Fara í efni

Fjallaskíði á Austurlandi

Vorin eru tími fjallaskíðunar og oftast á maður bestu dagana á þeim tíma árs, þegar sólin er farin að hækka á lofti og veðri farið að skána. Vorskíðun er svo sannarlega með þeim betri á Íslandi, þar sem snjórinn verður eins konar kornsnjór sem jafnast oft á við góðan púðursnjó. Hér fyrir neðan ætla ég að fara yfir nokkra tinda á Austurlandi sem að er skemmtilegt að fara á fjallaskíðum, suma hef ég farið á sjálf og aðrir eru á listanum. Að þessu sinni urður fjórir toppar fyrir valinu, en þeir spanna fjölbreytt landsvæði á Austurlandi og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Ljósmynd: Þráinn Kolbeins
Ljósmynd: Þráinn Kolbeins

Goðaborg í Norðfirði

Goðaborg er 1132 metrar á hæð og stendur innarlega í Norðfirði. Best er að aka inn Fannardal, beygir til vinstri eftir að komið er út úr Norðfjarðargöngum og keyrir að Tandrastöðum. Gott er að hefja gönguna þar og ganga upp með Tandrastaðaá og beygja síðan til vinstri og ganga upp hrygg sem liggur á toppinn. Útsýni af fjallinu er fallegt í allar áttir. Hvort sem að horft er niður í Mjóafjörð eða Norðfjörð, við blasa tignarleg fjöll í allar áttir og því gott að vera með myndavél á þessari leið. Brekkan niður er svo einnig ekkert til að kvarta yfir. Ef aðstæður er svo ekki góðar til að ganga á tindinn sjálfan er hægt að ganga á margt þarna í kring, en ég hef til dæmis gengið í Bagalsbotna sem eru aðeins utar og það er mjög skemmtileg skíðaleið og útsýnið einnig mjög fallegt. 


Horft niður í Mjóafjörð. Ljósmynd: Solla Sveinbjörns

Bjólfur í Seyðisfirði

Bjólfur er 1085 metrar á hæð og stendur tignarlega fyrir ofan Seyðisfjörð. Fínt er að ganga upp frá skíðaskálanum í Stafdal. Gangan er eitthvað í kringum 6.5 km upp á topp og um 700 metra hækkun. Fínt er að skíða svipaða leið niður og var farin upp.

Hoffell

Hoffell er inn af Fáskrúðsfirði og hægt er að ganga frá bæði Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Skemmtilegt getur þó verið að fara upp öðru megin og niður hinu megin. Ef við byrjum í Reyðarfirði þá er hægt að byrja frá bænum Eyri. Þaðan er gengið upp í svokallað Eyrarskarð og svo þaðan upp á topp Hoffells sem að er í 1092 metra hæð. Síðan er flott brekka að skíða niður að Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði. Útsýni af fjallinu er mjög fallegt og því mikilvægt að njóta.

Bagalsbotnar. Ljósmynd: Solla Sveinbjörns

Snæfell

Snæfell þarf vart að kynna en það er hæsta fjall Íslands utan jökla. Fjallið sjálft er ekki erfitt uppgöngu en þó ekki mælt með fyrir óvana og þá alls ekki á fjallaskíðum að vori til. Hægt er að skíða nokkrar leiðir á fjallinu, flestir kjósa að fara norðan megin á skíðum. Hefst þá ferðin við Hafursá af Sanddalsvegi. Ferðin er nokkuð löng eða um 7 km aðra leið og 1200 metra hækkun. Mikilvægt er að fara varlega á fjallinu en nokkuð er um stórar sprungur efst í fjallinu. Snæfell er oft skíðað langt fram á sumar ef snjóalög eru góð.


Fallegt á fjörðunum. Ljósmynd: Solla Sveinbjörns

Mikilvægt er að undirbúa sig vel áður en haldið er á fjöll og þá sérstaklega þegar á að ferðast um á fjallaskíðum í snæviþökktu umhverfi. Ég fór yfir helsta búnaðinn og hvað þarf að hafa í huga í fyrri færslu minni um fjallaskíði hér.

Ég vona að þið eigið eftir að eiga gott vor á fjallaskíðum á Austurlandi, nú er tíminn að drífa sig af stað í ferðalag. Góða skemmtun á fjöllum. Ef þú hefur áhuga á að fylgjast með ævintýrum mínum og fjallaskíðaferðum getur þú fylgst með á Instagram @localicelander.

Höfundur
Solla Sveinbjörnsdóttir
localicelander.is
instagram.com/localicelander