Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Saga byggðar á Austurlandi er fjölbreytt og þar eru margir sögufrægir staðir sem áhugavert er að skoða. Hér fyrir neðan eru dæmi um staði sem við mælum með því að skoða ef þú hefur áhuga á sögu Austurlands.

Bustarfell
Á Bustarfelli í Vopnafirði stendur einn stærsti og best varðveitti torfbær landsins. Hann hýsir nú Minjasafnið áBustarfelli.   Bærinn er að stofni til mjög gamall, að hluta frá því að hann var endurbyggður eftir bæjarbruna 1770, en í honum var búið til ársins 1966. Sýningin í safninu spannar því tveggja alda sögu búskapar- og lifnaðarhátta.   Methúsalem Methúsalemsson, bóndi á Bustarfelli, seldi ríkinu bæinn árið 1943 með því skilyrði að hann yrði byggðurupp og varðveittur um ókomin ár. Bærinn hefur verið í umsjá Þjóðminjasafnsins síðan. Fyrst um sinn var safnið einkasafn, en árið 1982 afhenti Elín Methúsalemsdóttir, dóttir Methúsalems og síðasti ábúandi í gamla bænum, Vopnfirðingum safnkostinn til varðveislu og varð safnið þá að sjálfseignarstofnun.   Sérstaða Bustarfellsbæjarins er að það var búið í honum óvenju lengi og fastasýning safnsins endurspeglar bæinn semheimili fjölskyldunnar, sem flutti þaðan árið 1966. Auk þess eru að jafnaði tvær til þrjár sérsýningar í safninu.   Safnið er opið yfir sumarið og ofan við gamla bæinn stendur kaffihúsið Hjáleigan, þar sem má gæða sér á kaffi og kræsingum. Á staðnum er einnig lítið dýragerði með húsdýrum, sem gleðja jafnan stóra sem smáa.   
Torfbærinn á Galtastöðum fram
Á Galtastöðum fram er uppgerður 19. aldar torfbær sem nú er í vörslu Þjóðminjasafnsins. Hann hefur þá sérstöðu umfram aðra torfbæi landsins að skarta fjósbaðstofu; þ.e. fjósið var undir baðstofunni til þess að ylurinn frá kúnum vermdi húsakynnin. Ferðamönnum er heimilt að skoða bæinn, að fengnu samþykki húsráðanda. Stutt er þaðan í Geirsstaði þar sem er endurgert bænahús frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
Nielsenshús
Nielsenshús varreist árið 1944 af hinum danska Oswald Nielsen og var fyrsta íbúðahúsið á Egilsstöðum. Í dag er þar húsið einstaklega snyrtilegt og fallegt og í því er rekinn veitingastaður, Nielsen restaurant. Í góðu veðri er hægt að sitja úti á veröndinni og njóta sumarblíðunnar á Egilsstöðum.    
Valþjófsstaður
Valþjófsstaður er jörð innarlega í Fljótsdal. Hún er fornt höfuðból og þar hefur verið kirkja allt frá þrettándu öld. Valþjófsstaður var eitt af höfuðbólum Svínfellinga, en nokkrir meðlimir þeirrar fjölskyldu voru fyrirferðamiklir í átökum Sturlungaaldar.  Krikjan sem nú stendur á Valþjófsstað var vígð árið 1966. Hurðin í innri dyrum kirkjunnar er eftirmynd af hinni frægu Valþjófsstaðahurð sem Halldór Sigurðsson á Miðhúsum skar út á 13. öld. Gamla hurðin á upprunalega að hafa verið skálahurð á höfðingjasetri en var síðar nýtt sem innri hurð í stafkirkju sem stóð á Valþjófsstað í margar aldir, langt fram yfir siðaskipti. Upprunalega hurðin er nú í vörslu Þjóðminjasafnsins.  
Djáknadys
Djáknadys er laus grafhýsi (dys) norðan megin við Hamarsfjörð. Sagan segir að á þessum stað hafi presturinn á Hálsi og djákninn á Hamri hist og þeir barist til dauða. Voru þeir báðir dysjaðir á staðnum og er nafn Djáknadysjar þannig tilkomið. Sagt er að sú kvöð hvíli á vegfarendum sem fara fram hjá dysinni í fyrsta sinn að þeir verði að kasta steinvölu í dysina, einni fyrir sig og einnig einni fyrir hvorn, hund og hest, ef með eru, annars muni þeir lenda í ógöngum. Aðrar sögur segja að leggja skuli þrjá steina í dysina. Um þetta er gamla vísan: Að flýta sér að fara af baki og fleygja steini yfir djákna aldurhniginn er það gæfa á ferðastiginn. Það skal tekið fram að í dag er dysin friðuð svo það er bæði bannað að bæta steinum við dysina og taka steina úr henni. 
Eiðar
Eiðar voru stórbýli til forna, höfðingjasetur og kirkjustaður. Eiða er raunar fyrst getið í Droplaugarsona sögu sem á að hafa gerst á söguöld kringum aldamótin 1000. Þá bjó þar Helgi Ásbjarnarson, sonarsonur Hrafnkels Freysgoða og fremsti höfðingi Héraðsbúa á sinni tíð, með seinni konu sinni, Þórdísi Brodd-Helgadóttur úr Vopnafirði. Eiðakirkju er fyrst getið í kirknatali Páls biskups Jónssonar 1197. Samkvæmt samkomulagi Þorláks helga 1179 við eigendur kirkjustaða á Austurlandi var kirkjan á Eiðum bændakirkja og átti Eiðajörð að hálfu á móti staðarbónda.  Þessi kirkjuskipan á Eiðum hélst allt til 1882 er Múlasýslur keyptu Eiðastól og þar var stofnaður búnaðarskóli sem tók við hlutverki Eiðabónda um forræði kirkjunnar. Árið 1883 var stofnaður þar bændaskóli en honum var svo breytt í héraðsskóla -Alþýðuskólann á Eiðum - árið 1918 sem starfaði sleitulaust en þó með breytingum í áranna rás allt til 1995 þegar hann var sameinaður Menntaskólanum á Egilsstöðum. Allt frá lokun skólans hafa verið uppi ýmis áform um að finna þessum sögufræga stað nýtt og verðugt hlutverk.  Kirkjumiðstöð Austurlands rekur vinsælar sumarbúðir fyrir börn við Eiðavatn og ferðaþjónusta er vaxandi á staðnum en þar er rekið gistihús og tjaldsvæði auk ýmissa afþreyingarmöguleika.
Heydalir (Eydalir )
Kirkja hefur verið að Heydölum frá fyrstu tíð kristni. Prestsetrið hefur löngum verið með betri brauðum á Íslandi og þar hafa setið margir vel metnir prestar. Frægastur þeirra er sálmaskáldið sr. Einar Sigurðsson (1538-1626) sem kunnastur er fyrir jólasálminn Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði, en er nútímamönnum tamast sem Nóttin var sú ágæt ein. Minnisvarði um sr. Einar stendur á grunni gömlu kirkjunnar í kirkjugarðinum að Heydölum. Kirkjan sem nú stendur í Heydölum var vígð 13. júlí árið 1975 og var gamla kirkjan afhelguð sama dag. Gamla kirkjan var smíðuð 1856 en hún brann til kaldra kola 17. júní 1982.   Nafnið á staðnum er eitthvað á reiki, sumir tala um Heydali og Heydala er getið bæði í Landnámu og Njálu. Aðrir talra um Eydali, sérstaklega eldra heimafólk í Breiðdal, auk þess sem sr. Einar Sigurðsson er gjarnan kenndur við Eydali. Staðurinn er jöfnum höndum nefndur Heydalir og Eydalir í gjörðabók Heydalasóknar sem hefur verið í notkun frá 1909 en í dag er opinbert nafn staðarins Heydalir.