Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hækkandi sól fagnað á Seyðisfirði

Ein af perlum Austurlands er Seyðisfjörður, listrænn og litríkur bær sem er þekktur fyrir afslappað og skemmtilegt andrúmsloft. Margir þekkja Regnbogagötuna, hafa prófað eða heyrt af spennandi veitingastöðum og fjölda gönguleiða í firðinum. Á hverju ári standa íbúar einnig fyrir viðburðum og hátíðum sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Herðubreið, 2019. Boris Vitásek (SK). Second Litany. Ljósmyndari: Chantal Anderson
Herðubreið, 2019. Boris Vitásek (SK). Second Litany. Ljósmyndari: Chantal Anderson

Um miðjan febrúar hvert ár er vetrarhátíðin List í ljósi haldin á Seyðisfirði og að þessu sinni fer hún fram dagana 11. og 12. febrúar. Dagskrá hátíðarinnar birtist von bráðar en þangað til er hægt að hita upp með því að rifja upp minningar frá fyrri hátíðum.

Fögnum hækkandi sól
Þó fjörðurinn sé alltaf ægifagur umvafinn háum fjallahringnum, kasta fjöllin löngum skuggum yfir hann yfir dimmustu vetrarmánuðina. Þegar sólin er lágt á lofti ná geislarnir ekki að skína niður á byggðina sem stendur innst í 17 kílómetra löngum firðinum.

Þetta á auðvitað við um fleiri þorp á Austurlandi sem standa undir háum fjöllum svo sólin nær ekki til þeirra. Það er því fagnaðarefni þegar sólin lætur loksins sjá sig eftir langa fjarveru. Víða á Austurlandi er hefð fyrir að bjóða í sólarkaffi við þetta tilefni og þar láta Seyðfirðingar ekki sitt eftir liggja. Þeir halda hátíðina List í ljósi.

Mountain, 2021. Artists: Fríða Ísberg (IS) and Nanna Vibe S Juelsbo (DK). Ljósmyndari: Jessica Auer
Mountain, 2021. Artists: Fríða Ísberg (IS) and Nanna Vibe S Juelsbo (DK). Ljósmyndari: Jessica Auer

Seyðfirskt listalíf
Á Seyðisfirði búa um 700 manns en þrátt fyrir smæðina hefur byggst upp sterkt samfélag listafólks og bærinn er þekktur fyrir fjölbreytt listalíf og sköpunarkraft. Fyrir utan hátíðir eins og List í ljósi er þar að finna Skaftfell, Miðstöð myndlistar á Austurlandi, listagallerí, LungA lýðháskólann og vinnustofur listafólks auk þess sem fjöldi listaverka prýða bæinn og nágrennið.

Í ár er List í ljósi haldin í sjöunda sinn. Celia Harrison frá Nýja-Sjálandi og Seyðfirðingurinn Sesselja Jónasardóttir settu hátíðina á fót árið 2016 og gera enn. Árið 2019 fékk hátíðin Eyrarrósina, viðurkenningu sem veitt er framúrskarandi menningarverkefnum á landsbyggðinni.

Church, 2019. Samuel Miro (NZ). By Wikipedia. Ljósmyndari: Juliette Rowland
Church, 2019. Samuel Miro (NZ). By Wikipedia. Ljósmyndari: Juliette Rowland

Hápunktar hátíðarinnar
List í ljósi leggur áherslu á að lýsa upp Seyðisfjörð með einstökum samtímaverkum íslensks og erlends listafólks. Verkin, sem eru flest sýnd utandyra og því öllum aðgengileg, hafa í gegnum árin verið af fjölbreyttum toga, t.d. innsetningar, leik- eða danssýningar þar sem húsin í þorpinu og fjöllin í kring eru í aðalhlutverki. Það er von á hverju sem er, ljós og skuggar magna upp verur á veggjum, skilaboð eru rituð á fjöllin og diskókúlur magna upp stemmninguna í bænum. Í ár er þema hátíðarinnar tengingin okkar við umhverfið.Til að njóta þess sem hátíðin hefur upp á að bjóða gildir því að klæða sig eftir veðri og halda út í myrkrið.

Bláa kirkjan, stendur við enda Regnbogagötunnar svokölluðu og hefur um langt skeið verið eitt vinsælasta myndefni ferðalanga sem heimsækja Ísland, er oft notuð sem bakgrunnur myndbandsverka á hátíðinni en þeim er varpað víðar, t.d. upp í fjallshlíðarnar fyrir ofan bæinn, íbúðarhús, skólann eða á samkomuhús staðarins, Herðubreið.

Inni í Herðubreið fer svo fram kvikmyndahátíðin Flat Earth Film Festival þar sem eru á dagskrá ýmsar óhefðbundnar kvikmyndir, fyrirlestrar og umræður.

Það má segja að allt samfélagið leggist á eitt við að gera hátíðina að merkisviðburði, rafmagnsveitan sér um að myrkva götur bæjarins svo listsköpunin fá best notið sín og veðurguðirnir setja sitt mark á hátíðina, oftast með góðu veðri og stundum norðurljósum.

Smoke, 2019. Emily Parsons-Lord (AU). Ljósmyndari: Chantal Anderson
Smoke, 2019. Emily Parsons-Lord (AU). Ljósmyndari: Chantal Anderson

Kynntu þér sköpunarkraft Seyðisfjarðar

Á heimasíðunni Visit Seyðisfjörður er að finna yfirlit yfir verslanir og þjónustu, auk listagallería í bænum. Þar er einnig viðburðadagatal sem heldur utan um viðburði, hátíðir og annað tilstand á Seyðisfirði.

LungA skólinn er lýðháskóli sem leggur áherslu á listsköpun og skapandi vinnu. Á hverri önn hefst nýtt 12 vikna ævintýri þar sem nemendum gefst tækifæri til að kafa ofan í hina ýmsu listmiðla og gera tilraunir.

LungA hátíðin er haldin um miðjan júlí ár hvert og dregur að ungt fólk af öllu landinu og þó víðar væri leitað, til að taka þátt í fjölbreyttum listasmiðjum, tónleikum og sýningum.

Skaftfell – Myndlistarmiðstöð Austurlands stendur fyrir sýningarhaldi, viðburðum, gestavinnustofum fyrir alþjóðlegt listafólk og fjölbreyttu fræðslustarfi árið um kring. Þar er einnig að finna frábært lítið bistró-kaffihús-bar.

Í samkomuhúsinu Herðubreið er Herðubíó, sem er eina bíóhúsið á Austurlandi.

Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar er árleg tónleikaröð sem fer fram í Seyðisfjarðarkirkju á miðvikudögum í júlí og ágúst. Tónleikaröðin er einn af mörgum áhugaverðum menningarviðburðum á Austurlandi.

Tvísöngur er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne sem stendur uppi í fjallshlíð utarlega í bænum. Stutt ganga (15-20 mín.) er upp að Tvísöng og er lagt af stað frá veginum ofan við Síldarvinnsluna. Útsýnið er stórfenglegt út á fjörðinn og það er hljóðupplifunin líka.