Kolbeinstangaviti
Kolbeinstangaviti er tæpir 20 metrar á hæð og stendur á glæsilegum stað í landi Leiðarhafnar í Vopnafirði. Vitinn var byggður árið 1942 en ekki tekinn í notkun fyrr en tveimur árum síðar þegar ljóstæki fengust loksins í hann frá Englandi. Vitinn er húðaður með ljósu kvarsi og hrafntinnumulningur er á dökku flötunum. Kolbeinstangaviti er eini vitinn sem hefur haldið þessu útliti, þ.e. hann hefur ekki verið kústaður með einhvers konar þéttiefni.
Það er falleg og létt gönguleið að ganga frá þorpinu eftir malarveginum út í Leiðarhöfn og að vitanum. Þar er fallegt útsýni yfir þorpið og út fjörðinn. Gamall námuvegur sem liggur af veginum út í Leiðarhöfn er einnig skemmtileg gönguleið út á Kolbeinstangann. Tangasporðurinn býður upp á glæsilegt landslag sem er kjörið til útivistar og er mjög vinsælt á meðal heimamanna.