Risavaxið íslenskt götuleikhús á hafnarbakkanum
Þann 15. júní birtast ótrúlegar kynjaverur í kringum höfnina í Neskaupstað þegar Listahátíð í Reykjavík, sirkuslistahópurinn Hringleikur og leikgervastúdíóið Pilkington Props taka höndum saman í nýju, íslensku götuleikhúsverki fyrir alla fjölskylduna.
Hvað er að gerast á hafnarbakkanum? Fréttir hafa borist af því að togari á veiðum rétt fyrir utan landgrunnið hafi fengið risavaxna og áður óþekkta lífveru í trollið. Skömmu síðar varð hann vélarvana og sendi út neyðarkall. Togarinn hefur nú verið dreginn í höfn. Á meðan beðið er eftir viðbrögðum vísindamanna við þessu furðufyrirbæri gefst almenningi einstakt tækifæri til þess að berja ferlíkið augum. Eru sæskrímsli úr þjóðsögum okkar komin fram í dagsljósið og hvaða skilaboð færa þau okkur?
Verkið var pantað sérstaklega af Listahátíð í Reykjavík.