Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Á Austurlandi er einstaklega mikið af fallegum fossum, háum og lágum, sem njóta sín vel í fallegu landslagi og spennandi er að skoða. Merktar gönguleiðir eru að mörgum þeirra.

Rjúkandi
Rjúkandi er fallegur foss sem fellur tignarlega niður nokkra klettastalla, fram af heiðarbrún og að þjóðvegi 1. Aðgengi að fossinum er mjög gott en stutt ganga er frá bílastæði sem er við þjóðveginn þar sem hann liggur um Jökuldal. 
Fardagafoss gönguleið
Fardagafoss fellur skammt frá Egilsstöðum, við rætur Fjarðarheiðar. Hann er efstur fossanna í Miðhúsaánni en hinir heita Gufufoss og Folaldafoss. Merkt gönguleið liggur að fossinum og er hún greiðfær fyrir utan seinasta spölinn sem er svolítið erfiður yfirferðar. Gengið er frá bílastæði við Áningatstein (við veg 93.) Á bak við fossinn er hellir en sagan segir að í honum hafi búið ferleg tröllskessa. Talið er að göngliggi í gegnum Fjarðarheiðina yfir í Gufufoss í Fjarðará í Seyðisfirði. Skessan undir Fardagafossi var fræg fyrir að eiga ketil fullan af gulli. Þegar skessan var orðin svo gömul að hún vissi dauða sinn nálægan þá renndi hún katlinum með gullinu niður í djúpan skessuketil sem er í miðjum Gufufossi, neðar í Miðhúsaánni. Sagt er að sjáist í handfangið á katlinum þegar lítið vatn er í ánni.  Powered by Wikiloc
Bleiksárfoss
Bleiksá og fossar hennar er það fyrsta sem fangar augað þegar beygt er af þjóðveginum inn til Eskifjarðar. Hæsti fossinn í fossaröð Bleiksár er nefndur Bleiksárfoss. Búið er að beina ljóskösturum upp að Bleiksárfossi og er það oft mikið sjónarspil að sjá hann á myrkrum vetrarkvöldum, hvort sem hann rennur niður hlíðina eða er í klakaböndum. Bleiksáin getur verið mjög mikil um sig í haust- og vorrigningum. Slíkar aðstæður gera Bleiksána og fossa hennar ekki síður áhugaverða.
Hengifoss
Hengifoss í Fljótsdal er einn af þekktari áfangastöðum Austurlands en hann er jafnframt þriðji hæðsti foss landsins, um 128 metra hár og afar tignarlegur. Í grennd við Hengifoss eru svo fjölmargir aðrir áhugaverðir viðkomustaðir sem vert er að heimsækja. Hengifoss fellur í Hengifossgljúfur sem staðsett er í norðanverðum Fljótsdal, rétt innan við botn Lagarfljóts. Bergveggir gljúfursins sýna ólík jarðlög frá eldgosum á tertíertíma jarðsögunnar, blágrýti í bland við fagurrauð millilög sem gefa fossinum einstaka ásýnd og eru sívinsælt myndefni ferðafólks. Hengifossá á upptök sín í Hengifossvatni á Fljótsdalsheiði og rennur í gegnum gljúfrið og ofan í Lagarfljót. Hvernig er best að komast að Hengifossi? Frá Egilsstöðum er um tvær leiðir að velja. Hægt er að aka austan megin við Lagarfljótið í gegnum Hallormsstaðaskóg (vegur nr. 1 að Grímsá og þaðan yfir á veg nr. 931) eða norðan megin við fljótið í gegnum Fellabæ (vegur nr. 931, malarvegur á stuttum kafla) en vegalengdin er svipuð, um 35 km.  Það er góð hugmynd að skoða ferðaleiðina Fljótsdalshringinn, en þar er að finna tillögur að skemmtilegum viðkomustöðum í kringum Hengifoss og Lagarfljót. Gönguleiðin upp að Hengifossi Frá bílastæðinu við Hengifoss liggur þægileg og vel merkt gönguleið upp að fossinum. Það tekur um 40-60 mínútur að ganga alla leið upp en leiðin er í heildina um 5 km. Fyrsti áfanginn frá bílastæðinu er upp tröppur en síðan tekur við malarstígur áleiðis að fossinum.  Á leiðinni er gengið fram hjá Litlanesfossi, sem er umlukinn einstökum stuðlabergssveip. Hægt er að beygja af leið og fylgja slóða niður í gilið sem Litlanesfoss fellur í, en fara þarf að öllu með gát við gilbarminn sem er brattur og getur verið sleipur. Ofarlega á gönguleiðinni er komið að upplýsingaskilti og þaðan er gott útsýni að fossinum og gljúfrinu. Hægt er að ganga ofan í gljúfrið sjálft og alveg að fossinum en mikilvægt er að fara varlega þar sem stígurinn getur verið blautur. Að standa ofan í gilinu og heyra fossinn bergmála í hamraveggjunum er einstök upplifun. Þegar lítið vatnsrennsli er í fossinum er hægt að ganga á bak við hann og inn í lítinn hellisskúta. Athugið að til að komast alveg að fossinum þarf að vaða yfir ána en á sumum árstíðum getur hún verið vatnsmikil og þar af leiðandi ófær.  Best er að ganga sömu leið til baka niður á bílastæðið en ef vaðið er yfir ána er hægt að ganga niður norðan megin við ána en þar er þó ekki merkt gönguleið. Þjónusta við Hengifoss Gönguleiðin að Hengifossi er opin allt árið. Yfir sumartímann veita landverðir frá Vatnajökulsþjóðgarði upplýsingar um svæðið og leiðsögn upp að fossinum. Yfir vetrartímann er mikilvægt að göngufólk búi sig vel til fararinnar og skoði veðurspá og aðstæður vel áður en lagt er af stað. Nauðsynlegt getur reynst að vera með göngubrodda og ísaxir. Við bílastæðið eru upplýsingaskilti um svæðið, salerni og nestisaðstaða og eru gestir svæðisins hvattir til að ganga vel um þar. Áhugaverðir staðir í nágrenninu Í Fljótsdal og í nágrenni hans er ógrynni skemmtilegra viðkomustaða sem vert er að heimsækja fyrir eða eftir göngu upp að Hengifossi. Það er til dæmis tilvalið að líta við í Snæfellsstofu, gestastofu austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem er m.a. hægt að fræðast um gróðurfar og dýralíf svæðisins. Í næsta nágrenni er Skriðuklaustur, hið sérstæða heimili rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar og þar er einnig hægt að skoða rústir miðaldaklausturs. Í Klausturkaffi, sem staðsett er á Skriðuklaustri, er svo tilvalið að setjast niður og bragða á kræsingum úr hráefni af svæðinu. Í Hallormsstaðaskógi er fjöldi göngu- og hjólaleiða og aðrir afþreyingarmöguleikar við allra hæfi auk ljómandi góðs tjaldsvæðis. Yfir sumartímann er hægt að aka ferðaleiðina Um öræfi og dali sem liggur upp á hálendi Austurlands og koma við í Laugarfelli, Kárahnjúkum og Stuðlagili en vegurinn er aðeins fær vel búnum fjórhjóladrifsbílum. Powered by Wikiloc
Gufufoss
Gufufoss er fallegur foss innarlega í Seyðisfirði. Nafnið er tilkomið vegna mikillar gufu sem fossinn gefur frá sér og sveipar hann ákveðinni dulúð. Vegurinn yfir Fjarðaheiði liggur rétt við fossinn og er aðgengi að honum mjög gott.
Gljúfursárfoss
Gjúfursárfoss í sunnanverðum Vopnafirði fellur fram í litfögru gljúfri rétt fyrir neðan bílastæðið. Fossinn er glæsilegur er hann fellur um 45 metra ofan í gilið.   Gljúfursá var á fyrri tíð mikill farartálmi þegar ferðast þurfti austur fyrir Hellisheiði eystri. Mörg slys urðu þegar fólk var að reyna að þvera hana fótgangandi eða á hestum. Ef gengið er frá bílastæði upp með ánni er komið að gömlu brúnni yfir Gljúfursá. Þar má sjá hleðslur frá fyrstu brúnni sem var byggð yfir ána rétt um aldamótin 1900 og þótti þá mikið mannvirki.  Sagt er að fyrsta brúin yfir ána hafi verið byggð í kjölfar banaslyss sem þar átti sér stað þegar maður á hesti freistaði þess að komast yfir ána að vetri til.   Frá bílastæðinu liggur einnig merkt gönguleið niður með Gljúfursánni og um Drangsnes.  
Flögufoss
Flögufoss er glæsilegur foss í Breiðdal. Fossinn er nokkuð hár, um 60 metrar, og er staðsettur í einstaklega fallegu og jarðfræðilega merkilegu umhverfi en Breiðdalurinn er hluti af hinni fornu megineldstöð Austurlands. Rétt fyrir ofan Flögufoss er annar lítill foss sem fellur niður á stall en þaðan rennur fossinn undir lítinn steinboga. Athyglivert er að þó áin hafi verið til staðar í þúsundir ára þá breytti hún leið sinni til þess að fossinn rynni undir steinbogann ekki fyrr en um aldamótin. Þetta gerði fossinn enn glæsilegri en hann þegar var.  Þægileg gönguleið liggur frá þjóðveginum að fossinum. 
Klifbrekkufossar
Klifbrekkufossar er stórfengleg fossasyrpa innst inn í botni Mjóafjarðar. Þar falla margir litlir fossar í röð sem mynda fallega og myndræna heild. Fossarnir blasa við hægra megin við þjóðveginn þegar ekið er niður af Mjóafjarðarheiðinni.
Strútsfoss
Gengið er frá skilti rétt hjá Sturluflöt, innsta bæ í Suðurdal, austan Kelduár. Gengið er upp með Fellsá austanvert í Villingadal. Fossinn sést ekki fyrr en komið er nokkuð langt inn dalinn. Þá er hægt að ganga upp með Strútsgili þar sem komið er að því. Þar uppi er hólkurinn með gestabók og stimpli. Ekki er hægt að komast alla leið að fossinum nema fara niður í gilið og vaða ána nokkrum sinnum sem getur verið varhugavert. Strútsfoss er á náttúruminjaskrá. Strútsfoss er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N64°54.194-W15°02.314 Powered by Wikiloc
Beljandi
Í Breiðdalsá, skammt fyrir utan bæinn Brekkuborg við Breiðdalsvík, er fossinn Beljandi. Raunar eru fossarnir tveir; ytri og innri, og samnefndir hylir þar við. Fossarnir eru ekki sérstaklega háir en þeir eru mjög fallegir og vel þess virði að skoða. Stutt gönguleið er frá þjóðveginum um Breiðdalsvík að fossunum. Svæðið er einstaklega fallegt og skemmtilegt til útivistar.
Sveinsstekksfoss
Sveinstekksfoss, Fossárfoss eða Nykurhylsfoss Nykurhylsfoss er neðsti fossinn í Fossá. Fossinn er um 15 metra hár og fellur hann niður um þröngt gljúfur þar sem áin kastast til, skiptist í flúðir og hyli og endar að lokum í Nykurhyl sem er um 9 metra djúpur þar sem mest er.  Vatnssvið Fossár er um það bil 113 km2. Aðalupptökin eru í Líkárvatni, þaðan fellur áin um 20 km leið í yfir 30 fossum út Fossárdal til sjávar í Berufirði. Rennsli árinnar er ákaflega misjafnt eftir árferði og tíðarfari og getur hún á skömmum tíma breyst úr litlum og sakleysislegum læk í hina mestu forynju sem engu eirir. Mælingar hafa verið gerðar á vatnsrennsli Fossár í yfir 50 ár. Nykurhylur er undir neðsta fossinum. Þar var nykur (Fossbúi), sem lengi var reynt að losna við en það tókst ekki fyrr en skírnarvatni var hellt í ána eftir skírn á bæ í dalnum. Nykur var vatnavera sem birtist oft í gervi hests eða ungs manns. Nykur bjó í vatni og reyndi að draga ungar stúlkur og börn í vatnið til sín. en hann mátti ekki heyra nafnið sitt og ekki þoldi hann að gert væri krossmark. Þá hvarf hann.
Hengifoss í Seldal
Hæsti foss í Norðfirði fellur í samnefndri á úr Oddsdalnum niður í Seldal í afar fallegu og gróðursælu glúfri.
Búðarárfoss
Auðveld ganga upp að Búðarárfossi. Á leiðinni er upplagt að líta um öxl og virða fyrir sér stórfenglegt útsýni yfir bæinn. Vegna gríðarlegra sórrar aurskriðu sem féll í desember 2020 eyðilagðist hluti göngustígsins upp að fossinum Vinsamlegast farið varlega um svæðið.