Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Þjóðbúningakynning á Minjasafni Austurlands

5. október kl. 13:00-16:00
Heimilisiðnaðarfélag Íslands og Minjasafn Austurlands munu bjóða upp á skemmtilega og fræðandi þjóðbúningakynningu sunnudaginn 5. október frá kl. 13 til 16. Á viðburðinum gefst einstakt tækifæri til að kynnast íslenskum þjóðbúningum nánar, með sérstakri áherslu á upphlut og peysuföt frá 19. og 20. öld. Farið verður yfir sögu og þróun búninganna og hlutverk þeirra í menningararfi þjóðarinnar.
Kynntar verða ýmsar handverksaðferðir sem tengjast búningunum, einkum knipl og baldýringu, og fá gestir innsýn í þetta nákvæma og vandaða handverk. Einnig verður hægt að kynna sér námskeið sem Heimilisiðnaðarfélagið hyggst bjóða upp á á Austurlandi en áætlað er að námskeið í knipli og baldýringu hefjist vorið 2026 og námskeið í þjóðbúningasaum haustið sama ár.
Þá verður líka boðið upp á að koma með eldri þjóðbúninga í ástandsskoðun og fá mat á hvernig megi koma þeim aftur í notkun undir yfirskriftinni "Búningarnir í brúk".
Á staðnum verður farandsverslun Heimilisiðnaðarfélagsins, þar sem hægt verður að nálgast efni og vörur sem tengjast þjóðbúningum, s.s. band og prjóna í skotthúfur, bókina Faldar og skart, og ýmislegt fleira sem nýtist áhugasömum um búningasaum og handverk.
Munir tengdir þjóðbúningum úr safnkosti Minjasafnsins sýndir.
Við hvetjum öll sem hafa áhuga á textíl, handverki og menningararfi til að líta við sunnudaginn 5. október til að fræðast, spjalla og fá innblástur!

GPS punktar

N65° 15' 45.286" W14° 23' 46.915"

Fleiri viðburðir