Jökuldal á Fljótsdalshéraði er að finna náttúruperlu sem lengi var lítt þekkt og kom ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að Kárahnjúkavirkjun var tekin í notkun og vatnsmagnið í Jökulsá á Dal (eða Jöklu) snarminnkaði. Þessi perla er Stuðlagil í Jökulsárgljúfri sem nefnt er eftir einni stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á Íslandi sem þar er að finna.