Fara í efni

Dagar myrkurs 2016: Rótgróin austfirsk menningarhátíð

Menningarveislan austfirska „Dagar myrkurs“ hefst á miðvikudaginn, 2. nóvember, og stendur til 6. nóvember. Alls kyns menning verður í öndvegi að venju og allir Austfirðingar munu geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessari rótgrónu austfirsku menningarhátíð.

Menningarveislan austfirska „Dagar myrkurs“ hefst á miðvikudaginn, 2. nóvember, og stendur til 6. nóvember. Alls kyns menning verður í öndvegi að venju og allir Austfirðingar munu geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessari rótgrónu austfirsku menningarhátíð.

Dagar myrkurs voru haldnir í fyrsta sinn í nóvember árið 2000 af Markaðsstofu Austurlands sem þá var og hét en Austurbrú, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar á Austurlandi hafa tekið höndum saman á síðustu árum til að lýsa upp fyrstu daga vetrar með þessum hætti.

Þetta er sannkölluð byggðahátíð Austurlands þar sem gervallur fjórðungurinn leggst á eitt til að gera íbúum og gestum þeirra glaða daga í svartasta skammdeginu. Í fimm daga rekur hver viðburðurinn annan og ættu háir sem lágir að finna eitthvað við sitt hæfi í dagskránni. Listafólk leggur lóð sín á vogarskálarnar að venju; tónlist, leiklist og myndlist verða áberandi í dagskránni að venju, bílabíó, myrkrarganga, bæjargöngur og fleira og fleira en dagskránna má skoða á vefnum east.is og á heimasíðum sveitarfélaganna.

Á Dögum myrkurs er jafnframt góður tími til að heimsækja söfn og sýningar en tvær sýningar verða opnaðar á Dögum myrkurs í ár: Fimmta nóvember opnar sýningin Plastfljótið – þátttökulistsköpun (Plastic River - Participatory artwork), í Snæfellsstofu, Vatnajökulþjóðgarði og þá mun sýningin Festum þráðinn – samræður um útsaum spor fyrir spor, verða opnuð í Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum á fyrsta degi hátíðarinnar, miðvikudaginn 2. nóvember kl. 17:00. Sýningin er afrakstur rannsókna norsku listakonunnar Ingrid Larssen á útsaumi kvenna, annars vegar á Austurlandi og hins vegar í Vesterålen í Noregi.

Nánari upplýsingar hjá Austurbrú veitir Jón Knútur Ásmundsson, verkefnastjóri, í síma 895 9982 og með netpósti jonknutur (hja) austurbru.is