Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinsælir áfangastaðir

Hengifoss
Hengifoss í Fljótsdal er einn af þekktari áfangastöðum Austurlands og einn hæsti foss landsins. Fossinn er um 128 metra hár og afar tignarlegur. Góð gönguleið er að fossinum og þjónustumiðstöð við bílastæði. Nágrenni Hengifoss er þekkt fyrir fjölda náttúrudjásna og sögustaða. Í grenndinni finnurðu fjölbreytta gistimöguleika, frábæra veitingastaði og afþreyingu. Hengifoss fellur í Hengifossgljúfur sem staðsett er í norðanverðum Fljótsdal, rétt innan við enda Lagarfljóts. Bergveggir gljúfursins sýna ólík jarðlög frá eldgosum á tertíertíma jarðsögunnar, blágrýti í bland við fagurrauð millilög sem gefa fossinum einstaka ásýnd og eru sívinsælt myndefni. Hengifossá á upptök sín í Hengifossárvatni á Fljótsdalsheiði og rennur í gegnum gljúfrið og ofan í Lagarfljót. Á leiðinni er annar magnaður foss sem heitir Litlanesfoss. Sá er krýndur stuðlabergi sem er með því hærra á landinu og einstaklega myndrænt.Hvernig er best að komast að Hengifossi?Frá Egilsstöðum er um tvær leiðir að velja. Hægt er að aka austan megin við Lagarfljótið í gegnum Hallormsstaðaskóg (vegur nr. 95 að Grímsá og þaðan yfir á veg nr. 931) eða norðan megin við Fljótið í gegnum Fellabæ (vegur nr. 931, malarvegur á stuttum kafla) en vegalengdin er svipuð, um 35 km. Það er góð hugmynd að skoða ferðaleiðina Fljótsdalshringinn, en þar er að finna tillögur að skemmtilegum viðkomustöðum í kringum Hengifoss og Lagarfljót.Gönguleiðin upp að HengifossiFrá bílastæðinu við Hengifoss liggur þægileg og vel merkt gönguleið upp að fossinum báðum megin ár. Það tekur um 40-60 mínútur að ganga alla leið upp en leiðin er í heildina um 5 km. Fyrsti áfanginn frá bílastæði og þjónustumiðstöð er upp tröppur en síðan tekur við fremur álíðandi malarstígur. Þegar þú ert u.þ.b. hálfnaður upp, um 1,2 km frá bílastæðinu sérðu Litlanesfoss með sína fallegu stuðlabergsumgjörð. Þar liggja slóðir niður í gilið neðan við fossinn en þeir eru brattir og í lausri möl svo að það er vissara að fara varlega ef þú ætlar þér niður í gilið. Alls staðar á gönguleiðinni er rétt að gæta varúðar við gilbarminn þar sem er hætta á að falla fram af og sérstaklega ef börn eru með í för. Tvær göngubrýr eru á ánni. Önnur er efst áður en gengið er inn í gljúfrið með fossinum. Hin er neðst við bílastæðið. Upplýsingaskilti og bekkir eru á nokkrum stöðum á gönguleiðinni. Hægt er að ganga inn í gljúfrið sjálft og nær alveg að fossinum eftir uppbyggðum göngustíg. En mikilvægt er að fara varlega þar sem hætta er á grjóthruni. Þjónusta við HengifossGönguleiðin að Hengifossi er opin allt árið. Þjónustumiðstöð er við bílastæði og þar er hægt að fá upplýsingar um svæðið frá landvörðum. Yfir vetrartímann er mikilvægt að göngufólk búi sig vel til fararinnar og skoði veðurspá og aðstæður vel áður en lagt er af stað. Nauðsynlegt getur reynst að vera með göngubrodda og ísaxir. Áhugaverðir staðir í nágrenninuÍ Fljótsdal og í nágrenni hans er ógrynni skemmtilegra viðkomustaða sem vert er að heimsækja fyrir eða eftir göngu upp að Hengifossi. Það er til dæmis tilvalið að líta við í Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem er m.a. hægt að fræðast um gróðurfar og dýralíf svæðisins. Gestastofan er staðsett á Skriðuklaustri, þar sem hægt er að skoða hið sérstæða heimili rithöfundarins Gunnars Gunnarssonar og rústir miðaldaklausturs. Óbyggðasetur Íslands er innst í Fljótsdal og í Hallormsstaðaskógi er fjöldi göngu- og hjólaleiða og aðrir afþreyingarmöguleikar við allra hæfi auk ljómandi góðs tjaldsvæðis.Yfir sumartímann er hægt að aka ferðaleiðina Um öræfi og dali sem liggur upp á hálendi Austurlands og koma við í Laugarfelli, Kárahnjúkum og Stuðlagili en vegurinn er aðeins fær vel búnum fjórhjóladrifsbílum. 
Skriðuklaustur, menningarsetur og sögustaður
Skriðuklaustur er merkur sögustaður í Fljótsdal, ekki síst þekktur fyrir stórhýsið sem rithöfundurinn Gunnar Gunnarsson (1889-1975) byggði þar árið 1939. Frá aldamótum hefur Gunnarshús verið opið sem menningar- og fræðasetur með fjölbreyttum viðburðum og sýningum. Þar hægt að skoða safn um skáldið og njóta persónulegrar leiðsagnar um ævi Gunnars og húsið sjálft sem var gefið íslensku þjóðinni árið 1948. Húsið er friðað en það er teiknað af þýska arkitektinum Fritz Höger. Skriðuklaustur er einnig þekkt fyrir klausturminjar en á 16. öld stóð þar munkaklaustur af Ágústínusarreglu. Rústir þess voru grafnar upp á árunum 2000-2012. MInjasvæðið er aðgengilegt allt árið, rétt neðan við Gunnarshús. Hægt er að fá leiðsögn um minjasvæðið en sýning um sögu klaustursins er í húsi skáldsins. Þar er einnig veitingastaðurinn Klausturkaffi.  Opnunartími Apríl og maí, kl 11-17Júní - ágúst, kl. 10-17September - 13. október, kl. 11-17    
Snæfell
Snæfell (1833 m) er hæsta fjall Íslands, utan jökla, og er fjallið sjálft og svæðið umhverfis það innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. Sumar rannsóknir benda til þess að fjallið kunni enn að vera virk eldstöð, aðrar telja svo ekki vera. Snæfell er fremur auðvelt uppgöngu, en þó ekki fyrir óvana. Þá er lagt af stað skammt sunnan við Snæfellsskála sem er undir vesturhlíð Snæfells, eða frá Sandfelli að norðanverðu. Að fjallinu liggur sumarvegur sem fær er fjórhjóladrifnum bílum og dugir dagurinn til að klífa það, sé lagt upp frá Egilsstöðum snemma að morgni. Gott er að reikna með um 7-9 tímum í göngu.
Vatnajökulsþjóðgarður
Vatnajökulsþjóðgarður er 14.141 ferkílómetrar að flatarmáli, eða um 13,7% af Íslandi. Ríflega helmingur þjóðgarðsins er jökull og þar er að finna einstök dæmi um samspil elds og íss, landmótunar jökla og vatnsfalla. Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður 9. júní 2008 en markmiðið með stofnun og rekstri þjóðgarðsins er að vernda Vatnajökul og landsvæði honum tengd. Innan austursvæðisins er að finna náttúruperlur eins og Snæfell, Eyjabakka, Lónsöræfi, Kverkfjöll, Hvannalindir, Hveragil og margt, margt fleira.
Strútsfoss
Gengið er frá skilti rétt hjá Sturluflöt, innsta bæ í Suðurdal, austan Kelduár. Gengið er upp með Fellsá austanvert í Villingadal. Fossinn sést ekki fyrr en komið er nokkuð langt inn dalinn. Þá er hægt að ganga upp með Strútsgili þar sem komið er að því. Þar uppi er hólkurinn með gestabók og stimpli. Ekki er hægt að komast alla leið að fossinum nema fara niður í gilið og vaða ána nokkrum sinnum sem getur verið varhugavert. Strútsfoss er á náttúruminjaskrá. Strútsfoss er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs GPS : N64°54.194-W15°02.314
Laugarfell
Laugarfell er staðsett á austanverðu hálendi Íslands, rétt norðan við fjallið Snæfell. Kárahnjúkavegur liggur nánast að Laugarfelli en afleggjarinn frá veginum að skálanum er tveir kílómetrar og er það eini staðurinn sem ekki er lagður bundnu slitlagi að skálanum. Að sumri til er vel fært að Laugarfelli fyrir allar tegundir ökutækja. Laugarfell er með gistirými fyrir 28 manneskjur. Tvær heitar náttúrulegar laugar eru við Laugarfell og eru þær samkvæmt gömlum heimildum þekktar fyrir lækningamátt sinn. Margar skemmtilegar gönguleiðir eru í nágrenni Laugarfells og fjöldi fallegra fossa er í þægilegri göngufjarlægð frá Laugarfelli. Miklar líkur eru á að sjá hreindýr á vappi í hágrenni Laugarfells. Laugarfellsskáli er opinn frá 1. júní - 30. september.
Fossahringur
Fossahringur er 8 kílómetra gönguhringur sem byrjar og endar í Laugarfelli, það tekur um 2 -3 klukkutíma að ganga þessa leið. Á gönguleiðinni má sjá 5 fossa og eitt gljúfur. Sumir þessara fossa eru meðal vatnsmestu fossa á Austurlandi og þekktastir þeirra eru Kirkjufoss og Faxi en þeir eru í Jökulsá í Fljótsdal sem rennur út í Lagarfljót.  Gangan er stikuð og nýtur sívaxandi vinsælda meðal göngufólks. Tilvalið er í lok göngu að baða sig í náttúrulaugunum í Laugarfelli.
Aðalból
Aðalból er innsti bær í Hrafnkelsdal í Jökuldalshreppi á Fljótsdalshéraði. Bærinn er þekktur í Hrafnkels sögu Freysgoða sem gerist á Austurlandi og greinir frá átökum höfðingja og bænda á 10. öld. Aðalsögupersónan, goðorðsmaðurinn Hrafnkell Freysgoði, bjó á Aðalbóli.   Við Aðalból má enn sjá haug Hrafnkels en auk þessa hafa ýmsir fornir gripir fundist í grenndinni sem þykja styðja við sannleiksgildi Hrafnkelssögu. 
Lagarfljót og Lögurinn
Lagarfljót er stærsta vatnsfall Austurlands og eitt af mestu vatnsföllum Íslands. Vatnasvið þess nær frá Eyjabakkajökli til Héraðsflóa, eða um 140 km leið. Þar sem það rennur um Fljótsdalshérað er það bæði fljót og stöðuvötn í senn. Stærsta stöðuvatnið, gjarnan kallað Lögurinn, nær frá Fljótsbotninum í Fljótsdal og út undir Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Það er um 53 ferkílómetrar að stærð og er meðaldýpi um 51 m en mesta dýpi 112 m. Sagt er að þar séu heimkynni Lagarfljótsormsins. Samkvæmt gamalli þjóðtrú er talið að skrímsli hafist við í Lagarfljóti, Lagarfljótsormurinn og er fyrsta skjalfesta frásögnin af orminum frá 1345. Stóð mönnum mikill stuggur af ormi þessum fyrr á öldum og þótti það boða ill tíðindi ef hann sást skjóta kryppum upp úr vatninu. Hin síðari ár hefur minna borið á honum en þó eru þess dæmi að nýlega hafi náðst sæmilega skýrar ljósmyndir af honum. Áningarstaðir eru víða kringum fljótið og þar er kjörið að staldra við og líta eftir orminum.
Lagarfljótsormurinn
Lagarfljótið er eitt af mestu vatnsföllum Íslands. Vatnasvið þess nær frá Vatnajökli til Héraðsflóa. Þar sem það rennur um Fljótsdalshérað er það bæði fljót og stöðuvötn í senn. Stærsta stöðuvatnið nær úr Fljótsbotninum út undir Lagarfljótsbrú við Egilsstaði. Er það um 53 km2 að stærð og meðaldýpi er 51 m, en mesta dýpi 112 m. Í þessum hluta Fljótsins eru heimkynni Lagarfljótsormsins. Fyrsta skjalfesta frásögnin af orminum er frá 1345. Þá sáust ýmist stórar eyjar eða upp skaut lykkjum með sundum á milli og virtist mörg hundruð faðma langt. Vissu menn ekki hvaða undur þetta voru því hvorki sást haus né sporður. Árið 1589 greinir frá því að ormurinn hafi skotið kryppunni upp úr vatninu. Var kryppan svo mikil að hraðskeitt skip með þöndum seglum gat siglt undir hana. Þegar skrímsli þetta svo slengdi sér aftur niður í Fljótið varð af svo mikill gnýr og landskjálfti að allt umhverfið nötraði. Næstu aldir voru umbrot ormsins tíð. Þótti það jafnan vita á illt ef itl hans sást. Á 20. öld sást til ormsins í ýmsum myndum vítt og breitt meðfram Fljótinu og lýsingar sjónarvotta vitnuðu um ávalar kryppur sem risu upp úr vatnsyfirborðinu og færðust óháð straumi og vindum. Einnig sást til ormsins á dýptarmæli þar sem hann kúrði langt undir vatnsyfirborðinu. Í febrúar 2012 náði bóndinn á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal myndum af torkennilegu fyrirbæri sem virtist synda upp Jökulsá í Fljótsdal sem fellur í Lagarfljót. Myndband þetta dreifðist hratt um heimsbyggðina á öldum internetsins og milljónir manna skoðuðu það. Áningarstaðir með upplýsingaskiltum um orminn eru á nokkrum stöðum við Lagarfljót. Kjörið er að staldra við á þeim og vita hvort ormurinn lætur ekki á sér kræla.
Valþjófsstaður
Valþjófsstaður er jörð innarlega í Fljótsdal. Hún er fornt höfuðból og þar hefur verið kirkja allt frá þrettándu öld. Valþjófsstaður var eitt af höfuðbólum Svínfellinga, en nokkrir meðlimir þeirrar fjölskyldu voru fyrirferðamiklir í átökum Sturlungaaldar.  Krikjan sem nú stendur á Valþjófsstað var vígð árið 1966. Hurðin í innri dyrum kirkjunnar er eftirmynd af hinni frægu Valþjófsstaðahurð sem Halldór Sigurðsson á Miðhúsum skar út á 13. öld. Gamla hurðin á upprunalega að hafa verið skálahurð á höfðingjasetri en var síðar nýtt sem innri hurð í stafkirkju sem stóð á Valþjófsstað í margar aldir, langt fram yfir siðaskipti. Upprunalega hurðin er nú í vörslu Þjóðminjasafnsins.  
Vallanes
Vallanes er kirkjustaður frá fornu fari og margir þjóðþekktir einstaklingar hafa gengið þar um götu.  Þar er stunduð lífræn ræktun undir vörumerkinu "Móðir Jörð". Grænmeti og korn er ræktað og úr því unnin matvæli og hvers kyns olíur.  Í jaðri jarðarinnar eru "Iðavellir" sem státa af góðri aðstöðu til hestamennsku og litlu félagsheimili samnefndu. 
Hallormsstaður
Hallormsstaður er lítill þéttbýliskjarni í miðjum Hallormsstaðaskógi, elsta þjóðskógi landsins. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði með tjaldsvæðum, göngu- og hjólaleiðum ásamt trjásafni og folfvelli. Á Hallormsstað er líka stærsta hótel Austurlands með tveimur veitingastöðum. Ísbúð með helstu nauðsynjavöru er opin yfir sumarið hjá bensínstöðinni við þjóðveginn.Ofanvert Hérað er þekkt fyrir fjölda náttúrudjásna og sögustaða. Á Hallormsstað og í grenndinni finnurðu fjölbreytta gistimöguleika, frábæra veitingastaði og afþreyingu. Upplýsingar um þetta allt er að finna hér á síðunni.Frá Egilsstöðum er hægt að velja um tvær leiðir í Hallormsstað og sumir kjósa að keyra svokallaðan Lagarfljótshring í leiðinni. Hægt er að fara upp austan við Lagarfljót sem er styttri leiðin, 27 km. Þá er ekið fyrst eftir vegi nr. 95 og í stað þess að fara upp Skriðdal er haldið til hægri við Grímsá eftir vegi nr. 931. Hin leiðin liggur vestan við Lagarfljót (um Fell) sem er 40 km. Ef þú velur að fara upp vestanmegin beygirðu út af hringveginum á hæðinni ofan við Lagarfljótsbrú í Fellabæ. Þar er vegur nr. 931 merktur og skilti sem benda á Fljótsdal og Skriðuklaustur. Þegar þú kemur inn að Fljótsbotni beygirðu til vinstri yfir stóra brú til að fara stystu leið yfir í Hallormsstað. Einnig er hægt að keyra áfram inn dalinn og fara yfir árnar þar. 
Hallormsstaðaskógur
Hallormsstaðaskógur var friðaður árið 1905 og varð þar með fyrsti þjóðskógur Íslands. Nú þekur birkiskógur um 350 ha lands innan sömu girðingar auk þess sem aðrar trjátegundir hafa verið gróðursettar í 200 ha. Stór svæði hafa bæst við Hallormsstaðaskóg á seinni árum; Hafursá/Mjóanes til norðurs, þar sem gróðursettir hafa verið miklir lerkiskógar og Ásar/Buðlungavellir til suðurs, þar sem sjálfsgræðsla birkis er í algleymingi. Alls eru nú í skóginum um 85 trjátegundir frá um 600 stöðum víðs vegar um heiminn og skógurinn þekur um 740 ha lands.Land og skógur hefur umsjón með skóglendi víða um land fyrir hönd þjóðarinnar. Þeir skógar eru kallaðir þjóðskógar. Skógarnir eru opnir öllum, allan ársins hring. Í marga er auðvelt að komast eins og Hallormsstaðaskóg og ýmis konar aðstaða fyrir hendi. Annars staðar þarf að hossast í öflugum jeppa eða ganga upp bratta hlíð í ósnortinn skóg.Í Hallormsstaðaskógi eru meira en tíu mismunandi merktar gönguleiðir um fjölbreytt landslag skógarins og nokkrar hjólaleiðir. Allar leiðirnar eru litamerktar og gönguleiðakort er aðgengilegt á þjónustustöðum á svæðinu og einnig í kössum við upphaf margra gönguleiða. Hér er einnig hægt að sækja gönguleiðakortin á rafrænu formi - gönguleiðir.Tvö tjaldsvæði eru í Hallormsstaðaskógi með mismunandi þjónustustigi, Atlavík og Höfðavík. Tjaldverðir fara um svæðið og innheimta gjöld fyrir gistingu og annað. Nánari upplýsingar um verð og þjónustu á tjalda.is og á Facebook.Á gönguleiðinni milli tjaldsvæðanna er hægt að fara í fjársjóðsleit og taka þátt í Skógarævintýri sem er leikur spilaður með Turfhunt-appinu. Víða um skóginn eru áningarstaðir og góð grillaðstaða er í Stekkjarvík og leiktæki fyrir börn. Trjásafnið á Hallormsstað er einstakt á norðurhveli jarðar. 
Kárahnjúkar
Kárahjúkar eru móbergshnjúkar austan Jökulsár á Brú gegnt Sauðárdal.  Hærri hnjúkurinn er 835 metrar. Jökulsá fellur að Kárahnjúkum í miklu gljúfri, Hafrahvammagljúfri sem er eitt hið dýpsta og hrikalegasta á landinu. Megingljúfrið er um 5 km. langt en allt er gilið frá Desjará að Tröllagili um 10 km. Við Kárahnjúka hefur verið reist mikil virkjun sem sér álverinu á Reyðarfirði fyrir orku. Kárahjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Íslandssögunnar og um leið stærsta raforkuframleiðsla landsins. Ferð inn í Kárahnjúka er tilvalin bílferð fyrir fjölskylduna. Malbikaður vegur liggur úr Fljótsdal alveg inn að Kárahnjúkastíflu. Hægt er að fara hring um hálendið og fara út Jökuldal eða Jökuldalsheiði til baka en það eru ekki allir hlutar þeirra leiða malbikaðir. Kárahnjúkasvæðið er kjörið til útivistar. Það er skemmtilegt að skoða Kárahnjúkastíflu sjálfa og Hálslónið. Þegar Hálslón fyllist og fer á yfirfall myndast fossinn Hverfandi við vestari enda stíflunnar og þar steypist vatnið um 100 metra niður í Hafrahvammahljúfur. Fossinn er svakalega aflmikill og getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss. Einnig eru skemmtilegar gönguleiðir á svæðinu, til dæmis er skemmtileg gönguleið með fram Hafrahvammagljúfri og í Magnahelli en til þess að komast að upphafsstað merktu gönguleiðarinnar þarf fjórhjóladrifinn bíl.
Þjófadalur
Þjófadalur er fallegur dalur sem liggur sunnan við Snæfell. Til að komast þangað þarf að fara gangandi og er þá gengið með Þjófadalsánni um Þjófadali á milli Snæfells og Þjófahnjúka. Dalurinn er fallegur og aðgengi einungis gott er líða fer á sumar. Ef gengið er austur í dalinn þá er mjög gott útsýni yfir Eyjabakka og Þóriseyjar.
Hrafnkelsstaðir
Hrafnkelsstaðir er býli í Fljótsdal. Þar bjó fyrrum Hrafnkell Freysgoði Hallfreðarson eftir að hann hafði verið hrakinn frá Aðalbóli í Hrafnkelsdal, að því er segir í sögu hans. Í landi Hrafnkelsstaða er Ranaskógur . Er hann yst á svonefndum Rana, en svo nefnist endi Víðivallaháls. Hálsinn mun fyrrum hafa verið vaxinn skógi.
Hrafnkels saga Freysgoða
Hrafnkels saga Freysgoða gerist á Austurlandi og greinir frá átökum höfðingja á 10. öld. Hrafnkelsstaðir í Fljótsdal heita svo vegna þess að þar bjó Hrafnkell um tíma. Skammt frá bænum er söguskilti sem er hluti söguslóar sem hægt er að fylgja yfir Fljótsdalsheiði og niður í Hrafnkelsdal.
Ranaskógur
Ranaskógur er einn fegursti birkiskógur landsins að margra mati með óvenju sléttum skógarbotni. Hann vex ávestari gljúfurbarmi Gilsár á gömlum hreppa- og sýslumörkum fyrir botni Lagarfljóts þar sem Hrafnkelsstaðaháls endar í svonefndum Rana. Í skóginum er víða að finna hvítstofna, beinvaxin birkitré og skógarbotn þakinn blágresi og hrútaberjalyngi. Þá er töluvert af háum reyniviði innan um birkið og hvergi á landinu jafnmörg stór reyniviðartré á jafnlitlu svæði.  Mitt í skóginum við svonefndan Kiðuhól er lítill reitur með barrtrjám sem Metúsalem J. Kerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum, gróðursetti á árunum 1955 - 1961 til minningar um Pál bróður sinn. Af þeim 23 trjátegundum sem Metúsalem gróðursetti lifir 21 og eru hæstu trén að nálgast 20 metrana. Ranaskógur hefur haldist allt frá landnámi og er hans getið í heimildum frá 15. öld. Skógurinn á þessum slóðum kemur við sögu í Hrafnkels sögu Freysgoða en þar segir frá því að Hrafnkell hafi fellt mörkina á Lokhillu þegar hann flutti í Fljótsdal og byggt þar sem síðar heita Hrafnkelsstaðir. Í kjölfar deilna um skógarítök milli bænda á Hrafnkelsstöðum og Víðivöllum á 19. öld var neðri hluti skógarins að mestu felldur en hann teygði sig þá suður undir Kirkjuhamar. Af þeim hluta skógarins standa nú aðeins örfá birkitré á svonefndum Skógarbala. Fram undir miðja 20. öld var skógurinn nytjaður á hefðbundinn hátt til eldiviðar en 1951 keypti Eikríkur M. Kjerúlf skóginn og lagði hann undir nýbýlið Vallholt.  Ranaskógur er á náttúruminjaskrá ásamt Gilsárgljúfri og Gilsáreyri.
Sanddalur
Sanddalur er fallegur dalur sem liggur suður af Snæfelli. Dalurinn er hrjóstrugur og ægifagur með grænum mosabreiðum og sérkennilegum bergmyndunum sem sveipa dalinn ævintýraljóma. Til að fara í Sanddal þarf fjórhjóladrifinn bíl en einnig er hægt að ganga þangað frá Kárahnjúkavegi. 
Stekkjarvík
Stekkjarvík er útivistarsvæði fyrir fjölskylduna í um 4 km fjarlægð frá þéttbýlinu á Hallormsstað, skammt frá Hafursá. Þar eru leiktæki úr staðbundnum við, kolagrill og borð í fallegum rjóðrum.
Múlakollur
Þingmúli skiptir Skriðdal í Norðurdal og Suðurdal en hringvegurinn liggur einmitt um Suðurdal til Breiðdals. Bærinn Þingmúli var helsti þingstaður Austfirðinga í nokkrar aldir og eru Múlasýslurnar nefndar eftir honum. Fremsti hluti Þingmúla er Múlakollur. Gengið frá skilti beint upp hrygginn, um það bil 400 metra hækkun. Síðan er gaman að ganga inn fjallið og niður austan megin nokkuð innan við Múlastekk. Á þeirri leið má sjá fallegt kubbaberg. Einnig er hægt að ganga inn með fjallinu upp frá Múlastekk. Þingmúli er hluti af Perlum Fljótsdalshéraðs. GPS : N65°01.624-W14°38.049   Powered by Wikiloc
Hrakstrandarkofi
Hrakstrandarkofi er nýuppgerður gangnamannakofi á gönguleiðinni á milli Norður- og Suðurdals. Hægt er að ganga inn Norðurdal fram hjá Glúmsstaðaseli og inn að Hrakströnd og svo daginn eftir yfir í Þorgerðarstaðadal og fram Suðurdal. Bókanir í kofann fara fram hjá Óbyggðarsetri Íslands.