Fara í efni
TÓNLISTARHÁTÍÐ

Eistnaflug

Suðupottur tónlistar

Eistnaflug er tónlistarhátíð sem haldin er aðra helgina í júlí ár hvert í Neskaupstað. Hátíðin byrjaði sem lítil, eins dags hátíð árið 2005. Í gegnum árin hefur hún tekið miklum breytingum og er í dag vegleg, þriggja daga hátíð þar sem yfir sextíu hljómsveitir láta ljós sitt skína. Þó hátíðin sé hvað þekktust fyrir þungarokk og álíka tónlistarstefnur ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á Eistnaflugi. Þó að þungarokkið sé yfirleitt í forgrunni má inn á milli finna hljómsveitir sem margar hverjar eiga ekkert skilt með dauða- eða þungarokki. Til að mynda tróð Páll Óskar upp á einni hátíðinni við mikinn fögnuð hátíðagesta. Hljómsveitir sem troða upp á Eistnaflugi koma frá ólíkum löndum og er þetta frábær vettvangur til þess að sjá íslenskar sem og erlendar hljómsveitir troða upp í skemmtilegu umhverfi.
 

Upplýsingar

  • Neskaupstaður
  • Önnur helgin í Júlí
  • Vefsíða

 

 

Fávitar vinsamlegast afþakkaðir!

Slagorð hátíðarinnar; "Bannað að vera fáviti!" er löngu orðið ódauðlegt og rótgróið inn í hátíðargesti. Ef þú verður fyrir því óláni að verða á vegi fávita á Eistnaflugi, ertu vinsamlegast beðinn um að láta starfslið vita sem taka málið í sínar hendur. Aðstandendur hátíðarinnar leggja mikinn metnað í að stuðla að vingjarnlegu umhverfi, þar sem allir hugsa vel um hvorn annan og skemmti sér í sátt og samlyndi við fólk og náttúru. Heimamenn eru stoltir af hátíðinni og fara fögrum orðum um hana. Hingað til hefur ekki komið til átaka á milli heimamanna og hátíðagesta og vilja aðstandendur hátíðarinnar halda því þannig um ókomna framtíð. Þetta er ekki flókið, kíktu á Neskaupstað, skelltu þér á tónleika á heimsmælikvarða og EKKI VERA FÁVITI!