Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hlutar þessarar ferðaleiðar eru ekki færir utan sumarmánaða þar sem hálendisvegir og vegslóðar (F-vegir) eru ekki þjónustaðir yfir vetrartímann. Hægt er að skoða opnanir og færð á vegum hér. Utan sumartímans er því kjörið að aðlaga ferðalagið að öðrum ferðaleiðum, t.d. Fljótsdalshringnum.

Vorið, þegar náttúra og dýralíf er að vakna úr vetrardvala, er frábær tími til að ferðast um Austurland. Þó er viðbúið að veðrið geti verið allskonar og mikilvægt er að vera vel búin á ferðalaginu og fylgjast með veðurspá og færð á vegum. Í maí stendur sauðburður sem hæst og farfuglarnir tínast til landsins og ekki er ólíklegt að enn sjáist til hreindýra á láglendi.

Á sama hátt og náttúran vaknar til lífsins fara árstímabundnir gisti- og veitingastaðir einnig að opna einn af öðrum, t.d. Asparhúsið í Vallanesi og Klausturkaffi á Skriðuklaustri. Fjölmargir veitingastaðir á Austurlandi leggja metnað sinn í að bjóða upp á staðbundið hráefni í réttum sínum sem munu gleðja bragðlauka ferðalanga.

Ekið er sem leið liggur frá Egilsstöðum með fram bökkum Lagarfljóts í gegnum Hallormsstaðaskóg, stærsta skóg landsins, þar sem með hækkandi hitastigi eru trén tekin að grænka og villtur gróður farinn að taka við sér. Í skóginum eru fjölmargar göngu- og hjólaleiðir og áningarstaðir fyrir góða nestispásu. Á þessum tíma geta slóðar þó verið blautir svo gott er að vera vel skóuð.

Áfram er haldið inn í Fljótsdal og þar er margt sem þarf að rannsaka nánar. Hægt er að ganga vinsæla leið upp með Hengifossi eða líta við í Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem lífríki svæðisins eru gerð áhugaverð skil. Þá er tilvalið að koma við á Skriðuklaustri og kynna sér merkilega sögu hússins og húsbyggjandans, rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar. Á Skriðuklaustri er hægt að skoða rústir munkaklausturs frá 16. öld og þar er frábært útileiksvæði fyrir börn á öllum aldri. Innst í Fljótsdal er svo Óbyggðasetur Íslands þar sem meðal annars er hægt að fræðast um lífsbaráttu fólks við jaðar hálendisins fyrr á tímum.

Ekið er til baka í átt að Egilsstöðum norðan megin við Lagarfljót og þegar komið er til byggða aftur er tilvalið að dýfa sér í jarðhitalaugarnar í Vök Baths við Urriðavatn.

Einnig er hægt að aka áfram til norðurs eftir þjóðvegi 1 um Jökuldal og skoða eina af helstu ferðamannaperlum Austurlands, Stuðlagil á Efri-Jökuldal en þangað er rúmlega 50 km akstur frá Egilsstöðum (beygt af þjóðvegi á veg nr. 923). Stuðlagil státar af einni stærstu og fallegustu stuðlabergsmyndun á landinu og er einstaklega myndrænt. Hægt er að skoða gilið frá tveimur sjónarhornum – frá útsýnispalli norðan megin við gilið við bæinn Grund – og austan megin með því að fylgja gönguleið frá bænum Klausturseli, fram hjá Stuðlafossi og ofan í gilið. Fara þarf varlega þar sem bæði getur verið hált og blautt á þessum árstíma.

Við mælum með að taka góðan tíma í ferðalagið til að njóta sem best þess sem fyrir augu ber á leiðinni. Hægt er að útbúa eigin útgáfu af ferðaleiðinni með því að nota „Mitt uppáhald“ möguleikann hér á síðunni. Þannig getur þú skipulagt draumaferðalagið þitt um Austurland á þann hátt sem þér hentar best. Góða skemmtun!

 

 

 

 

 

Áhugaverðir staðir

Afþreying

Hús Handanna
Sundlaugin Egilsstöðum
Sláturhúsið
East Highlanders
Trjásafnið í Hallormsstaðaskógi
Snæfellsstofa, Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs
Skriðuklaustur, menningarsetur og sögustaður
Óbyggðasetur Íslands
Fossahringur
Laugarfell
Torfhús við Hjarðarhaga
Vök Baths

Aðrir (1)

Sænautasel Jökuldalsheiði 701 Egilsstaðir 853-6491

Veitingastaðir

Aðrir (3)

Bókakaffi Hlöðum Hlaðir 700 Egilsstaðir 471-2255
N1 - Þjónustustöð Egilsstaðir Kaupvangur 4 700 Egilsstaðir 440-1450
Olís - Þjónustustöð Búðareyri 33 730 Reyðarfjörður 474-1147

Gististaðir

Gistiheimilið Vínland
Skipalækur
Hótel Valaskjálf
Hérað | Berjaya Iceland Hotels
Tehúsið Hostel
Gistihúsið - Lake Hotel Egilsstaðir
Tjaldsvæðið á Egilsstöðum
Hotel 1001 nott
Hótel Hallormsstaður
Óbyggðasetur Íslands

Aðrir (1)

Lyngás Guesthouse - Egilsstaðir Lyngás 5-7 700 Egilsstaðir 4711310