Fara í efni

Breiðdalsvík og Seyðisfjörður á lista Travel and Leisure

Veftímaritið Travel and Leisure gaf á dögunum út lista yfir þorp og bæi sem enginn ferðamaður ætti að láta fram hjá sér fara á ferð um Ísland. Tvö þorp á Austurlandi ná inn á listann, Seyðisfjörður og Breiðdalsvík, sem eiga að mati höfundar það sameiginlegt að bjóða upp á notalega dvöl og fjölbreytta þjónustu fjarri fjöldanum.

Á Breiðdalsvík njóta gestir góðrar og heimilislegrar þjónustu í veitingum, gistingu og afþreyingu. Þar eru notaleg hótel og veitingastaðir sem vinna með staðbundið hráefni í matargerð sinni.  Handverksbrugghúsið Beljandi er sérstaklega nefnt en þar hafa Breiðdælingar bruggað bjór frá 2017 við góðan orðstír. Stórfengleg náttúran gerir Breiðdalinn að einstökum stað til þess að skoða og njóta fjölbreyttrar útivistar, allt frá gönguferðum til útreiða. Þar smá finna fossa og litla skóga, auk þess sem litskrúðug líparít fjöllin eru mögnuð að sjá.

Litagleði og sköpunarkraftur eru áberandi á Seyðisfirði en bærinn einkennist af litskrúðugum húsum og fjölbreyttu listalífi. Síðustu ár hefur staðurinn verið einna þekktastur fyrir hina myndrænu Regnbogagötu sem liggur að Seyðisfjarðarkirkju, sem einnig er kölluð Bláa kirkjan. Það er auðséð hvers vegna staðurinn er jafn vinsæll á meðal ferðamanna og hann er, náttúrufegurðin í bland menningarlíf staðarins hvetur gesti til þess að draga fram gönguskó og myndavél. Höfundur greinarinnar bendir lesendum á að líta við á Skaftfelli Bistro fyrir ráðlagðan dagsskammt af menningu og matargerðarlist.

Hér má lesa greinina.