Brugghús á Austurlandi
Bjóráhugi landans hefur heldur betur aukist á undanförnum árum með opnun handverksbrugghúsa um landið allt og hafa íbúar Austurlands og gestir svo sannarlega fengið að njóta þess. Hér fyrir austan eru starfandi þrjú handverksbrugghús sem leyfa hugmyndauðgi og forvitni að ráða för í framleiðslunni. Staðbundið hráefni, hvort sem það eru villtar austfirskar jurtir eða íslenskt wasabi – jú eða örnefni landshlutans, sem drykkirnir draga nafn sitt gjarnan af, gera þessa göróttu austfirsku drykki einstaka.