Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Brugghús á Austurlandi

Bjóráhugi landans hefur heldur betur aukist á undanförnum árum með opnun handverksbrugghúsa um landið allt og hafa íbúar Austurlands og gestir svo sannarlega fengið að njóta þess. Hér fyrir austan eru starfandi þrjú handverksbrugghús sem leyfa hugmyndauðgi og forvitni að ráða för í framleiðslunni. Staðbundið hráefni, hvort sem það eru villtar austfirskar jurtir eða íslenskt wasabi – jú eða örnefni landshlutans, sem drykkirnir draga nafn sitt gjarnan af, gera þessa göróttu austfirsku drykki einstaka.
Askur Taproom, handverksbrugghús á Egilsstöðum. Ljósmynd: Jessica Auer
Askur Taproom, handverksbrugghús á Egilsstöðum. Ljósmynd: Jessica Auer

Austri brugghús, Egilsstöðum
Austri er lítið brugghús á Egilsstöðum sem nefnir bjórana sína eftir þekktum kennileitum á Austurlandi. Þannig heitir IPA-inn þeirra Steinketill og English bitterinn Slöttur og svo má áfram telja.

Bruggmeistararnir hjá Austra eru óhræddir við að nýta lókal hráefni í framleiðsluna sína. Það er vel þess virði að smakka Skessu, double IPA bjórinn þeirra sem er bragðbættur með wasabi sem ræktað er í nágrenninu. Þá framleiðir Austri tvær tegundir bjóra sérstaklega fyrir Vök Baths úr lífrænu byggi og sítrónumelissu frá Móður Jörð í Vallanesi.

Hvar er best að smakka bjóra frá Austra?
Best er auðvitað að líta við á bar- og pizzastaðnum Aski á Egilsstöðum sem er staðsettur í brugghúsinu. Þar ríkir afslöppuð stemmning og í hana sækir heimafólk gjarnan, en þar eru reglulegir viðburðir, barsvar og tónleikar. Á barnum er gott úrval af spennandi bjórtegundum og í aðliggjandi sal er pizzastaður þar sem í boði eru eldbakaðar pizzur sem er tilvalið að njóta með góðum drykk. Óhætt er að mæla með „Tólftommutöffaranum“ sem er með austfirsku heiðargæsahakki og Gelli ferskosti frá Fjóshorninu á Egilsstöðum – austfirsk bragðbomba!

Annar möguleiki er að dýfa sér í Vök Baths og prófa í leiðinni sérbrugguðu bjórana Vökva og Vöku sem Austri framleiðir fyrir baðstaðinn. Vök stendur við Urriðavatn, skammt utan við Fellabæ en vatnið sem notað er í bjórana kemur einmitt líka úr Urriðavatni!


Garpur og Mosi búa á Vínlandi. Ljósmynd: Fannar Magg, @fannarmagg

Skemmtilegir áfangastaðir í nágrenninu
Í og við Egilsstaði eru fjölmargir spennandi áfangastaðir sem eru þess virði að skoða nánar. Á vefnum Visit Egilsstaðir eru hægt að nálgast frekari upplýsingar um þá.

Fardagafoss: Merkt gönguleið er upp að þessum fallega fossi liggur rétt utan við Egilsstaði, á leiðinni til Seyðisfjarðar. Að fossinum er létt ganga sem tekur um 1,5 klst.

Vínland Guesthouse: Á Vínlandi, rétt norðan við Fellabæ búa hreindýrakálfarnir Mosi og Garpur sem ábúendur björguðu og ala nú upp.

Fljótsdalshringurinn: Tilvalin dagsferð er að aka í kringum Lagarfljót og stoppa á þeim fjölmörgu viðkomustöðum sem þar eru, við hinn háa Hengifoss, kíkja á hlaðborð á Skriðuklaustri eða njóta náttúrunnar í Hallormsstaðaskógi.

Beljandi brugghús á Breiðdalsvík. Ljósmynd: Páll Guðmundur Ásgeirsson.

Beljandi brugghús, Breiðdalsvík
Þrátt fyrir smæð sína búa Breiðdælingar, sem eru um 140 talsins, svo vel að eiga sitt eigið Beljandi brugghús sem heitir eftir fallegum fossi sem er staðsettur innarlega í Breiðdal og gaman er að heimsækja.

Brugghúsið stendur í reisulegu húsi í hjarta bæjarins og þar er að jafnaði hægt að smakka 5 tegundir bjóra úr framleiðslu Beljanda auk annarra íslenskra bjóra. Á barnum er gjarnan lifandi tónlist, gott andrúmsloft og góð blanda gesta og heimamanna að skemmta sér saman.

Hvar er best að smakka bjóra frá Beljanda?
Skemmtilegast er að koma við í höfuðstöðvunum á Breiðdalsvík og smakka bjórinn „beint af kúnni“ en það er einnig hægt að nálgast þá á völdum veitingastöðum og börum víða á Austurlandi. Nýlega opnaði svo útibú frá Beljanda í gamla Faktorshúsinu á Djúpavogi. Ekki gleyma að smakka harðfiskinn frá Goðaborg sem fer afar vel með breiðdælsku öli.

Fossinn Beljandi í Breiðdal. Ljósmynd: Páll Guðmundur Ásgeirsson.

Skemmtilegir áfangastaðir í nágrenninu
Það er nauðsynlegt að skoða Beljanda, fossinn sem brugghúsið dregur nafn sitt af. Á vefsíðu Breiðdalsvíkur eru gagnlegar upplýsingar um áhugaverða staði í nágrenninu sem er vert að heimsækja. Eigendur og starfsfólk Tinna Adventure eru liðleg við að skipuleggja ferðir og leiðsegja ferðalöngum um sitt heimasvæði.

Kaupfjelagíð: Það er dálítið eins og að ferðast aftur í tímann þegar gengið er inn í matvörubúðina á Breiðdalsvík en þar gildir einföld regla: „Ef það fæst ekki í kaupfélaginu, þá þarf það ekki“!

KHB brugghús á Borgarfirði eystra. Ljósmynd: Austen Sheen.

KHB brugghús, Borgarfirði eystra
Í enn þá minna þorpi enn þá austar, á Borgarfirði eystra, er nýjasta viðbótin í brugghúsaflóru Austurlands. Auk þess að brugga bjór, sérhæfir KHB brugghús sig í að eima gin og landa sem bruggaður er eftir háleynilegri borgfirskri uppskrift.

Bjórarnir er bruggaðir eftir tékkneskum hefðum og bera nöfn álfa og annarra kynjavera sem sagðar eru búa í firðinum. Pilsnerinn þeirra nefnist Borghildur eftir álfadrottningunni sem býr í Álfaborg og Naddi, rafgyllti lagerinn, er nefndur eftir óvættinum Nadda sem sagður er búa í Njarðvíkurskriðum og hrelldi förufólk fyrr á öldum.

Hvar er best að smakka KHB bjór og landa?
Við mælum með að heimsækja brugghúsið sjálft sem stendur í einu elsta húsi staðarins og eigendur hafa lagt mikinn metnað í að gera upp. Þar er hægt að ganga í gegnum brugghúsið, fá kynningu á starfseminni og bragða á allri framleiðslunni. Veitingastaðir og barir á Austurlandi bjóða einnig upp á vörur frá KHB, sem dæmi Skaftfell Bistro á Seyðisfirði og Nielsen Restaurant á Egilsstöðum.

Hafnarhólmi á Borgarfirði eystra er hinn fullkomni lundaskoðunarstaður. Ljósmynd: Gunnar Freyr Gunnarsson, @icelandic_explorer

Skemmtilegir áfangastaðir í nágrenninu
Borgarfjörður eystra er stundum nefndur höfuðstaður lundans á Íslandi. Í Hafnarhólma, rétt utan við þorpið, er eitt aðgengilegasta lundavarp landsins og einstakt að fylgjast með þessum skemmtilega fugli í náttúrulegu umhverfi sínu.

Göngu- og útivistarsvæðið Víknaslóðir teygir sig frá Borgarfirði og suður til Loðmundarfjarðar og þar ættu allir að geta fundið gönguleiðir við sitt hæfi. Fjörðurinn er einnig tilvalinn til kayaksiglinga og fjallahjólaiðkunar og eftir viðburðaríkan dag er tilvalið að láta þreytuna líða úr kroppnum í spa-inu á Blábjörgum.

Þrátt fyrir smæð þorpsins vantar ekkert upp á veitinga- og afþreyingarmöguleikana, þar sem tónleikar og aðrar uppákomur eru haldnar reglulega, sérstaklega yfir sumartímann. Er þar helst að nefna tónlistarhátíðina Bræðsluna og  Dyrfjallahlaupið sem eru haldin í júlí ár hvert.

Gott að vita
Nýlega samþykkti Alþingi breytingu á áfengislögum svo að frá 1. júlí 2022 mega íslensk handverksbrugghús selja kaupendum framleiðslu sína „beint frá býli“.

Flest brugghúsin á Austurlandi framleiða árstíðabjóra, til dæmis fyrir jólin, páskana og sumarið. Við hvetjum þig til að smakka þá alla!

Brugghúsabyltingin á sér ekki aðeins stað á Austurlandi – á vef Samtaka íslenskra handverksbrugghúsa má sjá kort með staðsetningu allra brugghúsa landsins. Er ekki tilvalið að skella sér í hringferð um landið í sumar og kynna sér innlenda framleiðslu?