Opið hús verður hjá Móðir jörð í Vallanesi á Lífræna daginn, laugardaginn 20.september kl 10-15.
Hægt verður að gæða sér á dýrindis mat á veitingastaðnum úr heimaræktuðum lífrænum hráefnum, versla nýupptekið lífrænt grænmeti, korn og aðrar matvörur Móður Jarðar, fá sér göngutúr og taka þátt í uppskerustörfum.
Eymundur og Eygló vinna samkvæmt grunngildum lífrænnar framleiðslu í allri starfsemi Móður Jarðar. Skógrækt hefur lagt grunn að ræktuninni í Vallanesi en þar hefur verið plantað skógi og skjólbeltum sem umlykja alla akra og gefa skjól en auðga einnig jarðveginn. Skógurinn bindur mikið kolefni en leggur nú til náttúrulegan efnivið í hús og aðra umgjörð býlisins.
Móðir Jörð kyndir húsakost með viðarorku sem fæst með grisjunarvið úr skóginum og rafmagn er nú framleitt með sólarsellum.
Í nýopnuðu gistirými býlisins var gamall grunnur endurnýttur en við hönnun og frágang var unnið samkvæmt sömu markmiðum og gildir í matvælaframleiðslunni, þ.e. að efni væru upprunnin í náttúrunni og kom þar til nýting á timbri frá Vallanesi í innréttingar og klæðningar. Í allri meðhöndlun og frágangi var einungis stuðst við náttúruleg og/eða umhverfisvottuð efni.