Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Jólaævintýri á Austurlandi

Hreindýr hafa í gegnum tíðina ekki skipað stóran sess í íslenskum jólahefðum - nema kannski í amerískum jólakvikmyndum á skjám landsmanna þar sem hreindýr draga sleða jólasveinsins um himininn. Eftir því sem við best vitum koma íslensku jólasveinarnir nú bara á tveimur jafnfljótum til byggða. Hreindýrskálfarnir Garpur og Mosi, hafa þó unnið hug og hjörtu íbúa á Austurlandi í aðdraganda jólanna.

Sagan af Garpi og Mosa
Í maí síðastliðnum voru Egilsstaðabúarnir Fannar Magnússon og Björk Björnsdóttir á ferð um Fljótsdalsheiði þegar þau gengu fram á tvo hreindýrskálfa sem virtust hafa verið yfirgefnir af hjörð sinni. Kálfarnir, sem þá voru um vikugamlir, voru veikburða og sársoltnir og eftir að hafa svipast um eftir hjörð en ekki fundið hana, ákváðu Fannar og Björk að koma þeim til bjargar.

Hreindýrskálfarnir Garpur og Mosi.
Ljósmynd: Fannar Magg

Eftir að hafa ráðfært sig við dýralækni og yfirvöld fundu þau kálfunum, sem þau gáfu nöfnin Garpur og Mosi, stað á Vínlandi í Fellum þar sem fjölskylda þeirra rekur gistihús. Þar lifa þeir nú í vellystingum í sínum eigin afgirta garði og fara daglega í gönguferðir í skóginum með Björk og Fannari.

Björn Magnússon faðir Bjarkar sinnir kálfunum. Ljósmynd: Fannar Magg.
Ljósmynd: Fannar Magg

Á meðan kálfarnir voru að ná upp styrk eftir vosbúðina þurfti að sinna þeim nánast allan sólarhringinn. Björn Magnússon, faðir Bjarkar, er mikill hreindýraáhugamaður og tók að sér að sinna kálfunum að mestu, en þeim þurfti að gefa á 2-3 klukkustunda fresti fyrstu mánuðina, auk þess sem þeir þurftu á lyfjagjöf að halda.

Í byrjun nærðust Garpur og Mosi helst á broddmjólk sem þeir fengu frá bændum í nágrenninu en svo fóru þeir að fá fjölbreyttara fæði; mjólk, gæsaegg, lýsi og sölt. Núna er aðalfæðan þeirra mjólk, gras og mosi.

Hreindýrskálfarnir Garpur og Mosi. Ljósmynd: Fannar Magg.
Ljósmynd: Fannar Magg

Eftir því sem kálfarnir hafa vaxið og dafnað hafa persónuleikar þeirra komið sterkar í ljós – og hreindýrahirðarnir hafa þurft að hækka girðingarnar í kringum þá, hreindýr eru nefnilega hástökkvarar! Garpur er sterkur, fjörugur og forvitinn kálfur en Mosi, sem var verr á sig kominn þegar þeir fundust, er rólega og þögla týpan.

Björk og Fannar vinna nú að því, í samráði við yfirvöld, að fá leyfi til að halda hreindýrakálfana til framtíðar.

Fannar að gefa kálfunum að borða.

Fannar er fær ljósmyndari og setur reglulega inn myndir og fréttir af kálfunum á Instagram reikninginn sinn. Allar myndirnar hér á síðunni eru frá Fannari.

Ef þið eruð stödd á Austurlandi er tilvalið að kíkja við á Vínlandi og heilsa upp á Garp og Mosa, þar svífur jólaandinn yfir vötnum.

Afhverju eru hreindýr Austurlandi?
Hreindýr eru einkennisdýr Austurlands enda lifa þau hvergi annars staðar á Íslandi.

Innflutningur á hreindýrum til Íslands frá Noregi hófst í kringum 1780 og var ætlunin að gera þau að húsdýrum. Dýrum var sleppt víða um landið, til dæmis á Reykjanesi, í Vestmannaeyjum og í Eyjafirði en þau dóu fljótt út vegna fæðuskorts, veðurfars og eldsumbrota í landinu. Á Austurlandi náðu hreindýrin hins vegar fótfestu og fjölguðu sér svo að í dag eru um 6000 – 7000 dýr á vappi um landshlutann, frá hálendi Austurlands og suður í Lón.

Hreindýr eru hjarðdýr en stærð hjarðanna er mismunandi eftir árstíðum. Á veturna ferðast þau í stórum hópum, allt upp í nokkur hundruð dýr saman, en yfir sumartímann eru hjarðirnar minni.

Hvar er hægt að kynnast sögu hreindýranna á Austurlandi betur?
Á Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum er önnur af grunnsýningum safnsins tileinkuð hreindýrunum. Safnið er opið árið um kring.
Í Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Skriðuklaustri í Fljótsdal er hreindýrunum, sögu og náttúrufari á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs gerð skil á áhugaverðan hátt.

Hvar er hægt að sjá hreindýr á Austurlandi?
Í vetur er hægt að heimsækja Garp og Mosa en þeir búa á Vínlandi í Fellum, rétt norðan við Egilsstaði.

Þegar þið heimsækið Austurland er alltaf möguleiki á að rekast á hreindýr. Yfir sumartímann halda þau sig að mestu uppi á hálendinu, t.d. í kringum Snæfell og inni í þjóðgarðinum. Yfir vetrartímann, þegar hálendið er þakið snjó, leita þau meira niður á láglendið. Þau sjást gjarnan niðri á Suðurfjörðunum, til dæmis í Reyðarfirði og í Berufirði en á Djúpavogi er ekki óalgengt að rekast á hreindýr inni í þorpi. Þá er eins gott að vera með myndavélina tilbúna!

Texti: Carolyn Bain
Þýðing: Alda Marín Kristinsdóttir
Ljósmyndir: Fannar Magg