Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinsælir áfangastaðir

Regnbogagatan á Seyðisfirði
Regnbogagatan á Seyðisfirði er sennilega eitt þekktasta kennileiti Austurlands og sagan að baki því hvernig hún varð til er ekki síður skemmtileg. Á sólríkum degi sumarið 2016 varð eitt fallegasta samfélagsverkefni sem við vitum um að veruleika, Regnbogagatan á Seyðisfirði. Íbúar voru farnir að bíða óþreyjufullir eftir að Norðurgata, sem segja má að sé Laugavegur þeirra Seyðfirðinga, yrði löguð og hresst við. Aðdragandinn var ekki langur því sama dag og hugmyndin fæddist komu bæjarbúar og bæjarstarfsmenn saman og máluðu hellulagða hluta götunnar í litum regnbogans og sköpuðu með því, óafvitandi, eitt mest heimsótta kennileiti á Austurlandi – Regnbogagötuna. Árið um kring heimsækja gestir alls staðar að úr heiminum Regnbogagötuna með það að markmiði að taka af sér „sjálfur“ í þessu skemmtilega umhverfi regnbogastrætisins og sögulegu aldamótahúsanna sem við hana standa. Við enda regnbogans trónir svo Seyðisfjarðarkirkja, sem er einnig gjarnan kölluð Bláa kirkjan. Íbúar koma reglulega saman yfir sumartímann til að endurmála regnbogann og er það gert í góðu samstarfi við sveitarfélagið. Öllum er velkomið að taka þátt í málningarvinnunni. Regnbogagatan er staðsett í miðbæ Seyðisfjarðar og mælum við eindregið með því að gestir heimsæki veitingahús, bari og verslanir sem staðsett eru við götuna. Má þar nefna hönnunarverslunina Blóðberg og Handverksmarkaðinn þar sem hægt er að kaupa seyðfirskt handverk. NorðAustur, einn vinsælasti sushi veitingastaður landsins er staðsettur á annarri hæð Hótel Öldunnar og á jarðhæðinni er veitingastaður hótelsins, sem framreiðir dýrindis mat og drykki. Handan götunnar er Café Lára , fullkominn staður ef þú ert í stuði fyrir „juicy“ borgara, steik eða fisk dagsins og mögulega einn eða tvo kalda með. Á hverju sumri fer fram Tónleikaröð Bláu kirkjunnar, sem hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af helstu menningarviðburðum í tónlistarlífi Austurlands. Þar er boðið upp á fjölbreytta dagskrá tónlistar þar sem gefst færi á að hlýða á marga af áhugaverðustu tónlistarflytjendum landsins. Seyðisfjörður er hluti af ferðaleiðinni Flakkað um firði. Ef þú ert á ferðalagi um Austurland eða að skipuleggja næstu ferð mælum við hiklaust með því að þú kynnir þér sérsniðnar ferðaleiðir okkar um landshlutann. Góða ferð!
Seyðisfjarðarkirkja
Bláa Kirkjan á Seyðisfirði er orðin ein af þekktustu byggingum á Íslandi. Með hinn sérstaka bláa lit og fallega byggingarstíl hefur kirkjan skapað sér sess sem vinsæll ferðamannastaður, sérstaklega eftir að gatan sem að henni liggur var máluð í regnbogalitunum. Kirkjan var upphaflega á Dvergasteini og 1882 var heimilað með lögum að flytja hana á Vestdalseyri. Fyrst var kirkjan reist á hjalla ofan við byggðina á Vestdalseyri en hún fauk um koll í ofsaveðri 1894. Kirkjan var endurreist niðri á eyrinni og stóð þar til 1920 er hún var flutt á núverandi stað í hjarta Seyðisfjarðar. 1989 skemmdist kirkjan í eldi sem kviknaði þegar unnið var að endurbótum á húsinu. Pípuorgel sem sett var upp árið 1987 gjöreyðilagðist í eldinum en í dag er í kirkjunni samskonar orgel og það sem eyðilagðist. Bláa Kirkjan er opinn fyrir gesti yfir sumartímann.
Gufufoss
Gufufoss er fallegur foss innarlega í Seyðisfirði. Nafnið er tilkomið vegna mikillar gufu sem fossinn gefur frá sér og sveipar hann ákveðinni dulúð. Vegurinn yfir Fjarðaheiði liggur rétt við fossinn og er aðgengi að honum mjög gott.
Tvísöngur
Tvísöngur er hljóðskúlptúr eftir þýska listamanninn Lukas Kühne og er hluti af listaverkaröð sem fjallar um form tónlistar. Verkið er staðsett í Þófunum ofan við Seyðisfjarðarkaupstað og var formlega opnað almenningi 5. september 2012. Verkið samanstendur af fimm sambyggðum hvelfingum af mismunandi stærðum. Hæð hvelfinganna er tveir til fjórir metrar og flatarmál verksins er rúmir 30 m2. Hver hvelfing fyrir sig hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón. Tvísöngur virkar þannig sem náttúruleg umgjörð fyrir íslensku tvísöngshefðina og er bæði sjónræn og hljóðræn útfærsla á henni. Verkinu var valinn staður á sléttum bala á kyrrlátum stað í fjallshlíðinni með útsýni yfir fjörðinn. Verkið býður upp á hljóðræna upplifun sem virkja má til söngs og hljóðtilrauna einstaklinga og hópa í einveru, í samsöng, til eigin yndisauka eða fyrir áheyrendur. Myndlist Lukasar Kühne snýst um samspil rýmis og tíðni. Hann býr í Berlín og Montevideo, Uruguay, þar sem hann stjórnar deildinni “Form og hljóð” í myndlistarhluta Ríkisháskólans. Verkið á Seyðisfirði tengist verki hans “Cromatico” sem er útilistaverk í Tallinn í Eistlandi, byggt árið 2011. Sjá nánar: www.lukaskuehne.com Til að skoða og upplifa Tvísöng þurfa gestir að ganga upp malarveg, í 15-20 mín, sem er staðsettur beint á móti Brimberg fiskvinnslu.
Skálanes
Skálanes er náttúruparadís við mynni Seyðisfjarðar. Fær vegur er nær alla leið en óbrúuð á er á leiðinni. Þegar að Skálanesi er komið gefst færi á að komast í kynni við náttúruna í návígi, sérstaklega fuglalífið, þar sem þúsundir fugla af um 40 mismunandi tegundum verpa á svæðinu. Í Skálanesi er náttúru- og meningarsetur og þar er starfrækt vísindaleg rannsóknarstöð á sviði náttúru- og menningar. Skálanes hefur hlutverk eftirlitsstöðvar í alþjóðlegu neti vísindarannsóknarstöðva sem kallast INTERACT (International Network for Terrestrial Research and Monitoring in the Arctic).
Brimnes
Brimnes skagar fram í fjarðarmynni á norðurströnd Seyðisfjarðar. Um 10 km. akstur er frá miðbæ Seyðisfjarðar út að Selsstöðum en þaðan liggur 5,5 km. gönguleið eftir gömlum jeppaslóða út á Brimnes. Fyrr á tímum var ein öflugasta útgerð landsins á Brimnesi og þar má enn líta tóftir gamalla bygginga í einstaklega fallegu umhverfi. Á nesinu er einnig viti. 
Brimnesviti
Brimnesviti stendur á Brimnesi sem skagar fram í fjarðarmynni á norðurströnd Seyðisfjarðar. Um 10 km. akstur er frá miðbæ Seyðisfjarðar út að Selsstöðum en þaðan liggur 5,5 km. gönguleið eftir gömlum jeppaslóða út á Brimnes. Fyrr á tímum var ein öflugasta útgerð landsins á Brimnesi og þar má enn líta tóftir gamalla bygginga í einstaklega fallegu umhverfi.  
Skíðasvæðið í Stafdal
Stafdalur er skíðasvæði Seyðfirðinga og er staðsett við þjóðveg nr. 93 milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða. Á svæðinu eru 3 skíðalyftur og aðstaða fyrir alls konar skíðafólk.  Byrjendalyftan er kaðallyfta sem er um 100 metra long. Neðri lyftan er diskalyfta um 900 metra löng og hefur 190 metra hæðarmismun en efri lyftan er diskalyfta um 700 metra löng og hefur 160 metra hæðarmismun. Stafdalur hefur mjög skemmtilega gönguskíðabraut sem er um 5 km og er hún ávallt troðin þegar tími vinnst til. Skíða- og snjóbrettaleiga er á svæðinu og skáli sem er opinn fyrir alla gesti.
Vestdalur
Gönguleiðir upp að Vestdalsvatni, að skúta Fjallkonunnar, inn Stafdal, upp á Bjólf, yfir í Loðmundarfjörð eða yfir á Hérað liggja um Vestdal. Sumar leiðanna eru stikaðar, aðrar eru merktar inn á kortið „Gönguleiðir á Víknaslóðum“ sem fæst í upplýsingamiðstöðvum. Vestdalur og Vestdalseyri eru á náttúruminjaskrá fyrir sérstæðan gróður og menningarminjar. Hluti leiðarinnar er gömul póst- og verslunarleið, ein sú fjölfarnasta á Austurlandi á árunum 1880-1910 og víða má sjá fallegar gamlar veghleðslur og vörður. Við Vestdalsvatn fundust fyrir tilviljun bein, nælur frá Víkingaöld og mikið perlusafn sumarið 2004. Við rannsókn kom í ljós að beinin og perlurnar tilheyrðu þrjátíu ára gamalli konu frá því um 940. Fundurinn telst vera með merkari fornleifafundum hérlendis.
Vestdalsvatn
Skemmtileg gönguleið er yfir Vestdalsheiði frá Héraði yfir í Seyðisfjörð. Vestdalsheiði var áður fyrr fjölfarinn fjallvegur en gengið var upp með Gilsá yfir heiðina og niður Vestdal í Seyðisfjörð. Gengið er frá skilti á Fjarðarheiði (N65°15.577 - W14°13.524) og stefnt að vestari enda Bjólfsins. Vatnið blasir við þegar komið er á móts við Bjólfinn. Þetta er góð gönguleið um ávalar hæðir. Þegar komið er að Vestdalsvatni er um þrjár leiðir að velja ef fólk vill ekki fara sömu leið til baka. Niður Vestdal í Seyðisfjörð þar er stikuð leið. Niður Gilsárdal eftir greinilegri slóð að Gilsárteigi (austan við Eiða á Fljótsdalshéraði) eða fyrir vestan Bjólfinn niður í Stafdal. Hólkurinn með gestabók og stimpli er þar sem Gilsáin fellur úr vatninu. Vaða þarf ána ef gengið er af Fjarðarheiði. Kóreksstaðavígi er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°17.102-W14°17.887 Powered by Wikiloc
Búðarárfoss
Auðveld ganga upp að Búðarárfossi. Á leiðinni er upplagt að líta um öxl og virða fyrir sér stórfenglegt útsýni yfir bæinn. Vegna gríðarlegra sórrar aurskriðu sem féll í desember 2020 eyðilagðist hluti göngustígsins upp að fossinum Vinsamlegast farið varlega um svæðið.
Bjólfur og snjóflóðavarnargarðar Seyðisfjarðar
Bjólfur er eitt af hinum tignarlegu fjöllum Seyðisfjarðar, 1085 m. að hæð. Ofarlega í fjallinu, í um 600 m. hæð eru snjóflóðavarnargarðar, en frá þeim er stórfenglegt útsýni yfir Seyðisfjörð. Á sumrin er hægt að keyra að varnargörðunum á fjórhjóladrifnum bíl, en það er einstakt tækifæri fyrir þá sem treysta sér ekki í fjallgöngur til þess að njóta útsýnisins. Vegurinn liggur frá Fjarðarheiði og akstur að varnargörðunum tekur um 15-20 mínútur.
Dvergasteinn
Dvergasteinninn stendur í flæðamálinu neðan við samnefnda jörð á norðurströnd Seyðisfjarðar er fyrrum var kirkjustaður. Til er þekkt þjóðsaga um ferðalag Dvergasteins á eftir kirkjunni, þegar hún var flutt frá suðurströndinni norður yfir fjörðinn. Steinninn er sérkennilegur að lögun og stingur í stúf við umhverfið. Hann er auðfundinn og aðgengi gott.
Austdalur – Skálanes
Létt og skemmtileg ganga á láglendi frá bílastæði við Austdalsá að Skálanesi. Ganga má svo áfram að náttúruperlunni Skálanesbjargi. Mikið fuglalíf er á Skálanesi, m.a. æðavarp. Sýnið því aðgát og fylgið merktum stígum. Tímalengt: 1,5 klst / Fjarlægð: 4,5 km 
Fjallkonustígur
Gönguferð um Vestdal í Seyðisfirði að Vestdalsvatni og að skúta ?"fjallkonunnar"?. Vestdalur og Vestdalseyri eru á náttúruminjaskrá sökum sérstæðs gróðurfars og menningarminja. Hluti leiðarinnar er gömul póst- og verslunarleið er var ein sú fjölfarnasta austanlands á nítjándu öld og fram á hina tuttugustu. Má sjá fallegar gamlar veghleðslur og vörður. Sumarið 2004 fundust fyrir tilviljun bein, nælur frá Víkingaöld og mikið perlusafn  nokkru ofan við Vestdalsvatn, þar sem heitir Vatnsdalur. Rannsókn leiddi í ljós að beinin voru úr konu um þrítugsalldur frá því um 940. Telst beina- og perlufundurinn með merkari fornleifa-uppgötvunum hérlendis. Gönguleiðir upp að Vestdalsvatni, að skúta ?"fjallkonunnar" inn Stafdal, upp á Bjólf, yfir í Loðmundarfjörð eða yfir á Hérað liggja um dalinn. Sumar leiðanna eru stikaðar, aðrar eru merktar inn á kortið ?"Gönguleiðir á Víknaslóðum?" sem fæst í upplýsingamiðstöðvum. 3,5 klst / 6 km Göngufæri frá júní og frameftir hausti. 
Fjarðarselsvirkjun
Fjarðaselsvirkjun er elsta starfandi virkjunin á Íslandi, stofnsestt 1913 og lítt breytt frá upphafi. Það út af fyrir sig gerir hana mjög forvitnilega, en auk þess er hún ein af þremur til fjórum virkjunum sem mörkuðu afgerandi mest tímamót á öldinni. Meðal annars var hún fyrsta riðstraumsvirkjunin og frá henni var lagður fyrsti háspennustrengurinn. Ennfremur var hún aflstöð fyrstu bæjarveitunnar. Fyrir 90 ára afmælið 2003 ákvað RARIK að leggja áherslu á þaðö vægi sem virkjunin hefur í raforkusögu landsins og hafa hana til sýnis fyrir innlenda og erlenda gesti. Í því skyni var sett upp minjasýning í stöðvarhúsinu og stöðvarhúsið og næsta nagrenni lagfært. Nokkrum árum áður var virkjunarsvæðið endurskipulagt. Til þess að heimsækja Fjarðaselsvirkjun vinsamlegast hafið samband við Upplýsingamiðstöðina á Seyðisfirði. Nálægð virkjunarinnar við Seyðisfjörð eykur einnig gildi hennar fyrir bæjarbúa og til dæmis eru hvammurinn og gilið hluti af útivistarsvæði Seyðfirðinga. Frekari upplýsingar: Sími: +354 472 1122 / +354 472 1551 Netfang: info@sfk.is www.fjardasel.is
Fossastígur
Ánægjuleg og létt gönguleið frá hjarta Seyðisfjarðarkaupstaðar meðfram Fjarðará inn að Fjarðarselsvirkjun. Gönguleiðin liggur að hluta til um lítið skógræktarsvæði, neðan klettabeltis sunnan megin ár.Fjölskrúðugur gróður, lækir, fossar og fögur fjallasýn prýðir þessa notalegu gönguleið. Heimsókn í elstu starfandi riðstraumsvirkjun landsins,Fjarðarsel (1913), er góður endapunktur, en þá þarf að hafa samband við Upplýsingamiðstöðina í síma 472 1551 til þess að fá hana opnaða. Aðgangur er ókeypis. Berjaland er mikið inn við Fjarðarsel, þar má finna aðalbláber, bláber og krækiber seinnihluta ágúst, allt fram til frosta. Fossafúsum göngugörpum skal ráðlagt að halda áfram frá Fjarðarseli eftir stikuðu leiðinni sem liggur meðfram ánni að sunnanverðu .Leiðin liggur upp að svonefndum Neðri-staf; að minnisvarða um ferðafrumkvöðulinn Þorbjörn Arnoddson í um 300 m. hæð. Fögur fjallasýn, fossar, gróður og saga er skemmtileg blanda sem gerir þessa gönguferð ógleymanlega. 2,5 og 4 klst. / 2 - 6 km.Auðgengið frá júní fram til hausts.