Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

DÝRALÍF

Hreindýr

Hrein, dýr?

Hreindýr voru fyrst flutt til landsins á árunum 1771 til 1787 frá Noregi. Dýrunum var komið fyrir víðsvegar á landinu m.a. á Vestfjörðum og Vestmannaeyjum. Stofnarnir náðu hins vegar ekki fótfestu og dóu að lokum út, að undanskildum dýrunum á Austurlandi. Það er talið að harðir vetrar og óbeit hafi gert það að verkum að hreindýr áttu erfitt með uppgang hérlendis. Hins vegar virðist gróðurfar og náttúra Austurlands hafa verið kjöraðstæður fyrir hreindýrin - og hér eru þau enn!

Hvar? Hvernig? Hvenær?

Austurland er besta (og eina) svæðið á landinu þar sem hægt er að bera þessi tignarlegu dýr augun. Á sumrin halda dýrin sig að mestu leyti uppi á fjöllum og því ekki í alfaraleið. Það er hins vegar mun líklegra að þau verði á vegi þínum á veturna þegar snjóa tekur í fjöllum og fæða orðin af skornum skammti. Það er því ekki óvenjuleg sjón yfir vetrarmánuðina að sjá heilu hjarðirnar af hreindýrum spóka sig um við hringveginn og jafnvel inn í bæjum! 

 

Rangifer Tarandus (Hreindýr)

Hreindýr eða Rangifer tarandus eins og þau heita á latnesku, eru sterkbyggð dýr klædd þykkum feldi til þess að ráða betur við kalt veðufar heimkynna þeirra. Hreindýr eru eina tegund hjartardýra þar sem bæði karl og kvenkyn bera horn. Það er þó nokkuð auðvelt að gera greinarmun á milli kynja þar sem að kvendýr eru yfirleitt um helmingi minna en karldýrin.