Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Austfirsku alparnir, falin fjallaskíðaperla

Austfirsku alparnir bera svo sannarlega nafn með rentu. Eftir ferðalög um alla Evrópu í leit að bestu brekkunum eru Austfirsku alparnir ennþá með þeim efstu á listanum. Það er eitthvað við þessi tignarlegu fjöll og sjávarsýn, sem dregur mann að.

FJALLSKÍÐI ERU UPPLIFUN

Fjallaskíði hafa undanfarið verið að ryðja sér til rúms hérlendis og má segja að Austurland sé „ókönnuð“ fjallaskíðaparadís Íslendinga. Aðgengi að snjónum gerist þó ekki mikið betra, bæði er hægt að aka langt upp í hæð hvort sem það er í Oddsskarði eða Stafdal svo eitthvað sé nefnt og aðgengi í flottar brekkur og langar leiðir sem oft enda niður við sjó eru að finna á víð og dreif á þessu landshorni.

Þegar fer að vora og daginn fer að lengja vaknar þrá innra með manni að eyða tíma úti, með hækkandi sól og fallegu sólsetri sem baða fjöllin er fátt sem toppar góðan dag á fjallaskíðum í góðum aðstæðum og liðast niður silkimjúkar brekkurnar.

Ljósmynd: Local Icelander

HVAÐ ÞARF AÐ HAFA Í HUGA

Fjallaskíði eru þó ekki hættulaust áhugamál og er mjög mikilvægt að fólk sæki sér viðeigandi þjálfun og þekkingu áður en það leggur af stað út í óvissuna. Mikilvægt er að sækja sér þekkingu og reynslu til að lesa snjóflóðaumhverfi og aðstæður til þess að geta forðast snjóflóð eftir fremsta megni. Einnig er mikilvægt að fá þekkingu í félagabjörgun úr snjóflóðum og til þess að framkvæma hana þurfa allir sem ferðast um í snæviþökktu umhverfi að vetrarlagi að vera með svokallaða snjóflóðaþrenningu, sem að samanstendur af snjóflóðýli, skóflu og stöng.

Þetta er svo auðvitað að undanskildum fjallaskíðabúnaðinum, en þegar talað eru um fjallaskíði þá er átt við skíði sem hafa bindingar sem hægt er að losa og nota í svokallaðri göngustillingu, með því að setja skinn undir skíðin varnar maður því að renna aftur á bak og getur því gengið upp fjöll á skíðunum. Einnig þarf fjallskíðaskó, stafi, brodda, og hefðbundinn fjallgöngubúnað svo sem staðsetningartæki, og góðan fatnað svo eitthvað sé nefnt.

Ljósmynd: Skúli Pálmason

DRAUMADAGUR Á FJALLASKÍÐUM Á AUSTFJÖRÐUM

Hefjum daginn á að keyra upp í Oddsskarð. Ef skíðasvæðið er opið er svo hægt að kaupa lyftupassa, til að nýta daginn sem best og jafnvel byrja á því að taka nokkrar ferðir í lyftunni til að hita upp.

Því næst er förinni heitið að túra eða skinna eins og það er oft kallað á útlenskaðri íslensku. Fyrsti viðkomustaðurinn er Svartafjall, frekar brött fjallaskíðaleið og ekki á færi allra. Hægt er að túra beint upp frá bílastæðinu á skíðasvæðinu. Hafa ber þó í huga að þarna geta verið óhagstæðar snjóflóðaaðstæður og því skal enginn halda út í óvissuna þarna nema að hafa þekkingu og getu til að meta aðstæður og taka upplýsta ákvörðun áður en haldið er af stað. Ásamt því að búa yfir bæði góðri tækni á uppleið sem og niðurleiðinni.

Uppleiðin er frekar brött á köflum og krefst góðrar tækni við að skinna, það getur þurft að „boot pack-a“ hluta af leiðinni upp. Því getur verið gott ráð að hafa bæði skíðabrodda og einnig venjulega mannbrodda og ísexi ef það þarf að labba upp með skíðin á bakinu hluta af leiðinni.

Búast má við að þetta taki um tvær til þrjár klukkustundir. Fer aðeins eftir hraða hópsins. Útsýnið af toppnum er einkar fallegt og má meðal annars sjá niður í Norðfjörð.

Eftir gott rennsli á Svartafjall er síðan frábært að koma við í skíðaskálanum og fá sér hressingu, þar er hægt að fá guðdómlegar vöfflur með súkkulaði og rjóma.. þarf ég að segja meira?

Ljósmynd: Local Icelander

TVEGGJA TINDA DAGAR ERU EKKI VANDAMÁL Á AUSTFJÖRÐUM

Þegar allir eru saddir og sælir er síðan upplagt að leggja af stað á næsta tind, Goðatind sem gnæfir yfir beint fyrir ofan skíðalyftuna í Oddsskarði, ef báðar lyfturnar eru opnar er þetta ekki svo löng leið en undanfarið hefur efri lyftan ekki verið í notkun vegna bilunar. Þá er þetta um 45 mínútna til klukkustundar túr frá toppnum á neðri lyftunni upp á topp Goðatinds.

Efsti hlutinn þar er einnig smá brattur og getur verið gott að vera með skíðabrodda og jafnvel mannbrodda og ísexi ef bera þarf skíðin síðasta spölinn.

Eftir að hafa notið útsýnis af toppnum tekur við langt rennsli niður í fjörð eða tæplega 4 km rennsli. Búast má við að koma niður að sjávarmáli í nálægð Sigmundarhúss og ekki er verra ef einhver getur sótt mann þangað eða þá að skipuleggja að koma fyrir bíl þar í upphafi dags, keyra þarf fram hjá Mjóeyri og út fjörðinn til að komast þangað, um 10 mínútna akstur.

Á vorin getur þurft að ganga 100 metra eða svo til að komast alveg niður að sjó en oft er hægt að finna línur sem hægt er að elta alveg niður að sjó.

Þetta myndi ég kalla uppskrift að frábærum degi, vona að þið eigið eftir að njóta vel, hægt er svo að útfæra þetta á marga vegu og aðlaga eftir getustigi hópsins. Til dæmis er hægt að sleppa Svartafjalli og skíða meira á skíðasvæðinu í Oddsskarði, þar er að finna margar flottar utanbrautarskíðaleiðir og enda síðan daginn á Goðatindi eða skíða beint niður í sveit.

Ekki þarf að fara upp á topp á Goðatindi til að skíða niður að sjó, hægt er að fara upp á topp á neðri lyftunni og síðan til hægri upp í skarðið fyrir neðan Goðatind og skíða þaðan niður í Sigmundarhús sem er ekki eins bratt og hægt er að hliðra sér þangað án þess að setja skinn undir skíðin og getur það því verið skemmtilegt fyrir fólk sem vill kynnast utanbrautarskíðun án þess að vera á fjallaskíðum.

Einnig er hægt að skíða bara beint niður fyrir neðan aðallyftuna og þá er komið niður við Helgustaði sem er einnig frábært rennsli á góðum degi.

Góða skemmtun á fjallaskíðum á Austurlandi. Ef þú hefur áhuga á að fylgjast með ævintýrum mínum og fjallaskíðaferðum getur þú fylgst með á Instagram @localicelander.

Ljósmynd: Local Icelander

Höfundur
Solla Sveinbjörnsdóttir
localicelander.is
instagram.com/localicelander