Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Ferðaleiðin „Flakkað um firði“ hefst á Egilsstöðum, þjónustukjarna Austurlands. Leiðin liggur um nærliggjandi firði sem allir hafa sína sérstöðu og einkenni. Hlykkjóttir fjallvegir, dalir og firðir taka á móti gestum sem leggja ferðaleiðina undir fót (eða dekk!) og hvetjum við fólk til að taka sér góðan tíma í að flakka um firði!

Í næsta nágrenni við Egilsstaði, handan Fjarðarheiðar er að finna Seyðisfjörð. Það skildi engan undra að Seyðisfjörður hefur í gegn um tíðina verið vinsæll áningarstaður ferðamanna, ekki eingöngu vegna náttúrufegurðarinnar sem umlykur bæinn heldur er hann ekki síður þekktur fyrir litríka og skapandi menningu sem þar ræður ríkjum. Sunnan við Seyðisfjörð, í næsta firði er hinn afskekkti Mjóifjörður. Vegurinn yfir í Mjóaförð er einungis aðgengilegur bílum yfir hlýjustu mánuðina en yfir veturinn gengur ferja á milli Mjóafjarðar og Neskaupstaðar einu sinni í viku. Frá Mjóafirði liggur leiðin á Reyðarfjörð. Keyrt er um og yfir Fagradal sem svo sannarlega ber nafn með rentu. Frá Reyðarfirði liggur leiðin á austur á Eskifjörð og þaðan um jarðgöng áleiðis til Neskaupstaðar.

Það er af nógu að taka þegar flakkað er um firði og síbreytilegt landslagið kemur stöðugt á óvart. Fossarnir, gönguleiðirnar, gnæfandi fjöllin og strandlengjurnar skilja engan eftir ósnortin – hvort sem þú ert á hraðferð eða á rólegheita rúnti eru möguleikarnir allt að því endalausir. Á leiðinni er töluvert framboð á gistingu (allt frá hótelum og gistiheimilum yfir í tjaldsvæði og hostel) og gott úrval veitingastaða. Rík áhersla er lögð á notkun á staðbundnu hráefni á veitingastöðum á Austurlandi. Gæddu þér á sushi á Seyðisfirði eða nýveiddum og ferskum fiski í gömlu norsku síldarsjóhúsi á Eskifirði.

Náttúrufegurðin er ekki af skornum skammti og líkt og með bragðlaukana, verður enginn svikinn af allt að því endalausum náttúruperlum sem verða á vegi þeirra sem flakka um firði. Í Mjóafirði er að finna Klifbrekkufossa sem, líkt og nafnið gefur til kynna, virðast klífa niður brekkurnar. Í Vestdal, rétt utan við Seyðisfjörð er sömuleiðis fjöldinn allur af fossum sem gaman er að ganga á milli. Þegar þú hefur fengið nóg af fossaskoðun (er það hægt?) er tilvalið að rölta um friðlandið í Hólmanesi rétt austan af Reyðarfirði. Þar er að finna fjölbreytt dýralíf ásamt ótrúlegri náttúrufegurð undir rótum Hólmatindar.

Af nógu er að taka í afþreyingu og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Fjölbreyttar gönguleiðir eru á hverju strái og viljir þú velja þér annan fararskjót en tvo jafnfljóta er tilvalið að skella sér í reiðtúr, hvort sem það er við Egilsstaði eða Neskaupstað. Golfarar gætu dvalið hér dögum saman og spilað á fjölbreyttum völlum fjarðanna og slakað svo á í notalegum sundlaugum í hverju bæjarfélagi. Á veturna er hægt að skipta kylfunum út fyrir skíði og renna sér í brekkum Stafdals og Oddsskarðs. Menning er í hávegum höfð á Austurlandi og fjöldinn allur af spennandi söfnum og menningarminjum er að finna á leiðinni.

Við mælum með að taka góðan tíma í ferðalagið til að njóta sem best þess sem fyrir augu ber á leiðinni. Hægt er að útbúa eigin útgáfu af ferðaleiðinni með því að nota „Mitt uppáhald“ möguleikann hér á síðunni. Þannig getur þú skipulagt draumaferðalagið þitt um Austurland á þann hátt sem þér hentar best. Góða skemmtun!

 

Áhugaverðir staðir

Seyðisfjörður
Tvísöngur
Skaftfell - myndlistarmiðstöð Austurlands
Tækniminjasafn Austurlands
Regnbogagatan á Seyðisfirði
Skíðasvæðið í Stafdal
Brimnesviti
Fardagafoss gönguleið
Íslenska stríðsárasafnið
Hólmanes
Eskifjörður
Ferðaþjónustan Mjóeyri
Skíðamiðstöð Austurlands, Oddsskarði
Oddsskarð
Hólmatindur gönguleið
Helgustaðanáma gönguleið
Neskaupstaður
Safnahúsið á Norðfirði
Sundlaugin Norðfirði

Sögur af svæðinu

N4: Uppskrift að góðum degi
Komdu með okkur að flakka um firði!