Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Höfuðstaður lundans á Íslandi

Koma lundans er einn af þessum ljúfu vorboðum á Íslandi og dregur hann fjölda ferðamanna til Austurlands ár hvert. Óhætt er að fullyrða að hvergi er betri staður til að skoða lundann og fleiri sjófugla en í Hafnarhólma á Borgarfirði eystra.
Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson | @icelandic_explorer
Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson | @icelandic_explorer

Lundar á Íslandi

Lundinn (Fratercula arctica) er lítill sjófugl af svartfuglaætt og þeirra algengastur við Íslandsstrendur. Þeir verpa við Norður-Atlantshaf og finnast helst við Ísland, Noreg og Færeyjar.

Sérstakt útlit lundans hefur verið minjagripahönnuðum mikill innblástur enda má finna hann í ýmsum útfærslum í minjagripaverslunum um allt land – sem eru einmitt gjarnan kallaðar lundabúðir. Að sjá lunda í sínu náttúrulega umhverfi er hins vegar dálítið ævintýralegt. Hvernig hann vappar virðulega um í svart-hvítum fjaðrahamnum með sinn einkennandi, litskrúðuga gogg. Sumum finnst lundar dálítið trúðslegir í fasi, sérstaklega þegar þeir búa sig undir flugtak, en þeir eru afbragðs flugmenn og geta náð um 88 km hraða á klukkustund.

Þegar vora tekur byrja lundarnir að tínast heim til Íslands eftir að hafa eytt vetrarmánuðunum úti á reginhafi. Lundinn er trygglyndur fugl og parast maka sínum fyrir lífstíð en meðalaldur lunda er um 20 til 25 ár. Þeir eru líka vanafastir og eiga sín uppáhalds varpsvæði.


Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson | @icelandic_explorer

Besti tíminn til að skoða lunda á Íslandi

Lundar eyða um það bil átta mánuðum á ári úti á sjó og koma einungis í land yfir sumartímann til að para sig og koma ungum á legg. Vanalega snúa þeir á varpstöðvar snemma aprílmánaðar, þar sem þeir endurnýja kynnin við maka sinn og ef heppnin er með þeim, eignast unga, sem í daglegu tali nefnist kofa (en í Vestmannaeyjum er reyndar talað um pysju). Í ágúst, þegar þeir hafa lokið skyldum sínum í landi, halda þeir á sjó út aftur til vetrardvalar.

Fyrsti lundi ársins 2024 á Austurlandi sást í Hafnarhólma þann 10. apríl síðastliðinn. Mögulegt er að berja lunda augum fram í byrjun eða miðjan ágúst en þá fara þeir að tygja sig aftur á brott.Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson | @icelandic_explorer

Hvar er best að skoða lunda á Íslandi?

Fjöldi lunda á Íslandi er töluverður, enda ein algengasta svartfuglstegundin við Íslandsstrendur, en talið er að hér á landi verpi um átta til tíu milljónir árlega. Varpsvæðin eru í grösugum eyjum, höfðum og brekkum ofan við bjargbrúnir eða í urðum undir þeim. Fuglinn grefur holur í jörðina og verpir þar eða undir steinum og í glufum sem hann finnur.

Við leyfum okkur að fullyrða að hvergi séu betri möguleikar til lundaskoðunar en á Borgarfirði eystra. Í Hafnarhólma, um 5 km frá þorpinu, er nefnilega sannkölluð lundaparadís! Hafnarhólmi var, eins og nafnið bendir til, eitt sinn eyja en á 8. áratug síðustu aldar var eyjan landtengd og þar útbúin smábátahöfn Borgfirðinga. Í hólmanum hefur ávallt verið mikið fuglalíf en lundinn er algengasti fuglinn á svæðinu og búa þar um 10.000 pör í holum sínum yfir sumartímann.

Fuglaáhugafólk ætti því ekki að láta Borgarfjörð eystri og Hafnarhólma fram hjá sér fara á ferðalagi um Austurland. Aðgengi að hólmanum er afar gott en heimafólk hefur lagt metnað sinn í að byggja upp svæðið með stígum og pöllum svo hægt sé að njóta návistar við fuglana án þess að þeir verði fyrir truflun frá gestum. Svæðið er mjög öruggt fyrir fólk og fugla og því kjörið fyrir fjölskylduævintýri. Ef veðrið er ekki upp á sitt besta er hægt að setjast inn í lítið fuglaskoðunarhús uppi í hólmanum og fylgjast með atferli fuglanna þaðan.

En það eru ekki bara lundar með aðsetur í Hafnarhólma. Fýlar, kríur og æðarfuglar dvelja þar líka svo þar er jafnan líf og fjör… og stundum dálítill hávaði! Fyrir þau sem langar að gera fuglaskoðun að áhugamáli er heimsókn í Hafnarhólma því vel þess virði. Eftir góða heimsókn til lundanna er kjörið að kíkja yfir í Hafnarhús Café og fá sér heitan drykk og bakkelsi og njóta útsýnisins yfir Borgarfjörð, smábátahöfnina og Hafnarhólma.

Hér er svo hægt að fylgjast með lundunum og nágrönnum þeirra í gegnum vefmyndavél.


Photo: Gunnar Freyr Gunnarsson | @icelandic_explorer

Borgarfjörður eystri: Höfuðstaður lundans

Frá Egilsstöðum til Borgarfjarðar eystra er 70 km akstur. Á Borgarfirði eystra búa aðeins um 100 manns en þorpið iðar af lífi, sérstaklega á sumrin þegar ferðamenn fara á stjá. Þar er að finna úrval veitingahúsa og gististaða. Um árabil hefur heimafólk byggt upp frábært göngu- og útivistarsvæði á og í kringum Borgarfjörð eystra, sem gengur undir nafninu Víknaslóðir. Þar nýtur fjallahjólamennska einnig vaxandi vinsælda.

Ferskt sjávarfang á veitingahúsum þorpsins, heilsulind með óborganlegu útsýni, torfbærinn Lindarbakki, Álfaborgin og tónlistarhátíðin Bræðslan – allt eru þetta góðar ástæður til að leggja leið sína á Borgarfjörð eystri í sumar!

Mynd: Jessica Auer | @jessica.auer