Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Visit Austurland | Bæir og samfélög á Austurlandi

Á Austurlandi, sem er 22.721 km², búa 10.900 manns á landfræðilega fjölbreyttu svæði. Byggðin er dreifð og þéttbýliskjarnarnir ólíkir þrátt fyrir að hafa flestir orðið til í kringum sjávarútveg. Í dag eru ferðaþjónusta og iðnaður einnig áberandi á svæðinu en hvert samfélag hefur sín sérkenni. Endilega kíktu í heimsókn!

Borgarfjörður eystri
Þú ert í góðum félagsskap á þessum fallega stað. Í þorpinu búa um 120 manns, ferðamenn koma til þess að njóta náttúrufegurðarinnar, Íslendingar koma í sína árlegu ferð á Bræðsluna og alls kyns fuglar heimsækja fjörðinn í nokkra mánuði á ári, auk þess sem konungbornir álfar búa á svæðinu. Já, þú getur meira að segja heimsótt þá í Álfaborgina, klettaborg sem stendur rétt við þorpið, þar sem drottning íslenskra álfa er sögð búa ásamt hirð sinni.  Frá Egilsstöðum liggur 70 km. löng leiðin til Borgarfjarðar um einstaka útsýnisstaði, yfir og umhverfis fjöllin að sjarmerandi sjávarþorpi. Ef þú keyrir í gegnum þorpið og áfram í u.þ.b. 5 km. endar þú við Borgarfjarðarhöfn sem liggur við Hafnarhólma. Í Hafnarhólma er eitt besta svæði á landinu til fuglaskoðunar en þar má meðal annars komast í einstakt návígi við lunda og ritu.   Fuglalífið hefur augljóslega mikið aðdráttarafl en Borgarfjörður er einnig frægur fyrir frábærar gönguleiðir, til dæmis um Víknaslóðir og Stórurð. Víknaslóðir liggja um litskrúðug líparít fjöll í eyðifirði og víkur, alla leið til Seyðisfjarðar. Gönguleiðirnar sem liggja um Dyrfjallasvæðið, og í Stórurð, eru magnaðar. Heimamenn hafa verið duglegir að merkja leiðir sem uppfylla ólíkar þarfir göngufólks og búa til nákvæm kort yfir þær. Hægt er að fara í gönguferðir sem taka klukkutíma eða heilan dag, allt eftir því hvað hentar þér.   Áherslur:  Ganga – um ævintýralegt svæði Dyrfjallanna í hina mögnuðu Stórurð (en möguleikarnir í Borgarfirði eru næstum endalausir).  Bragð – lókal fiskur á einhverjum af veitingastöðum þorpsins, en á Borgarfirði má fá einstaklega góða fiskisúpu.  Bað – í pottunum við Blábjörg, þar sem útsýnið til fjallanna gerir stundina einstaka.  Bíltúr: um fjörðinn út í Hafnarhólma til þess að skoða ríkulegt fuglalífið. 
Breiðdalsvík
Breiðdalsvík er lítið og tiltölulega ungt fiskiþorp sem leynir á sér. Þaðan sem þorpið stendur við ströndina er fagurt útsýni yfir svartar strendur og til sjávar. Bátsferðir eru vinsælar frá gömlu höfninni.   Útsýnið úr þorpinu inn Breiðdalinn er alls ekki síðra. Breiðdalurinn er víðfeðmasti dalurinn á Austurlandi, umvafinn tignarlegum fjöllum sem ná yfir 1000 metra hæð beggja megin og tilkomumikil Breiðdalsáin , sem þekkt er fyrir laxveiði, liðast eftir dalbotninum til sjávar. Stórfengleg náttúran gerir Breiðdalinn að einstökum stað til þess að skoða og njóta fjölbreyttrar útivistar, allt frá gönguferðum til útreiða. Þar smá finna fossa og litla skóga, auk þess sem litskrúðug líparít fjöllin eru mögnuð að sjá.   Á Breiðdalsvík er hægt að ferðast aftur í tímann með heimsókn í matvöruverslun staðarins, Kaupfjelagið, sem hefur lítið breyst frá því á sjötta áratugnum. Í framhaldinu mælum við með heimsókn í handverksbrugghúsið í næsta húsi (já, 140 íbúa þorp þarf brugghús!). Einnig er áhugavert að kíkja í gamla Frystihúsið, þar sem meðal annars má sjá gamalt upphleypt íslandskort sem skemmtilegt er að skoða.  Áherslur  Ganga – sunnan við Breiðdalsvík er Streitishvarf, einstaklega skemmtilegt svæði með merktum gönguleiðum, vita og fallegu útsýni.   Bragð – hægt er að fá fisk, veiddan á staðnum, sem bragðast einstaklega vel með bjór frá handverksbrugghúsinu Beljanda, sem nefnt er eftir fallegum foss í Beiðdalnum.  Bíltúr – til tilbreytingar frá Þjóðveginum (vegi 1), er hægt að keyra veg 95 inn Breiðdalinn og áfram yfir Breiðdalsheiði, sem nær yfir hluta af hinni fornu Breiðdalseldstöð. Útsýnið yfir dalinn og strandlínuna er ógleymanlegt. Vegur 95 endar á Egilsstöðum.  
Djúpivogur
Á syðsta hluta Austurlands tekur fólk lífinu rólega. Hinn einstaklega fallegi bær Djúpivogur er hluti af Cittaslow (alþjóðlegt tengslanet bæja þar sem gott er að búa). Bæir sem taka þátt í Cittaslow hreyfingunni leggja áherslu á ósvikna framleiðslu, heilnæman mat í anda „slow food“ stefnunnar, heillandi handverkshefðir, og umhverfisvernd í takt við gleðina sem hlýst af hæglátu og friðsælu hversdagslífi.  Djúpivogur er friðsæll staður sem skapar svigrúm fyrir íbúa og gesti til gönguferða, könnunarferða, og að anda djúpt. Upplifðu rólegheitin, söguna og sköpunargleðina. Verslunarsaga staðarins nær aftur til ársins 1589, og elsta húsið á Djúpavogi (Langabúð, byggð 1790) hýsir nú söfn og kaffihús. Handverksfólk af svæðinu er með vinnustofur í bænum og óvenjulegar sýningar utandyra, og ekki má gleyma Eggjunum í Gleðivík eftir listamanninn Sigurð Guðmundsson. Listaverkið samanstendur af 34 eggjum í yfirstærð sem stillt er upp með fram strandlínunni. Þau minna á annan segul Djúpavogs en það er fjölbreytt fuglalíf svæðisins. Grunn lónin, vötnin meðfram ströndinni og leirurnar á svæðinu bjóða upp á kjöraðstæður fyrir margar tegundir fulga, en verndarsvæðið á Búlandsnesi er þekkt á meðal fulglaáhugafólks. Undan strönd Djúpavogs er Papey, lítil óbyggð eyja, þar sem er í sérstöku uppáhaldi hjá þeim sem vilja sjá lunda. Það sem stelur senunni í landslaginu umhverfis Djúpavog er án efa Búlandstindurinn sem gnæfir yfir allt annað, í 1069 metra hæð. Þjóðsögur herma að á sumarsólstöðum geti fjallið látið óskir rætast og einhverjir trúa að það búi yfir yfirnáttúrulegum kröftum. Áherslur Ganga – innan um fuglana í friðlandinu á Búlandsnesi, eða á Búlandstindinn ef þú leggur í eitthvað meira krefjandi. Bragð – heimagerðu kökurnar í Löngubúð, elsta húsinu í bænum. Bað – með heimamönnum í sundlaug bæjarins. Bíltúr – fylgdu hringveginum frá bænum til þess að sjá tilkomumikla náttúrufegurð. Haltu í norður til þess að skoða náttúruverndarsvæðið á Teigarhorni eða Berufjörðinn fallega, eða í suður til þess að sjá svörtu sandana og hrikalega klettana Stapavík.
Egilsstaðir
Egilsstaðir er stærsti bærinn á Austurlandi enda er hann eins konar miðstöð fjórðungsins. Þar má finna alla þá þjónustu sem ferðalangur þarf á að halda. Hinu megin við fljótið er systurbærinn Fellabær. Samanlagður íbúafjöldi er um 3000 manns.   Það er auðvelt að komast í Egilsstaði. Þangað er flogið a.m.k. daglega frá Reykjavík og strætisvagnar tengja Egilsstaði við stærri bæina á svæðinu. Egilsstaðir er frábær miðpunktur til þess að fara í ýmis konar leiðangra út frá. Bærinn stendur bókstaflega við Lagarfljótið (þar sem hinn frægi Lagarfljótsormur býr) og margar gönguleiðir liggja um og umhverfis bæinn. Rétt utan við Fellabæ er ein perlan í frábæru baðstaðasafni Íslands, Vök Baths.  Matur úr héraði er áberandi í matarmenningu Egilsstaða. Þar er hægt að kaupa vörur beint frá býli og fá bjór sem bruggaður er á staðnum. Veitingastaðir eru einstaklega fjölbreyttir en þar má finna allt frá fljótlegum skyndibita til hágæðaveitingastaða sem leggja áherslu á staðbundið hráefni.  Ef þig langar að kynnast menningu staðarins nánar þá er margt í boði, til dæmis sýning Minjasafnsins um það hvernig hreindýr urðu hluti af náttúru Austurlands. Árlega eru haldnar hátíðir með fjölbreytt þemu, t.a.m. djasstónlistarhátíð, Dagar myrkurs og Ormsteiti.   Áherslur  Ganga að Fardagafossi, sem fellur við rætur Fjarðarheiðar.  Bragð af hreindýri af svæðinu á einum af veitingastöðum bæjarins. Grænmetisætur ættu að leita eftir byggi ræktuðu á svæðinu.  Bað með krökkunum úr bænum í sundlaug staðarins, eða í fljótandi laugunum í Vök Baths.  Bíltúr í kringum Lagarfljót, meðal annars til þess að skoða Hengifoss, Skriðuklaustur og Snæfellsstofu. 
Eskifjörður
Eskifjörður er eins og sýnishorn af Austurlandi, en það má segja að í firðinum sé allt dregið saman sem er heillandi við landshlutann í heild. Samspil sögu og náttúru er töfrandi, en á Eskifirði kemstu í kynni við tignarleg fjöll, náttúruverndarsvæði, svartar strendur, söguna eins og tíminn hafi staðið í stað, og áhugaverða jarðfræði.  Þegar þú nálgast Eskifjörð eftir vegi 92 hringar vegurinn sig um rætur Hólmatinds, sem er stolt og prýði Eskfirðinga. Fjallið er 985 metra hátt og gnæfir yfir fólkvanginn og friðlandið Hólmanes, þar sem göngustígar leiða þig á milli klettamynda og niður í fjöru.  Í þorpinu eru minjar um sögu fiskveiðar og verslunar áberandi en Eskifjörður varð löggildur verslunarstaður árið 1789. Heimsókn í Sjóminjasafn Austurlands setur söguna í samhengi, og heimsókn í Randulffssjóhús veitir persónulega innsýn á svæðið. Sjóhúsið er gömul verbúð þar sem hægt er að sjá vistarverur sjómanna eins og þær voru 1890. Heimsókn þangað er einkar áhugaverð. Sjávarútvegssýningarnar og bragðið af staðbundnu sjávarfanginu á veitingastaðnum tvinnast saman og skapa einstaka stemmingu í húsinu. Á sumrin getur þú leigt bát og veiðafæri og reynt fyrir þér við veiðar á firðinum. Áherslur Ganga – innan um klettana og fuglana á Hólmanesi, og svo er alltaf möguleiki á því að hvalir sýni sig undan ströndinni. Bragð – sýndu hugrekki og smakkaðu hákarl í Randulffssjóhúsi.  Bað – með heimafólki í sundlaug Eskifjarðar, þar eru bæði rennibrautir og heitir pottar. Bíltúr – eftir vegi 954 til Vöðlavíkur, eyðivíkur þar sem svört strandlengja teygir sig milli hárra fjalla. Nauðsynlegt er að vera á fjórhjóladrifnum bíl. 
Fáskrúðsfjörður
Fáskrúðsfjörður kemur mörgum á óvart með framandi yfirbragði en fjörðurinn býr yfir sterkum sögulegum tengslum við Frakkland sem enn í dag eru áberandi í bænum. Til dæmis bera allar götur í bæjarins bæði íslenskt og franskt nafn.  Fáskrúðsfjörður varð löggildur verslunarstaður árið 1880, og frá seinni hluta 19. aldar fram til 1935 var þar aðalmiðstöð franskra sjómanna sem stunduðu veiðar við austurströnd Íslands. Bærinn er vel þekktur fyrir þessa frönsku arfleifð og sterk tenging er við vinbæ Fáskrúðsfjarðar í norður Frakklandi, Gravelines (þaðan komu flestir sjómennirnir sem veiddu við Ísland). Rétt fyrir utan bæinn er grafreitur franskra og belgískra sjómanna sem létust við Íslandsstrendur. Miðpunktur bæjarins er Franski spítalinn sem byggður var árið 1903. Hann hefur nú öðlast nýtt hlutverk sem hótel og veitingastaður, auk þess sem húsið hýsir hluta safnsins Frakkar á Íslandsmiðum. Safnið er með þeim flottari á Íslandi en það veitir einstaka upplifun og innsýn í líf erlendra sjómanna sem stunduðu veiðar við Ísland.  Jarðgöng tengja Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð, en lengri leiðin, vegur 955 sem liggur með ströndinni, er einstaklega falleg og hana er skemmtilegt að keyra á góðum degi. Eyjan Skrúður er staðsett undan strönd fjarðarins. Henni tengjast fjölmargar þjóðsögur auk þess sem eyjan er þekkt fyrir fjölskrúðugt fuglalíf, en þar er sérstaklega mikið um lunda og súlur. Umhverfis eyjuna eru háir klettar svo það þarf vænan skammt af hugrekki til að heimsækja hana en í klettabeltinu er hellir þar sem sjómenn áttu það til að leita skjóls í óveðri.  Áherslur Ganga – ef orkan er í hámarki skaltu skella þér á Sandfellið, 743 metra hátt líparítfjall sem stendur sunnan megin í firðinum. Ef metnaðurinn er minni, þá er líka skemmtilegt að rölta um bæinn og skoða frönsk tengsl í byggingum, götunöfnum og minjum. Bragð – finndu frönsk áhrif í matargerðinni á veitingastaðnum í Franska spítalanum, og njóttu mikilfenglegs útsýnis á meðan. Bíltúr – veldu lengri leiðina, um veg 955 í stað ganganna, en þar er rosalega fallegt útsýni.
Mjóifjörður
Í landi sem er þekkt fyrir ósnortna staði sem eru úr alfaraleið, má samt færa rök fyrir því að Mjóifjörður sé sá afskekktasti. Mjóifjörður er 18 kílómetra langur og, eins og nafnið gefur til kynna, mjór. Þorpið í Mjóafirði heitir Brekka og þar eru um 14 manns með fasta búsetu, einstaklingar sem virkilega njóta fámennisins og náttúrunnar. Leiðin til Mjóafjarðar er stórfengleg en hún er aðeins opin í um fjóra mánuði á ári (fer eftir veðri og færð). Annars er einungis hægt að komast til Mjóafjarðar með áætlunarbát frá Norðfirði.  Malarvegurinn sem liggur frá Hringvegi 1 niður í fjörðinn og eftir norðurströnd hans leiðir ferðalanga um marga af merkustu stöðum Mjóafjarðar. Fjörðurinn er skemmtilegt samsafn náttúrufyrirbæra og söguminja sem saman segja áhugaverða sögu. Einn þekktasti segullinn í Mjóafirði er Klifbrekkufossar, sem falla niður klettastalla innst í firðinum. Prestagil er magnað en það dregur nafn sitt af þjóðsögu er segir frá tröllkonu sem reyndi að tæla prest með sér inn í gilið., og Smjörvogur var einu sinni notaður sem fangelsi því þaðan var ekki hægt að sleppa án aðstoðar. Á Asknesi má sjá minjar hvalveiðistöðvar sem byggð var af Norðmönnum um aldamótin 1900. Stöðin var á þeim tíma sú stærsta í heiminum með um 200 starfsmenn. Ef keyrt er í gegnum þorpið og áfram í austur enda ferðalangar við vitana á Dalatanga (annar frá 1895, hinn 1908) en þar er ótrúlegt útsýni til allra átta. Á sumrin, á meðan vegurinn er opinn, er lágmarksþjónusta á staðnum fyrir ferðamenn sem sækjast eftir kyrrð, magnaðri náttúru, og endalausum möguleikum til gönguferða. Mættu vel undirbúinn, sérstaklega ef dvelja á í lengri tíma. Áherslur Ganga – í leit að besta sjónarhorninu til þess að mynda Klifbrekkufossa. Ef þú ert í stuði þá er hægt að taka sér dag í að ganga yfir í annan af nágrannafjörðunum.  Bragð – kaffi og með því á litla gistiheimilinu sem opnar á sumrin í Brekkuþorpi. Biltúr – eftir norðurströnd fjarðarins, eins langt og þú kemst, til þess að njóta útsýnisins frá Dalatanga. Kíktu á þrívíddarmynd - Mjóifjörður | Fjarðabyggð (kuula.co) 
Neskaupstaður
Neskaupstaður er sá þéttbýliskjarni sem stendur austast á Íslandi. Bærinn stendur á myndrænum stað við rætur himinhárra, fagurra fjalla. Fjörðurinn og fjöllin sem umlykja hann bjóða óteljandi möguleika til afþreyingar, til dæmis fjölbreyttar gönguleiðir og hestaferðir.   Neskaupstaður komst fyrst í vegasamband við aðra þéttbýliskjarna árið 1949, með veginum um Oddsskarð sem þó var ekki fær nema hluta úr ári. Með tilkomu Norðfjarðarganga 2017 komst Neskaupstaður loksins í öruggt vegsamband við Eskifjörð. Neskaupstaður er þekktur fyrir líflega tónlistarsenu en ein af þekktari sumarhátíðum á Íslandi, þungarokkshátíðin Eistnaflug, er árlegur viðburður. Safnahúsið er líka áhugavert fyrir þá sem vilja kynna sér menningu svæðisins en þar eru þrjú flott söfn undir einu þaki; Náttúrugripasafn, Sjóminja- og smiðjusafn Jósafats Hinrikssonar og Myndlistarsafn Tryggva Ólafssonar.   Eitt af því sem er sérstaklega heillandi við Neskaupstað er að þar hefur gömlum bryggjum verið haldið við og á sumrin getur verið mjög líflegt við sjávarsíðuna í bænum. Þaðan er hægt að fara í bátsferðir en það er magnað að sjá landslagið í Norðfirði, þ.m.t. Rauðubjörg, af sjó, og stundum sjást hvalir. Á landi er er skemmtilegt að keyra í gegnum þorpið, eins langt í austur og hægt er, til þess að skoða fólkvanginn sem er fyrir utan bæinn. Þar eru fjölmargar gönguleiðir og fjölskrúðugt fuglalíf undir bröttum hlíðum Nípunnar, auk Páskahellis sem er í fjörunni.  Neskaupstaður er með stærri byggðakjörnum á Austurlandi og þar er Umdæmissjúkrahús Austurlands. Þjónustustig bæjarins er gott, þar eru til dæmis góðir veitingastaðir og hótel.  Áherslur  Ganga – eftir stígnum sem liggur frá snjóflóðavarnargarðinum, rétt við tjaldsvæðið, en útsýnið frá honum yfir fjörðinn er magnað.   Bragð – lókal lambakjöt eða ferskt sjávarfang á einhverjum af veitingastöðum bæjarins, eða lautarferð í Lystigarðinum.   Bað – í Stefánslaug (þar er rennibraut og magnað útsýni), sem er í miklu uppáhaldi hjá heimamönnum.   Bíltúr – í gegnum bæinn, að bílastæðinu við Fólkvanginn, og skelltu þér svo í gönguferð. 
Reyðarfjörður
Hinn 30 kílómetra langi Reyðarfjörður er lengstur og breiðastur Austfjarðanna. Norðmenn starfræktu um tíma hvalveiðistöðvar í firðinum og fiskveiðar eru stór hluti af sögu staðarins. í dag er álver Alcoa Fjarðaáls einn stærsti atvinnurekandinn á svæðinu, sem gerir Reyðarfjörð að helsta iðnaðarsvæðinu á Austurlandi. Iðnaður á svæðinu kemur ekki niður á náttúrufegurð þess en Reyðarfjörður vakti mikla athygli þegar breska sjónvarpsþáttaröðin Fortitude var að hluta tekin upp í bænum. Reyðarfjörður tengist Bretlandi einnig í seinni Heimsstyrjöldinni en þá voru Bandamenn með herstöð í firðinum. Ummerki um hana eru enn áberandi á staðnum, en þar eru enn braggar og skotbyrgi. Íslenska stríðsárasafnið sem staðsett er á Reyðarfirði kemur stemmingu stríðsáranna vel til skila, sem er magnað í ljósi þess að Ísland hefur aldrei tekið þátt í hernaði.  Fjölbreytt afþreying er í boði á Reyðarfirði. Mælt er með að ganga upp með Búðaránni, að fossi sem er staðsettur fyrir ofan þorpið, eða í átt að miðbænum. Þeir sem leita að rólegheitum ættu að renna fyrir fisk í Andapollinum, á meðan göngugarpar skella sér í gönguferð um kjarrivaxnar hlíðar Grænafells. Merkt gönguleið liggur á fjallið frá Fagradal, en þar er einnig merkt gönguleið meðfram fallegu gili Geithúsaár. Stórir grjóthnullunar innan um kjarrið gætu verið híbýli álfa en þeir hafa fallið úr fjallinu með snjóflóðum eða skriðum.  Áherslur Ganga – Grænafell hentar einstaklega vel til afþreyingar og útivistar. Á toppi fjallsins er vatn, og glæsilegt gljúfur mótar landslagið við tindinn. Bragð – bakkelsi úr vinsælu bakaríi bæjarins eða máltíð á Tærgesen, veitingastað sem staðsettur er í heillandi gömlu húsi sem var einn af tökustöðum Fortitude.  Bíltúr – ef þú ert á suðurleið, með nægan tíma, getur þú valið að fara lengri og mjög fallega leið eftir vegi 955, í stað ganganna ,til Fáskrúðsfjarðar. 
Seyðisfjörður
Litagleði og sköpunarkraftur eru áberandi á Seyðisfirði en bærinn einkennist af litskrúðugum húsum og fjölbreyttu listalífi. Síðustu ár hefur staðurinn verið einna þekktastur fyrir hina einstaklega myndrænu Regnbogagötu sem liggur að Seyðisfjarðarkirkju, sem einnig er kölluð Bláa krikjan. Það er auðséð hvers vegna staðurinn er jafn vinsæll á meðal ferðamanna og hann er, náttúrufegurðin í bland menningarlíf staðarins hvetur gesti til þess að draga fram gönguskó og myndavél.  Skærlitu norsku hús bæjarins eru flest byggð á fyrri hluta 20. aldarinnar. Vegna nálægðar við Evrópu og hversu góð hafnarskilyrðin í firðinum eru frá náttúrunnar hendi var bærinn mikilvæg miðstöð verslunar og þjónustu á 19. og 20. öld. Höfnin er enn í mikilli notkun því þangað siglir ferja einu sinni í viku. Ferjan tengir Ísland sjóleiðina við Danmörku og Færeyjar en á sumrin flytur Norræna ógrynni af ferðamönnum til landsins. Þrátt fyrir að íbúar Seyðisfjarðar séu einungis um 700 þrífst þar öflugt listalíf sem inniheldur meðal annars listahátíðir, gestavinnustofur listafólks, og hljóðskúlptúr uppi í fjalli. Göngustígar áhugasama meðal annars að hljóðskúlptúrnum Tvísöng, inn með Fjarðaránni sem rennur út í fjörðinn, eða um hæðir og dali til þess að skoða fossa og aðra fallega staði.  Þjónustustigið á Seyðisfirði er frábært, þar er mikið um veitinga- og gististaði. Áherslur Ganga – innan um fossana á náttúruminjasvæðinu í Vestdal, upp að Vestdalsvatni og skúta Fjallkonunnar. Bragð – á Seyðisfirði er hægt að fá allt frá einstaklega fersku sushi til skapandi skyndibita, auk þess sem bjór er bruggaður á staðnum undir nafni skips sem fórst á stríðsárunum, El Grillo.  Afþreying – skelltu þér í ferð á kajak, eða fiskibát til þess að reyna fyrir þér í sjóstangveiði.
Stöðvarfjörður
Stöðvarfjörður er eina þorpið á Austfjörðum sem Hringvegurinn liggur í gegnum og þar er margt áhugavert að skoða. Heimamenn stunda fiskveiðar, ferðaþjónustu og listi en mikill sköpunarkraftur kraumar í Stöðvarfirði sem líklegast er innblásinn, allavegana að hluta til, af stórbrotinni náttúru svæðisins.  Eins og í flestum Austfjarðanna gnæfa fjöll yfir strandlínunni í Stöðvarfirði. Norðan megin í firðinum rísa Steðji og Hellufjall hátt, en sunnan megin Súlur. Jarðfræðileg saga svæðisins er merkileg, en auðveldasta leiðin til þess að upplifa ótrúlega fjölbreytni steina og steintegunda á Austurlandi er að heimsækja Steinasafn Petru Sveinsdóttur. Petra safnaði steinum allt sitt líf og nú er fyrrum heimili hennar eins og fjársjóðskista, fullt af alls kyns jarðfræðilegum gersemum.   Á meðal náttúrufyrirbæra í firðinum, sem áhugavert er að skoða eru fossar, klettar og hinn einstaki sjáverhver Saxa. Í þorpinu er sköpunarkrafturinn áberandi í litlum listagalleríum og á sumrin er Salthúsmarkaðurinn opinn en þar selja heimamenn listmuni og handverk, sem eru frábærir minjagripir. Gamla frystihúsi staðarins hefur verið breytt í Sköpunarmiðstöð, sem rekur vinnustofur og íbúðir fyrir gestkomandi listamenn, verkstæði og fleira. Þar er meira að segja hljóðver.   Áherslur  Ganga – inn Jafnadal sem gengur inn úr firðinum, þar eru merktar göngustígar sem m.a. leiða að steinboga í hlíðum Álftafells. Á leiðinni að steinboganum er farið fram hjá klettaborginni Einbúa, stórum kletti sem stendur einn á annars sléttu svæði.  Bragð – heimagerðar kökur og súpa í söluturninum sem stendur fyrir framan Steinasafn Petru.  Bað – í sundlaug staðarins, hún er kannski lítil en að sjálfsögðu er sundlaug á staðnum.  Bíltúr – í norður úr þorpinu, til þess að skoða sjávarhverinn Söxu. Þar gengur úthafsaldan inn í klettaskoru og spýtist svo hátt upp í loft. Nafnið Saxa varð til vegna þess að þegar sjórinn gengur í gegnum klettaskoruna saxast þari í smátt og þeytist upp með „gosinu.“ 
Vopnafjörður
Vopnafjörður er nyrstur Austfjarða, liggur milli Héraðsflóa og Bakkaflóa, víðlendur og veðursæll. Vopnafjarðarhérað skiptist í þrjá dali og um þá falla þrjár af þekktari laxveiðiám landsins, Hofsá, Vesturdalsá og Selá. Í Selárdal eru heitar uppsprettur og við þær er sundlaug, Selárlaug, sem á engan sinn líka með útsýni yfir Selána. Fyrir miðjum firði er Kolbeinstangi þar sem Vopnafjarðarkauptún stendur. Í kauptúninu Vopnafirði hefur verið verslunarstaður frá fornu fari. Þangað lágu einnig leiðir skipa er fluttu landnema til Vesturheims. Í sveitinni er stundaður hefðbundinn landbúnaður, aðallega með sauðfé, en aðrar meginatvinnugreinar Vopnfirðinga eru sjávarútvegur og ferðaþjónusta.  AFÞREYING Vopnafjörður býður upp á fjölbreytta möguleika til útivistar í einstaklega fallegu og fjölbreyttu umhverfi. Það má finna gönguleiðir við allra hæfi, til dæmis um Þverárgil, Fuglabjarganes eða um hraunin fyrir ofan þorpið. Skemmtilegt er að fara í Skjólfjörur og skoða Ljósastapa eða í fjölskylduferð í Sandvík . Einnig er hægt, á góðum bíl, að fara í bíltúr yfir Hellisheiði eystri og njóta magnaðs útsýnis en þar liggur hæsti fjallvegur landsins. Minjasafnið á Bustarfelli er einstakt safn í vel varðveittum torfbæ. Þaðan er líka hægt að fara í létta gönguferð upp að Álfkonusteini og Þuríðarfossi. Einnig er vel þess virði að fara að útsýnisskífunni sem er uppi á Bustarfellinu en þaðan er útsýni yfir sveitina og út Vopnafjörðinn. Á Vopnafirði er Vesturfarmiðstöð Austurlands. Þar er hægt að fræðast um ferðir vesturfaranna og einnig er boðið upp á ættfræðiþjónustu fyrir afkomendur þeirra. Í þorpinu er að finna leiksvæði fyrir börn og svo er hægt að skella sér í golf á Skálavelli.  
Fljótsdalur
Fljótsdalur er veðursæll dalur á Fljótsdalshéraði á Austurlandi, kenndur við Lagarfljót, sem um hann rennur. Dalurinn er djúpur og breiður, veðursæll og snjóléttur. Landbúnaður er stundaður á svæðinu, skógrækt og ferðaþjónusta.  Það er gróðursælt og fallegt í Fljótsdalnum og þar er margar náttúruperlur að finna, tignarlega fossa, gróna skóga og fleira. Vatnajökulsþjóðgarður er einn stærsti þjóðgarður í Evrópu og þar er margt að sjá. Hann er sérstakur á heimsvísu vegna fjölbreyttra landslagsforma sem hafa orði til vegna samspils eldvirkni og jökla. Ranaskógur, Hengifoss og Strútsfoss eru dæmi um aðra staði sem vert er að skoða.  Einnig er fróðlegt og skemmtilegt að fara í menningar- og fræðasetrið Skriðuklaustur, gestastofuna Snæfellsstofu og Óbyggðasetrið.