Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

LISTAHÁTÍÐ

BRAS

BRAS

Sumarið 2017 gerði lítill vinnuhópur á Austurlandi það að markmiði sínu að auka aðgengi barna og ungmenna, á Austurlandi, að listnámi og listviðburðum. Sama haust stóð Austurbrú fyrir málþingi um barnamenningu þar sem sérfræðingar og brautryðjendur í barnamenningu komu saman og í framhaldinu varð til nýtt verkefni sem fékk heitið BRAS. Strax hófst vinna við að móta fyrstu BRAS hátíðina og fór hún fram 2018. Einkunnarorð hennar eru: Þora! Vera! Gera! þar sem börn eru hvött til að framkvæma á eigin forsendum. Meginmarkmið hátíðarinnar er að búa til vettvang þar sem öll börn á Austurlandi geta unnið saman á jafningjagrundvelli óháð móðurmáli eða tungumálakunnáttu. Önnur markmið BRAS eru:

  1. Að veita börnum og ungmennum á Austurlandi aukinn aðgang að listnámi og -starfi
  2. Að börn kynnist faglegum aðferðum í listum og fái fjölbreyttar fyrirmyndir á sviði lista
  3. Að hvetja börn til að þora að hvíla í sjálfum sér, skapa og framkvæma á eigin forsendum
  4. Að auka menningarlæsi á Austurlandi
  5. Að kynna börnum aðferðir myndlistar, tónlistar, dans og sirkuss sem leið til tjáningar, samveru og fjölbreyttrar skapandi vinnu.
  6. Að opna augu og hjörtu barna og ungmenna á Austurlandi fyrir mikilvægi samveru, samkenndar og samstöðu í samfélaginu.
  7. Að gefa börnum tækifæri á að kynnast á nýjan hátt og skilja hvert annað út frá nýjum forsendum.
  8. Að stuðla að aukinni virðingu og umburðarlyndi meðal barna og ungmenna.
  9. Að börn meti að verðleikum fjársjóðinn sem felst í aðgengi að ólíkum menningarheimum.
  10. Að nota listsköpunina til að byggja brýr á milli þjóðerna, aldurshópa og byggðakjarna.

Meira BRAS

Myndaður var stýrihópur vorið 2018 og í honum sitja fulltrúar menningarmiðstöðvanna þriggja á Austurlandi, menningarfulltrúar sveitarfélaga og starfsmenn Austurbrúar. Auk þess hafa fræðslufulltrúar stóru sveitarfélaganna tveggja komið að borðinu. Til viðbótar er leitað til ýmissa aðila ef á þarf að halda. Stýrihópurinn ákvað að halda BRAS ávallt að hausti og marka upphaf vetrarins með kraftmiklu starfi og leggja þannig línurnar fyrir skapandi og skemmtilegan vetur. Gott samstarf náðist strax við skólastjórnendur á Austurlandi en það skiptir höfuðmáli til að tryggja jafnan aðgang allra barna að verkefninu. Dagskrá BRAS er mjög fjölbreytt og byggir á öflugu samstarfi en í grófum dráttum er henni skipt í tvennt, annars vegar lokaða dagskrá sem fer fram í skólum fjórðungsins og hins vegar opna dagskrá þar sem allir eru velkomnir. Lögð er áhersla á að þema hvers árs tengist Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

BRAS hefur fengið veglega styrki frá Barnamenningarsjóði auk þess sem Sóknaráætlun Austurlands hefur stutt myndarlega við verkefnið. Þá hefur Alcoa Fjarðarál lagt verkefninu lið.

Upplýsingar