Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Grát Bleikur

7. nóvember - 12. desember
Skaftfell kynnir opnun sýningarinnar Grát Bleikur, sýningarstýrð af Claire Paugam. Sýningin opnar föstudaginn 7. Nóvember kl.17-19 í sýningarsal Skaftfells.
 
Grát Bleikur er samsýning sem ögrar bleikum sem kynjuðu tákni. Sýningarstjóri er Claire Paugam en sýningin inniheldur verk eftir samtímalistamennina Dýrfinnu Benitu Basalan (IS), Hélène Hulak (FR) og dragdrottninguna Gógó Starr (IS) en þau takast á við tákn feðraveldisins og dægurmenningar á gagnrýninn og leikandi hátt. Með brengluðum og ýktum framsetningum á menningarfyrirbærum miðla listamennirnir bæði pólitískum sjónarmiðum og persónulegum frásögnum í þeim tilgangi að skapa öfluga og byltingarkennda list. Á meðan staðalímyndir eru afbyggðar, grætur liturinn bleikur af því að staðalímyndir kynjanna hafa kennt okkur að tár séu kvenleg, en þegar liturinn grætur verður hann jafn flæðandi og kyngervið sjálf.
 
Hélène Hulak, f.1990, er franskur listamaður sem starfar í Lyon og París. Innsetningar hennar flétta saman málverk, skúlptúra ​​og textíl og grafa undan kapítalískri ímynd kvenleikans á djarfan hátt — með skærum litum, skrímslalegum skuggamyndum og stórum líkömum. Hún túlkar handverk eins og saumaskap og prjón upp á nýtt, breytir umfangi þeirra og virkni og sækir innblástur í dægurmenningu til að skapa umbreytandi myndir. Með því að skora á ákveðin kerfi ögrar hún samböndum kynjanna og umhverfisins. Verk hennar hafa verið sýnd á 68th Salon de Montrouge, macLYON, Magasins Généraux, KOMMET, og La Villette’s 100% L’Expo (2023), sem og á alþjóðlegum hátíðum eins og Lokart (Ungverjalandi) og Prague Art Week (Tékklandi).
 
Gógó Starr er skærasta drag-stjarna Íslands, Dragdrottning Íslands 2015 og eini draglistamaðurinn sem hefur fulla atvinnu af slíku hér á landi. Árið 2015 endurvakti hún íslenska dragmenningu með stofnun Drag-Súgur sýninganna sem hún hefur framleitt mánaðarlega síðan þá, en þess á milli hefur Gógó ferðast um heiminn og komið víða fram. Sama hvort Gógó er að skemmta sér og öðrum, framleiða viðburði eða almennt að deila sinni list með heiminum þá er áherslan ávalt á að upphefja hinseginleikann og styðja við annað hinsegin listafólk.
 
Dýrfinna Benita Basalan (f. 1992) er Íslenskur listamaður og tónlistarmaður, með ættir að rekja til Filippseyja. Hún útskrifaðist frá Gerrit Rietveld Academie árið 2018 og var meðstofnandi listahópsins Lucky 3 (2019), sem hlaut Hvatningarverðlaun Myndlistar Miðstöðvarinnar (2022) fyrir PUTI. Verk hennar spanna teikningar í blönduðum miðlum, skúlptúra og innsetningar sem kanna æsku, menningar-og samfélagsleg kerfi og sameiginlega reynslu. Fyrsta einkasýning hennar, Chronic Pain – Langavitleysan opnaði í Listasafni Reykjavíkur, 2023. Í dag er hún partur af safneign Listasafns Reykjavíkur og Nýlistasafnsins, einnig hefur sýnt á ýmsum vettvöngum bæði á Íslandi og fyrir utan landsteinana. Sem Countess Malaise er hún þekkt í jaðar tónlistarsenunni víðsvegar í Evrópu og hefur gefið út tvær plötur síðan 2019, en ný EP-plata hennar, Frelsi, kemur út árið 2025.
 
Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.

Staðsetning

Austurvegur 42