Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Dyrfjallahlaup - Borgarfjörður Eystri 2021

10. júlí

Dyrfjallahlaup COROS // 10. júlí 2021

10. July, 2021 - 11. July, 2021

Um viðburðinn
Dyrfjallahlaupið verður haldið í fimmta sinn í sumar. Eftir miklar breytingar í heiminum á síðasta ári ætlum við líka að breyta aðeins til og munum hlaupa tvær nýjar leiðir í sumar 12 og 24 km og setja gömlu leiðina okkar í smá pásu.

Hlaupið er eftir gönguleiðum á Víknaslóðum sem hafa notið mikilla vinsælda göngufólks síðastliðin ár. Þetta er einstakt svæði, ljós líparítfjöll og skriður, í bland við dökka og tignarlega basalttinda og það verður enginn svikinn að stórkostlega útsýninu að Dyrfjöllunum, sem hlaupið dregur nafn sitt af.

Leiðarlýsing 24 km:
Leiðin hefst við Þverá í innsveit Borgarfjarðar. Fyrst um sinn er hlaupið eftir jeppaslóða áður en er beygt inn á gönguleið um Urðarhóla. Þar er stuttur grófur kafli áður en er komið að hinu fallega Urðarhólavatni. Þaðan er hlaupið eftir gönguleið að Víknaheiði (258m) inn á grófan jeppaslóða sem liggur út Breiðuvík að gönguskála. Farið er yfir Stóruá í Breiðuvík á göngubrú. Frá Breiðuvík er hlaupið eftir gönguleið um gróið land og mela ofan Kjólsvíkur að Syðra-varpi í 445m hæð. Þaðan er hlaupið ofan við Hvalvík og svo út Brúnavík niður að slysavarnaskýli þar sem hlaupaleiðirnar mætast. Vaða þarf Brúnavíkuránna sem er ekki mikið vatnsfall og er hún þveruð alveg niður við sjó. Frá Brúnavík tekur við stíf brekka fyrst áleiðis að Brúnavíkurskarði (354m). Hlaupið er þennan hluta leiðarinnar eftir gamalli reiðgötu sem er góð og mikið gengin. Frá Brúnavíkurskarði liggur leiðin niður að sjó og síðustu 400 metrana er hlaupið á malbiki að endamarki við Borgarfjarðarhöfn.

Vegalengd 23.4 km
Heildarhækkun: 1076m
Heildarlækkun: 1132m
Hæsti punktur: 445m y.sm
Lægsti punktur: 5m y.sm
Drykkjarstöðvar verða á tveimur stöðum á leiðinni í Breiðuvík og Brúnavík með vatni.

Kort af leiðinni

Leiðarlýsing 12 km:
Rásmark verður við Hólahorn á Borgarfirði við og hlaupið fyrst um sinn með grófum jeppaslóða yfir Hofstrandarskarð (350m) til Brúnavíkur. Jeppaslóðinn endar innst í víkinni og þar er farið inn á gönguleið um gróið land sem liggur út að sjó þar sem og þar mætast leiðirnar. Frá Brúnavík tekur við stíf brekka fyrst áleiðis að Brúnavíkurskarði (354m). Hlaupið er þennan hluta leiðarinnar eftir gamalli reiðgötu sem er góð og mikið gengin. Frá Brúnavíkurskarði liggur leiðin niður að sjó og síðustu 400 metrana er hlaupið á malbiki að endamarki við Borgarfjarðarhöfn.

Vegalengd 11.7km
Heildarhækkun: 701m
Heildarlækkun: 707m
Hæsti punktur: 354m y.sm
Lægsti punktur: 5m y.sm
Drykkjarstöð verður í Brúnavík með vatn og orkudrykki.

Kort af leiðinni.

Verðlaun verða veitt fyrir þrjú fyrstu sæti karla og kvenna.

Skilmálar: Skráður þátttakandi er ábyrgur fyrir gögnum sem honum eru afhent vegna hlaupsins (ss. hlaupanúmer). Óheimilt er að láta þriðja aðila fá þau gögn. Það er hægt að breyta skráningu á einu nafni yfir í annað fyrir 1.júlí, eftir það er nafnabreyting ekki heimil.

Þátttökugjald er ekki endurgreitt.

Dyrfjallahlaupið er á vegum Ungmennafélags Borgarfjarðar og verkefnisstjóri hlaupsins er Olgeir Pétursson sem jafnframt tekur við öllum ábendingum og spurningum er varða hlaupið í gegnum netfangið: olgeirp@gmail.com

Á svæðinu er ýmis konar afþreying og þjónusta í boði. Á borgarfjordureystri.is má finna gagnlegar upplýsingar um gistingu, matsölustaði, afþreyingu og aðra þjónustu.

Verð og skráning

GPS punktar

N65° 33' 0.500" W13° 58' 24.151"

Staðsetning

Borgarfjörður Eystri