Strandlengja Austurlands er stórbrotin og fjölbreytt. Þar má finna svartar og ljósar sandfjörur, fjörur með misgrófum steinum og kletta sem standa beint upp úr sjónum. Fjörurnar eru gjarnan uppspretta afþreyingar, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk, enda getur fjöruferð verið ferðalag í ævintýraheim ef ímyndunaraflið fær að ráða för.
Landsendi
Gengið frá skilti sem er við veg nr. 917 (áður en haldið er upp á Hellisheiði) við Biskupshól (N65°42.52-W14°24.41). Þaðan er svo gengið að Keri sem er forn verstöð og út á Landsendahorn. Þar er afar fallegt útsýni yfir Móvíkur, tvær víkur sem eru næst fyrir utan Landsenda og mynda stórar geilar inn í strandfjöllin. Ofan við þær eru um 2-300 m há björg og snarbrattar skriður, Móvíkurflug. Bergið í þeim er aðallega líparít sem skartar öllum regnbogans litum. Hólkur með gestabók og stimpli er á bakkanum fyrir ofan Ker.
Hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs
GPS : N65° 43.352-W14°23.300
Powered by Wikiloc
View
Sandvík í Vopnafirði
Sandvík er mikil og svört sandströnd innst í Vopnafirði. Svæðið er fjölskyldupardís af náttúrunnar hendi. Þar má tína skeljar, fá sér göngutúr, skoða fuglana, byggja sandkastala eða hvað sem hugurinn girnist.
Fyrir miðri ströndinni strandaði flutningaskipið Mávurinn 2. október 1981. Mannbjörg varð en enn má sjá glitta í skipsflakið þegar sjávarborðið er lægst.
Aðgengi að Sandvík er við vegslóða sem liggur niður að víkinni innan við golfvöllinn .
Fólk er hvatt til þess að fara varlega í fjörunni. Á vorin á Hofsá það til að flæða yfir en þá geta myndast kviksyndi.
View
Skjólfjörur
Skjólfjörur er staður sem ekki ætti að missa af ef leiðin liggur um Vopnafjörð. Örstutt ganga er frá veginum niður í fjörurnar. Þar er stórfenglegt útsýni yfir opið Atlantshafið og hver veit nema hvalur blási áhorfendum til skemmtunar. Litadýrð fjörusteinanna gleður augað og rekaviður og annað sem sjórinn hefur á land borið vitnar um þann kraft sem hafið býr yfir. Ekki er heimilt að taka steina með sér úr fjörunni.
Eitt af einkennum Vopnafjarðar eru ótrúlegir klettadrangar sem taka á sig ýmsar kynjamyndir. Ljósastapi er glæsilegur klettur sem stendur í sjónum rétt undan Skjólfjara og heima menn kalla „Fílinn“ vegna þess hvernig lögun klettarins minnir á fíl. Ljósastapi er einstaklega myndrænn og er vel þess virði að stoppa til þess að taka skemmtilegar myndir.
Til hægri við Fílinn má sjá Búrið ganga í sjó fram. Búrið er hluti Fagradalsfjalla og þar er elsta megineldstöð á Austurlandi. Í þeim fjallgarði má finna litfagurt líparít sem svo sannarlega setur svip sinn á umhverfið. Merkt gönguleið er niður í Múlahöfn og að Þerribjargi, austan megin í Hellisheiði eystri, þar sem líparítið skartar sínu fegursta.
View