Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þessi einstaka ferðaleið Um öræfi og dali býður upp á brot af því besta sem Austurland hefur upp á að bjóða en hún liggur með fram bökkum Lagarfljóts og um víðerni hálendis Austurlands. Á leiðinni má sjá og finna mögnuð náttúrufyrirbrigði, fagra fossa, heitar laugar og stórfengleg fjöll, sem og einstakt dýralíf sem er einkennandi fyrir landshlutann, að ógleymdu Stuðlagili, einum vinsælasta áfangastað landsins.

Athugið að ferðaleiðin er aðeins fær yfir sumartímann og aðeins fjórhjóladrifnum ökutækjum. Hluta leiðarinnar er þó hægt að njóta allt árið og auðveldlega má aðlaga ferðalagið eftir aðstæðum, til dæmis með því að tengja hana Fljótsdalshringnum, sem hún liggur að hluta til um.

Ekið er sem leið liggur frá Egilsstöðum með fram bökkum Lagarfljóts í gegnum Hallormsstaðaskóg, stærsta skóg Íslands, í átt að Fljótsdal. Í Fljótsdal er margt að skoða, hægt er að ganga vinsæla leið upp með Hengifossi eða líta við í Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem lífríki svæðisins eru gerð áhugaverð skil. Þá er tilvalið að koma við á Skriðuklaustri og kynna sér merkilega sögu hússins og húsbyggjandans, rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar. Á Skriðuklaustri er hægt að skoða rústir munkaklausturs frá 16. öld og þar er frábært útileiksvæði fyrir börn á öllum aldri. Innst í dalnum er Óbyggðasetur Íslands þar sem meðal annars er hægt að fræðast um lífsbaráttu fólks við jaðar hálendisins fyrr á tímum.

Vegur nr. 910 (opnar um miðjan júní) liggur upp á hálendi Austurlands þar sem auk náttúrufegurðar má búast við að sjá hreindýr og heiðagæsir. Vegurinn er malbikaður alla leið að Kárahnjúkum en eftir það tekur við malarvegur (nr. 907) sem er aðeins fær vel búnum fjórhjóladrifnum bílum. Á leiðinni þangað er vel þess virði að taka á sig krók og koma við í Laugarfelli en þar eru fjöldi gönguleiða við allra hæfi og heitar laugar. Þaðan er einnig mögulegt að komast að Snæfelli sem er hæsta fjall landsins utan jökla. Aðrir markverðir staðir á ferðaleiðinni eru t.d. Hafrahvammagljúfur og Laugarvalladalur.

Ferðaleiðin liggur um eina af ferðamannaperlum Austurlands, Stuðlagil á Efri-Jökuldal, sem státar af einni stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á landinu og er einstaklega myndrænt. Hægt er að skoða gilið frá tveimur sjónarhornum – frá útsýnispalli norðan megin við gilið við bæinn Grund – og austan megin með því að fylgja gönguleið frá bænum Klausturseli, fram hjá Stuðlafossi og að gilinu.

Frá Stuðlagili er ekið út dalinn á vegi nr. 923 (malarvegur en fær öllum bílum) og inn á þjóðveg nr. 1 áleiðis til Egilsstaða. Á leiðinni er tilvalið að stoppa við fossinn Rjúkanda á Jökuldal og enda ferðina jarðhitalaugunum Vök Baths við Urriðavatn.

Gott er að hafa í huga:

Til að komast þessa ferðaleið þarf að vera á vel búnum fjórhjóladrifnum bíl. Áður en lagt er af stað þarf að ganga úr skugga um að vegir séu opnir. Vegslóðar (F-vegir) eru aðeins opnir yfir sumartímann. Hægt er að skoða opnanir og færð á vegum hér.

Hægt er að komast stærsta hluta leiðarinnar á venjulegum bíl. Vegir frá Egilsstöðum að Kárahnjúkum eru malbikaðir og sömuleiðis vegurinn frá Egilsstöðum að Stuðlagili, utan nokkurra kílómetra kafla sem er malarvegur en vel fær öllum bílum.

Fjölbreyttir möguleikar í gistingu og veitingum eru í boði á ferðaleiðinni en þeir eru þó takmarkaðir á hálendinu. Mikilvægt er því að fara vel undirbúin um þessa mögnuðu ferðaleið!

Við mælum með að taka góðan tíma í ferðalagið til að njóta sem best þess sem fyrir augu ber á leiðinni. Hægt er að útbúa eigin útgáfu af ferðaleiðinni með því að nota „Mitt uppáhald“ möguleikann hér á síðunni. Þannig getur þú skipulagt draumaferðalagið þitt um Austurland á þann hátt sem þér hentar best. Góða skemmtun!

 

Áhugaverðir staðir

Vallanes
Vallanes
Hallormsstaður
Hallormsstaðaskógur
Trjásafnið í Hallormsstaðaskógi
Hengifoss
Snæfellsstofa, Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs
Skriðuklaustur, menningarsetur og sögustaður
Óbyggðasetur Íslands
Fossahringur
Snæfell
Kárahnjúkar
Hafrahvammagljúfur
Laugarfell
Laugavalladalur
Sænautasel
Rjúkandi
Stuðlagil
Eyvindará
Vök Baths

Sögur af svæðinu

N4: Uppskrift að góðum degi
Komdu með okkur í ævintýraferð um hálendi Austurlands! Í fimmta og síðasta þættinum af Uppskrift að góðum degi á Austurlandi förum við um öræfi og dali. Fljótsdalur, Laugarfell, Snæfell, Kárahnjúkar, Hafrahvammagljúfur, Hrafnkelsdalur og Jökuldalur.