Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Vinsælir áfangastaðir

Stórurð
Stórurð er ein mesta náttúruperla Íslands og nýtur vaxandi vinsælda hjá göngufólki sem leggur á sig drjúga göngu til að skoða Stórurð og upplifa hrikaleik Dyrfjalla í návígi. Stórurð er mynduð úr risavöxnum móbergs- og þursabergsbjörgum sem fallið hafa ofan á skálarjökul sem legið hefur við Dyrfjöll og má enn sjá leifar af honum undir hömrum fjallanna. Í urðinni er einstök náttúra; sléttir grasbalar, hrikalegir grjótruðningar, steinblokkir, sumar tugir metra á hæð, blágrænar tjarnir og sérstakur gróður. Saman mynda þessi náttúrufyrirbrigði ævintýralega veröld sem lætur engan ósnortinn. Fimm merktar gönguleiðir liggja að Stórurð. Sú mest gengna er frá Vatnsskarði en einnig liggur leið frá Héraði, úr Njarðvík og tvær frá Borgarfirði eystri. Ekki er ráðlegt að ganga í Stórurð án leiðsagnar staðkunnugra fyrr en orðið er snjólétt. Gera þarf ráð fyrir í það minnsta sex klukkustundum í ferðina.   Powered by Wikiloc
Álfaborg
Rétt hjá þorpinu Bakkagerði á Borgarfirði eystri er tignarleg klettaborg sem kölluð er Álfaborg. Álfadrottning Íslands er sögð búa í Álfaborginni en margar sögur um álfa, og samskipti álfa við heimamenn, eru til. Margir staðir eru tengdir þessum sögum um samskipti álfa og manna, t.d. er Kirkjusteinn á Krækjudal inn af Borgarfirði kirkja borgfirskra álfa.   Þægileg gönguleið liggur upp á Álfaborgina en þar er hringsjá sem útskýrir allan fjallahringinn umhverfis Borgarfjörð. Auk þess er tjaldsvæðið á Borgarfirði við Álfaborgina.  
Bakkagerðiskirkja
Skammt frá Álfaborginni frægu í útjaðri þorpsins á Borgarfirði eystri stendur Bakkagerðiskirkja sem vígð var árið 1901. Altaristafla kirkjunar er verk hins kunna listmálara Jóhannesar S. Kjarvals sem ólst upp í Geitavík á Borgarfirði. Altaristaflan, sem máluð var árið 1914, var gjöf kvenfélagsins á staðnum til kirkjunnar og er fjallræða Krists viðfangsefni hennar. Umhverfið er þó borgfirskt, Dyrfjöllin í baksýn og kunn andlit heimamanna þess tíma sjást í áheyrendahópnum. Altarismyndin er ein af þekktustu verkum Kjarvals og dregur að fjölda ferðamanna á hverju ári.  
Dyrfjöll
Dyrfjöll eru ein af perlum Austurlands. Fjöllin eru þekkt fyrir stórt skarð í miðju fjallgarðsins sem eru eins og risastórar dyr og draga fjöllin nafn sitt af þessu skarði. Það er erfið ganga upp á topp Dyrfjalla og ættu aðeins vanir göngumenn að leggja í ferðu upp á toppinn. Hægt er að fá leiðsagnar vanra fjallaleiðsögumanna upp á topp ef þess sé óskað. Útsýnið af toppnum er stórkostlegt og sést meðal annars mjög vel yfir hina fallegu náttúruperlu Stórurð þaðan.   Powered by Wikiloc
Hafnarhólmi
Í Hafnarhólma, sem stendur við bátahöfnina á Borgarfirði eystri , er afar gott fuglaskoðunarsvæði en hvergi á Íslandi er jafn auðvelt að komast í návígi við lunda. Lundinn est upp í hólmann um miðjan apríl ár hvert og elur þar unga sína fram í ágúst, þegar hann heldur út á haf aftur fyrir veturinn. Í Hafnarhólma er einnig allstórt æðarvarp auk þess sem þar má sjá ritu og fýl og aðrar fuglategundir sem halda til í og við hólmann. Borgfirðingar hafa undanfarin ár byggt upp góða aðstöðu fyrir fuglaáhuga- og útivistarfólk í kringum bátahöfnina. Fróðleikur um höfnina, fugla og náttúrufar eru til reiðu fyrir gesti og upp í hólmann liggja góðir göngupallar. Árið 2020 opnaði Hafnarhúsið þar sem meðal annars eru haldnar listasýningar og gestir geta sest inn á kaffihús og notið þess að fylgjast með hafnarstarfseminni og lífinu í Hafnarhólma.
Hafnarhús
Við Hafnarhólma á Borgarfirði Eystri stendur glæsilegt aðstöðuhús sem tekið var í notkun árið 2020. Þar hafði lengi vantað aðstöðu fyrir sjómenn og starfsmenn Borgarfjarðarhafnar en einnig fyrir þann gífurlega fjölda ferðamanna sem leggur leið sína út í Hafnarhólma til að skoða lundabyggðina. Borgarfjarðarhreppur ákvað því að efla til hönnunarsamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um aðstöðubyggingu fyrir svæðið. Tillagan sem bar sigur úr bítum kom frá Anderson & Sigurdsson arkitektum. Húsið er er látlaust og fellur vel að umherfinu en hefur samt aðdráttarafl í sjálfu sér og fangar athygli ferðamanna.
Lindarbakki
Lindarbakki er lítið fallegt torfhús í miðju Bakkagerði á Borgarfirði eystri. Húsið er vinsælt myndefni ferðamanna og ómissandi viðkomustaður þegar fjörðurinn er heimsóttur. Lindarbakki er upphaflega byggður árið 1899 en hlutar hans hafa verið endurbyggðir.  Árið 1979 festi Elísabet Sveinsdóttir frá Geitavík á Borgarfirði, jafnan kölluð Stella, kaup á Lindarbakka ásamt eiginmanni sínum Skúla Ingvarssyni. Þau hjónin gerðu húsið upp og notuðu sem sumarhús og allt fram til ársins 2020 eyddi Stella sumrum sínum á Lindarbakka, þá orðin níræð.  
Víknaslóðir
Víknaslóðir er gönguleiðakerfi sem teygir sig yfir landssvæðið milli Borgarfjarðar eystri og Loðmundarfjarðar. Svæðið er eitt best skipulagða göngusvæði á Íslandi í dag, vel stikaðar og merktar leiðir. Ferðamálahópur Borgarfjarðar gefur í samvinnu við hagsmunaaðila á svæðinu út öflugt gönguleiðakort sem fæst hjá öllum ferðaþjónustuaðilum á Borgarfirði eystri, í Upplýsingamiðstöðinni á Egilsstöðum og hjá Ferðafélagi Íslands í Mörkinni. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs rekur í samvinnu við Ferðamálahóp Borgarfjarðar þrjá vel búna gönguskála á Víknaslóðum, í Breiðuvík, Húsavík og í Loðmundarfirði. Ferðaþjónustuaðilar á Borgarfirði veita göngufólki fjölbreytta þjónustu, svo sem við ferðaskipulag, gistingu, leiðsögn, flutninga (trúss) og matsölu. Gönguleiðakerfið er fjölbreytt með styttri og lengri gönguleiðum svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.    
Breiðavík
Brúnavík
Brúnavík er næsta vík sunnan Borgarfjarðar eystri og er hluti gönguleiðakerfisins um Víknaslóðir. Gönguleiðin er alls um 12 km, þægileg og fögur dagleið. Gengið er frá bílastæði við Hafnarhólma og um Brúnavíkurskarð (360 m) austan Geitfells. Nokkuð bratt er niður að bæjarstæðinu og þarf að vaða eða stikla Víkurána ef farið er út á sandinn. Áin er oftast greiðfær niðri við sjó og vel þess virði að ganga niður í fjöru því hún er einstaklega litfögur. Til baka er gengið inn víkina, hvoru megin ár sem óskað er, inn að Brotagili en þar skammt frá er göngubrú yfir ána. Frá Brotagili er genginn vegslóði yfir Hofstrandarskarð (320 m). Gangan tekur um 5-6 klst. eftir vörðuðum leiðum og vegslóða.
Þjónustuhús við Stórurð
Þegar ráðist var í uppbyggingu á göngusvæði Stórurðar og Dyrfjalla var ákveðið að byggja um leið þjónustuhús fyrir svæðið. Þessi uppbygging svæðisins styrkir sjálfbæra ferðamennsku í formi gönguferða á ferðamannasvæði sem þolir meiri nýtingu, eykur öryggi ferðamanna, eflir lýðheilsu, stuðlar að náttúruvernd og eykur stolt heimamanna. Húsið er hannað af arkitektinum Erik Rönning Andersen. Hönnunin er frumleg og stílhrein, og greinilega innblásin af Dyrfjöllunum. Áhersla var lögð á að byggingin væri umhverfisvæn og þyrfti lítið viðhald og endurspeglast þetta í einföldu efnisvali. Byggingin er hógvær og einföld en þjónar hlutverki sínu vel í mikilli sátt við umhverfið. Húsið er samsett úr tveimur aðskildum smáhýsum; annað hýsir salerni en hitt upplýsinga- og útsýnisrými. 
Njarðvíkurskriður og Naddi
Áður en vegur var lagður milli Njarðvíkur og Borgarfjarðar eystra árið 1949, var einungis hægt að fara þar á milli fótgangandi eða á hestbaki. Njarðvíkurskriður voru áður fyrr afar erfiðar yfirferðar, einkum á vetrum vegna snjóflóðahættu og hættu á aurskriðum í stórrigningum. Við slíkar aðstæður gátu vegfarendur verið þar í lífshættu. Í skriðunum eru þverhníptir klettar með sjónum en ofan við þá brattar lausaskriður, sundurgrafnar af giljum. Akfær bílvegur frá Egilsstöðum um Vantsskarð til Borgarfjarðar var opnaður 1954. Var vegurinn þá færður talsvert ofar í skriðurnar en gamli reiðvegurinn. Bundið slitlag var svo lagt á Njarðvíkurskriður árið 2019. Þjóðsagan um óvættinn Nadda er til í fleiri en einni útgáfu. Sagan segir að á dögum niðja Björns skafins hafi að mestu lagst af þjóðleiðin um Njarðvíkurskriður vegna óvættar. Var hann að hálfu í mannslíki en að hálfu í líki dýrs og hélt sig í gili sem síðan er kallað Naddagil. Sat óvættur þessi þar fyrir mönnum, einkum er dimma tók, réðist á þá og drap marga. Að endingu tókst bónda nokkrum að fyrirkoma Nadda og hindra honum í sjó fram þar sem Krassjaðar heitir. Þar í skriðunum stendur nú kross með latneskri áletrun og ártalinu 1306 sem hefur lengi verið fólki ráðgáta. Hefur margt verið skrifað um krossinn og ýmsar skoðanir komið fram um aldur hans og tilefni þess að hann var settur upp og alltaf endurnýjaður. Krossinn hefur þó alltaf verið tengdur Nadda og jafnvel stundum nefndur Naddakross, samanber þessari gömlu vísu: Nú er fallinn Naddakross. Nú er fátt er styður oss, en - þú helgi klerkakraftur krossinn láttu rísa upp aftur.
Vatnsskarð eystra
Gönguskarð
Innra Hvannagil
Innra Hvannagil er í Njarðvík við Borgarfjörð eystri. Frá bílastæði er gengið um 100 m upp með ánni, upp fyrir berggang sem byrgir útsýn inn í gilið. Þar opnast ævintýraheimur. Fallegar bergmyndanir eru í gilbörmunum og botn árinnar er mjög sérstakur á flúðum skammt uppi í gilinu.
Kúahjalli og Hrafnatindur
Margar merktar gönguleiðir liggja frá- og í kringum þorpið Bakkagerði á Borgarfirði eystri. Ein þeirra liggur upp á Kúahjalla og Hrafnatind ofan við þorpið. Gengið er upp með Bakkaá og þaðan á Hrafnatind en frá honum er einstakt útsýni yfir þorpið og Borgarfjörð allan. Áfram er gengið út Kúahjalla og niður að minnisvarða um listmálarann Jóhannes S. Kjarval við Geitavík þar sem hann ólst upp.  Gangan tekur um þrjár klukkustundir og liggur hæst í 350 m hæð. Skammt ofan við minnisvarðann er stígur að rústum smalakofa Kjarvals undir Kúahjalla.
Loðmundarfjörður
Loðmundarfjörður er fallegur eyðifjörður norðan við Seyðisfjörð. Líklega var byggð í firðinum allt frá landnámi og vitað er að 143 einstaklingar bjuggu þar árið 1860 en þeim fór fækkandi eftir það. Loðmundarfjörður fór í eyði árið 1973. Enn má sjá heilmikla minjar um byggð á svæðinu og enn stendur lítil kirkja við Klyppstað. Í dag er Loðmundarfjörður vinsæll viðkomustaður göngufólks enda er fjörðurinn hluti af Víknaslóðum. Hægt er að keyra til Loðmundarfjarðar seinni hluta sumars, en nauðsynlegt er að vera á fjórhjóladrifnum bíl. 
Urðarhólar
Í Afrétt, innst í Borgarfirði Eystri, er fallegt framhlaup. Þangað liggur stikuð, um 3 km. létt gönguleið. Gengið er framhjá fallegu vatni, Urðarhólavatni. Ánægjulegt er að ganga um framhlaupið, þar sem skiptast á hólar og tjarnir, og lengja þannig gönguna að vild.
Húsavík