Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Gönguleiðir

Um Austurland liggja hundruðir gönguleiða af fjölbreyttu tagi í einstakri náttúru. Undanfarin ár hefur Austurland haslað sér völl sem eitt vinsælasta göngusvæði landsins enda möguleikar til útvistar nánast óendanlegir og henta öllum getustigum. Hvort sem stefnt er upp í móti, gegnum urðir með grjóti eða á þægilega styttri göngu með mörgum nestispásum þá ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi á Austurlandi. 

Víknaslóðir
Víknaslóðir er gönguleiðakerfi sem teygir sig yfir landssvæðið milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar. Svæðið er eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi í dag, vel stikaðar og merktar leiðir. Ferðamálahópur Borgarfjarðar gefur í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu út öflugt gönguleiðakort sem fæst hjá öllum ferðaþjónustuaðilum á Borgarfirði eystri, í Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum og hjá Ferðafélagi Íslands í Mörkinni. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs rekur í samvinnu við Ferðamálahóp Borgarfjarðar þrjá vel búna gönguskála á Víknaslóðum, í Breiðuvík, Húsavík og í Loðmundarfirði. Ferðaþjónustuaðilar á Borgarfirði veita göngufólki fjölbreytta þjónustu, svo sem við ferðaskipulag, gistingu, leiðsögn, flutninga (trúss) og matsölu. Gönguleiðakerfið er fjölbreytt með styttri og lengri gönguleiðum svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.    
Stapavík við Héraðsflóa
Utan við bæinn Unaós, skammt frá ósum Selfljóts stendur Stapavík. Milli 1930 og 1945 var þar uppskipunarhöfn og er staðurinn nátengdur verslunarsögu Borgarfjarðar eystri og Héraðs. Víkin er þverhnípt og var varningur fluttur í land af skipum með handknúnu spili en leifar þess standa enn í víkinni til minningar um þennan tíma. Víkin sjálf er gríðarfalleg og útsýni til norðurs er stórfenglegt á góðum degi. Merkt gönguleið liggur frá Unaósi með fram Selfljóti þaðan sem Héraðssandar og Hellisheiði eystri blasa við. Gangan tekur um klukkustund hvora leið en frá Stapavík er einnig hægt að fylgja merktri leið um Gönguskarð niður í Njarðvík. Powered by Wikiloc
Páskahellir
Í Fólkvangi Neskaupstaðar er lítill hellir sem kallast Páskahellir. Þar má sjá bæði bólstraberg, bergganga og holur sem líklega mynduðust þegar hraun umlukti tré sem nú eru horfin. Talið er að fyrir um 12 milljón árum hafi hraun runnið yfir skóg sem óx á svæðinu. Hellirinn varð til af sjávarrofi.  Sagan segir að á páskadagsmorgni megi sjá sólina dansa á öldunum þegar hún rís úr hafi fyrir mynnir Norðfjarðar.  Gangan frá bæjarmörkunum að Páskahelli tekur um 10-15 mínútur. Stigi liggur frá göngustígnum niður að hellinum, en hafa ber í huga að stiginn getur verið háll svo fara þarf varlega.
Einbúi í Jafnadal
Jafnadalur gengur inn úr Stöðvafirði að norðan. Um dalinn liggur gönguleið yfir Stöðvarskarð. Innst í Jafnadal er að finna klettaborgina Einbúa, sem samanstendur af nokkrum sérstæðum stórum steinum sem teygja sig stakir upp úr  flatendinu umhverfis. Í Jafnadal er einnig að finna allstóran steinboga, er gnæfir austan í Álftafelli og er um 6m. að ummáli. Svæðið er áhugavert og fallið til lengri og skemmri gönguferða.   Powered by Wikiloc
Vöðlavík gönguleiðir
Vöðlavík, sem stundum er kölluð Vaðlavík, er eyðivík sunnan Gerpis en þar voru áður nokkrir sveitabæir. Vegarslóði liggur til Vöðlavíkur, sem er einungis opinn á sumrin og er þá fær er fjórhjóladrifnum bílum.  Tvær stikaðar gönguleiðir liggja til Vöðlavíkur frá Eskifirði /Reyðarfirði, annars vegar yfir Karlsskálastað og hins vegar fyrir krossanes. Frá Vöðlavík liggur gönguleið yfir í Sandvík. Það er um fimm klukkustunda ganga um Gerpisskarð, sem fer hæst í um 700 m.y.s.  Úr víkinni og heiðinni, Vöðlavíkurheiði, eru tveir fjallstindar einna mest áberandi: Snæfugl og Hestshaus. Hörmuleg sjóslys hafa orðið við Vöðlavík á liðnum árum. Til dæmis strandaði skipið Bergvík SU í Vöðlavík í desember 1993. Mörgum er enn í minni að við tilraun til þess að ná skipinu á flot strandaði björgunarskipið Goðinn í víkinni þann 10. janúar 1994. Einn fórst við strandið en þyrlusveit Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli bjargaði öðrum skipverjum. Um þessa atburði er fjallað í heimildarmyndinni Háski í Vöðlvík.
Fardagafoss gönguleið
Fardagafoss fellur skammt frá Egilsstöðum, við rætur Fjarðarheiðar. Hann er efstur fossanna í Miðhúsaánni en hinir heita Gufufoss og Folaldafoss. Merkt gönguleið liggur að fossinum og er hún greiðfær fyrir utan seinasta spölinn sem er svolítið erfiður yfirferðar. Gengið er frá bílastæði við Áningatstein (við veg 93.) Á bak við fossinn er hellir en sagan segir að í honum hafi búið ferleg tröllskessa. Talið er að göngliggi í gegnum Fjarðarheiðina yfir í Gufufoss í Fjarðará í Seyðisfirði. Skessan undir Fardagafossi var fræg fyrir að eiga ketil fullan af gulli. Þegar skessan var orðin svo gömul að hún vissi dauða sinn nálægan þá renndi hún katlinum með gullinu niður í djúpan skessuketil sem er í miðjum Gufufossi, neðar í Miðhúsaánni. Sagt er að sjáist í handfangið á katlinum þegar lítið vatn er í ánni.  Powered by Wikiloc
Fossastígur
Ánægjuleg og létt gönguleið frá hjarta Seyðisfjarðarkaupstaðar meðfram Fjarðará inn að Fjarðarselsvirkjun. Gönguleiðin liggur að hluta til um lítið skógræktarsvæði, neðan klettabeltis sunnan megin ár.Fjölskrúðugur gróður, lækir, fossar og fögur fjallasýn prýðir þessa notalegu gönguleið. Heimsókn í elstu starfandi riðstraumsvirkjun landsins,Fjarðarsel (1913), er góður endapunktur, en þá þarf að hafa samband við Upplýsingamiðstöðina í síma 472 1551 til þess að fá hana opnaða. Aðgangur er ókeypis. Berjaland er mikið inn við Fjarðarsel, þar má finna aðalbláber, bláber og krækiber seinnihluta ágúst, allt fram til frosta. Fossafúsum göngugörpum skal ráðlagt að halda áfram frá Fjarðarseli eftir stikuðu leiðinni sem liggur meðfram ánni að sunnanverðu .Leiðin liggur upp að svonefndum Neðri-staf; að minnisvarða um ferðafrumkvöðulinn Þorbjörn Arnoddson í um 300 m. hæð. Fögur fjallasýn, fossar, gróður og saga er skemmtileg blanda sem gerir þessa gönguferð ógleymanlega. 2,5 og 4 klst. / 2 - 6 km.Auðgengið frá júní fram til hausts. 
Asknes gönguleið
Að Asknesi í Mjóafirði má sjá leifar af gamalli hvalstöð, sem reist var af Norðmönnum um aldamótin 1900. Var hún sú stærsta í heiminum á þeim tíma. Þegar umsvif stöðvarinnar voru í hámarki unnu þar um 200 manns en í dag búa aðeins um 40 manns í Mjóafirði öllum. Það liggur enginn vegur út á Asknes en þangað er skemmtilegt að ganga frá veginum innst í firðinum.
Bjargselsbotnar - gönguleið
Gengið er af stað frá skilti rétt við Hallormsstaðaskóla (gamla Hússtjórnarskólann). Leiðin er merkt með ljósgrænum stikum.Gengið er um framhlaupsurð, sem myndaðist fyrir um 10.000 árum og nefnist Hólar. Áfram er haldið upp í Bjargselsbotna, inn eftir og undir Bjarginu að Þverbjargi þar sem Illaskriða hefur fallið. Út og niður af Illuskriðu er gengið niður að Leirtjarnarhrygg. Bjargselsbotnar eru hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°05.465-W14°43.031 Powered by Wikiloc
Eiríksstaðahneflar - gönguleið
Eiríksstaðahneflar eru tvö hliðstæð fjöll á Jökuldalsheiði, einnig þekkt sem Fremri-Hnefill (947 m) og Ytri-Hnefill (922 m). Skemmtileg gönguleið liggur á Hneflana. Þá er gengið frá skilti við Þverá sem er innan við Eiríksstaði á Jökuldal. Fyrst er haldið á Fremri-Hnefil og þaðan á Ytri-Hnefil og niður í Eiríksstaði. Fyrir þá sem vilja lengja gönguna svolítið er gaman að ganga að Hneflaseli, heiðarbýli sem fór í eyði árið 1875 og þaðan til baka á milli Hneflanna niður í Jökuldal.  Leiðin er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°08.617-W15°28.195  
Helgustaðanáma gönguleið
Silfurbergsnámuna í Helgustaðalandi er að finna á leiðinni frá Eskifirði til Vöðlavíkur og liggur göngustígur upp að henni.  Helgustaðanáma er gömul silfurbergsnáma í landi Helgustaða í Eskifirði sem var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Helgustaðanáma er ein frægasta silfurbergsnáma í heimi en þar var silfurberg grafið úr jörðu frá því á 17. öld og fram á fyrri hluta 20. aldar. Silfurberg er kennt við Ísland á fjölörgum tungumálum, til dæmis er enska heitið Iceland spar. Mest af því silfurbergi sem er að finna á söfnum víða um heim kemur úr Helgustaðanámu en einhver stærstu og tærustu eintök silfurbergs í heiminum hafa fundist í námunni. Silfurberg er sérlega tærir kristallar af steindinni kalsít en bergið gegndi veigamiklu hlutverki í þróun margvíslegra rannsókna á eiginleikum ljóss. Í dag er silfurbergið friðlýst og stranglega bannað er að nema það brott. 
Hólmatindur gönguleið
Hólmatindur, 985 metra hár, er stolt Eskfirðinga en glæsilegur tindurinn stendur austan megin í firðinum, gengt þorpinu. Krefjandi gönguleið liggur á fjallið en á toppnum geta göngugarpar kvittað í gestabók.  Hólmatindur er eitt af „Fjöllunum fimm í Fjarðabyggð “ en það er verkefni sem skólabörn fundu upp en Ferðafélag Fjarðamanna hrinti í framkvæmd.    Powered by Wikiloc
Álfkonusteinn gönguleið
Töluverðan spöl fyrir ofan bæinn Bustarfell í Vopnafirði stendur stór steinn sem kallast Álfkonusteinn. Tiltölulega létt er að ganga frá Bustarfelli að steininum en honum tengist skemmtileg þjóðsaga. Sagan segir að sýslumannsfrú á Bustarfelli hafi í draumi verið leidd inn í steininn. Þar kom hún til hjálpar álfkonu í barnsnauð, sem launaði fyrir sig með fallegum gullofnum vef eða klæði. Klæðið er haganlega gert, framandi og einsdæmi hér á landi, og er nú í eigu Þjóðminjasafni Íslands. 
Hafrahvammagljúfur
Hafrahvammagljúfur á Austurlandi er með stærstu og stórfenglegustu gljúfrum landsins. Þar sem gljúfrið er dýst eru um 200 metrar frá botni að brún og gljúfrið er um 8 kílómetrar að lengd. Merkt gönguleið er með fram gljúfrinu og niður að Magnahelli. Það þarf fjórhjóladrifsbíl til að keyra að upphafspunkti gönguleiðarinnar en hægt er að sjá hluta gljúfursins frá Kárahjúkum og þangað má komast á venjulegum fólksbíl.
Grænafell
Skjólsælt og vinalegt svæði undir kjarrivöxnum hlíðum Grænafells skammt vestan við þéttbýlið Reyðarfjörð. Auðfær, stikuð gönguleið liggur upp á fellið frá Fagradal. Á Grænafelli er lítið stöðuvatn. Síðan er unnt að fylgja stórfenglegri gönguleið meðfram undurfögru gili Geithúsaár. Stórir steinar í kjarrinu minna á álfaborgir en eru í raun framburður snjóflóða og skriða úr fjallinu.  Áratugum saman var hefð að unglingar gróðusettu hver sitt tré í Grænafellinu og eru stór grenitré dæmi um það. Í Grænafelli var löngum samkomustaður Reyðfirðinga og háðu þeir íþróttamót sín þar.  Nú er þetta vinsælasta göngusvæði þorpsbúa.
Kolbeinstangaviti
Kolbeinstangaviti er tæpir 20 metrar á hæð og stendur á glæsilegum stað í landi Leiðarhafnar í Vopnafirði. Vitinn var byggður árið 1942 en ekki tekinn í notkun fyrr en tveimur árum síðar þegar ljóstæki fengust loksins í hann frá Englandi. Vitinn er húðaður með ljósu kvarsi og hrafntinnumulningur er á dökku flötunum. Kolbeinstangaviti er eini vitinn sem hefur haldið þessu útliti, þ.e. hann hefur ekki verið kústaður með þéttiefni. Gönguleiðin frá þorpinu að vitanum er falleg og létt, þar sem hún liggur eftir malarveginum út í Leiðarhöfn og að vitanum. Þaðan er fallegt útsýni yfir þorpið og út fjörðinn. Gamall námuvegur sem liggur af veginum út í Leiðarhöfn er skemmtileg gönguleið út á Kolbeinstangann. Tangasporðurinn býður upp á glæsilegt landslag sem er kjörið til útivistar og er mjög vinsælt á meðal heimamanna.
Vestdalsvatn
Skemmtileg gönguleið er yfir Vestdalsheiði frá Héraði yfir í Seyðisfjörð. Vestdalsheiði var áður fyrr fjölfarinn fjallvegur en gengið var upp með Gilsá yfir heiðina og niður Vestdal í Seyðisfjörð. Gengið er frá skilti á Fjarðarheiði (N65°15.577 - W14°13.524) og stefnt að vestari enda Bjólfsins. Vatnið blasir við þegar komið er á móts við Bjólfinn. Þetta er góð gönguleið um ávalar hæðir. Þegar komið er að Vestdalsvatni er um þrjár leiðir að velja ef fólk vill ekki fara sömu leið til baka. Niður Vestdal í Seyðisfjörð þar er stikuð leið. Niður Gilsárdal eftir greinilegri slóð að Gilsárteigi (austan við Eiða á Fljótsdalshéraði) eða fyrir vestan Bjólfinn niður í Stafdal. Hólkurinn með gestabók og stimpli er þar sem Gilsáin fellur úr vatninu. Vaða þarf ána ef gengið er af Fjarðarheiði. Kóreksstaðavígi er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°17.102-W14°17.887 Powered by Wikiloc
Streitisviti
Fyrst var reistur viti á Streitishorni árið 1922 er þar var settur upp járngrindarviti sem smíðaður hafði verið á járnsmíðaverkstæði ríkisins í Reykjavík. Þessi viti var starfræktur fram til ársins 1958 en var þá fjarlægður þar sem byggður hafði verið viti á Hlöðu, skeri í sunnanverðu mynni Breiðdalsvíkur. Hlöðuvitinn féll um koll í miklu óveðri og sjógangi í janúar 1984 og var núverandi Streitisviti byggður í staðinn það ár. Á Streitishvarfi er skemmtilegt útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna. Þar er stutt en falleg gönguleið sem gefur innsýn í jarðsögu Austfjarða og sýnir mjög vel berggangana sem eru einkennandi fyrir svæðið. Þó gönguleiðin sé stutt er vel hægt stoppa í nokkra klukkutíma, leika sér og njóta náttúrunnar sem svæðið hefur upp á að bjóða.
Streitishvarf
Á Streitishvarfi er skemmtilegt útivistarsvæði fyrir alla fjölskylduna. Þar er stutt en falleg gönguleið sem gefur innsýn í jarðsögu Austfjarða og sýnir mjög vel berggangana sem eru einkennandi fyrir svæðið. Þó gönguleiðin sé stutt er vel hægt stoppa í nokkra klukkutíma, leika sér og njóta náttúrunnar sem svæðið hefur upp á að bjóða. Fyrst var reistur viti á Streitishorni árið 1922 er þar var settur upp járngrindarviti sem smíðaður hafði verið á járnsmíðaverkstæði ríkisins í Reykjavík. Þessi viti var starfræktur fram til ársins 1958 en var þá fjarlægður þar sem byggður hafði verið viti á Hlöðu, skeri í sunnanverðu mynni Breiðdalsvíkur. Hlöðuvitinn féll um koll í miklu óveðri og sjógangi í janúar 1984 og var núverandi Streitisviti byggður í staðinn það ár.
Beljandi
Í Breiðdalsá, skammt fyrir utan bæinn Brekkuborg við Breiðdalsvík, er fossinn Beljandi. Raunar eru fossarnir tveir, ytri og innri, og samnefndir hylir við. Fossarnir eru ekki sérstaklega háir en þeir eru mjög fallegir og vel þess virði að skoða. Stutt gönguleið er frá þjóðveginum um Breiðdalsvík að fossunum. Svæðið er einstaklega fallegt og skemmtilegt til útivistar.
Beljandi
Í Breiðdalsá, skammt fyrir utan bæinn Brekkuborg við Breiðdalsvík, er fossinn Beljandi. Raunar eru fossarnir tveir, ytri og innri, og samnefndir hylir við. Fossarnir eru ekki sérstaklega háir en þeir eru mjög fallegir og vel þess virði að skoða. Stutt gönguleið er frá þjóðveginum um Breiðdalsvík að fossunum. Svæðið er einstaklega fallegt og skemmtilegt til útivistar.
Sandfell
Sandfell (743 m) er fallegt líparítfjall sunnan Fáskrúðsfjarðar og er það dæmigerður bergeitil. Í suðurhlíðum fjallsins má sjá hvernig bergeitillinn hefur lyft upp basaltþekju. Bergeitillinn er talinn vera 600 m þykkur og eitt besta sýnishorn frá tertíertíma á norðurhveli jarðar. Mjög skemmtileg og falleg gönguleið er upp á Sandfellið. Powered by Wikiloc
Urðarhólar
 Í Afrétt, innst í Borgarfjörður Eystri, er fallegt framhlaup. Þangað liggur stikuð, um 3 km. létt gönguleið. Gengið er framhjá fallegu vatni, Urðarhólavatni. Ánægjulegt er að ganga um framhlaupið, þar sem skiptast á hólar og tjarnir, og lengja þannig gönguna að vild.