Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Aktíf á Austurlandi

Sólin skín fyrir austan. Það er vart að hún setjist, og þér finnst ef til vill rétt að nýta alla þessa dagsbirtu. Austurland er rétti staðurinn til þess.
Útsýnið af Bjólfi yfir Seyðisfjörð. Ljósmynd: Þráinn Kolbeinsson
Útsýnið af Bjólfi yfir Seyðisfjörð. Ljósmynd: Þráinn Kolbeinsson

Fyrir þau sem vilja vera úti og upplifa náttúruna – og kannski svitna örlítið í leiðinni – þá er óhætt að fullyrða að Austurland gefur! Hjá okkur finnur þú fjöldann allan af gönguleiðum sem gjarnan enda á fjallstoppi þar sem útsýnið lætur engan ósnortinn. Hér að neðan eru upplýsingar um hvernig þú getur komist í samband við aðra ævintýragjarna ferðalanga sem gætu mögulega gefið þér góð ráð um hvernig sé best að njóta náttúrunnar á Austurlandi. Þú gætir meira að segja keppt við þá í skipulögðu fjallahlaupi!

Nú, ef þú vilt fremur upplifa „mildari“ ævintýri þá eru ótal leiðir færar fyrir sjálfstæða landkönnuði, lífsglaða heimsborgara, náttúrunörda og dreifbýlisbóhema. Þú getur baðað þig í jarðhitalaugum, heilsað upp á lundana eða gert stikkprufur á austfirskum handverksbjór! Eins er nóg um að vera fyrir menningarvitana: Kíktu á Menningarsumarið á Austurlandi og kynntu þér það helsta sem í boði verður næstu mánuði. Við getum nefnt rokkhátíðir, tónleikahald í spennandi og óvenjulegu umhverfi, sýningar og fjölskylduhátíðir.

2023 – Keppnisviðburðir á Austurlandi

Bættu þessum dagsetningum í dagatalið þitt og byrjaðu að æfa!

Dyrfjallahlaup is a yearly trail running competition in Borgarfjörður eystri.Dyrfjallahlaup. Ljósmynd: Þorsteinn Roy.

Laugardagurinn 8. júlí: Dyrfjallahlaup
Utanvegahlaup á Borgafirði eystra

Dyrfjallahlaup er árlegt fjallahlaup í mögnuðu umhverfi Borgarfjarðar eystra.

Hægt er að velja 12 eða 24 km leiðir með hækkun upp á 700 metra eða 1074 metra, eða nýjungina í ár, 50 km últramaraþon. Samfara hlaupinu er frábær dagskrá yfir helgina; jóga á bryggjunni, uppistand með Bergi Ebba, tónleikar með Snorra Helgasyni og fleira.

Happy competitor after taking part in Urriðavatnssund competitionUrriðavatnssund. Ljósmynd: Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir

Laugardagurinn 29. júlí: Urriðavatnssund
Synt í Urriðavatni

Þessi viðburður er haldinn á hverju sumri í Urriðavatni, sem er skammt frá Egilsstöðum. Í ár eru 10 ár liðin frá fyrstu „opinberu“ keppninni en heimamenn og gestir hafa auðvitað synt í Urriðavatni sér til skemmtunar mun lengur.

Hægt er að velja þrjár vegalengdir: 500 metra, 1250 metra og 2500 metra. Hitastig vatnsins á sumrin er einhvers staðar innan við tíu gráðurnar og mæla skipuleggjendur með því að keppendur klæðist blautbúningi og sundhettu. Svo er kjörið að ylja sér í laugunum í Vök baths eftir sundið, en þær eru einmitt staðsettar í Urriðavatni.

Group of cyclists competing in Tour de ormurinn cycling competition
Tour de Ormurinn. Ljósmynd: Hjalti Stefánsson.

Laugardagurinn 19. ágúst: Tour de Ormurinn
Hjólað kringum Lagarfljót

Hefur þú heyrt um Tour de France hjólreiðakeppnina? Gott mál, því þó ekki sé verið að hjóla í Ölpunum þá getur þú notað hana sem innblástur! Nafnið er auðvitað tilvísun í hið dularfulla vatnaskrímsli sem býr í Lagarfljóti.

Hjólaleiðirnar eru þrjár. 68 km hringurinn er vinsælasta leiðin (hentar fyrir keppnishjól) en einnig er boðið upp á 103 km hring (68 km hringurinn auk lykkju inn í Norðurdal í Fljótsdal. Athugið að hluti leiðarinnar er á malarvegi) og loks 26 km leið sem hefst í Hallormsstað.

Laugardagurinn 5. ágúst: Barðsneshlaup
Utanvegahlaup í Neskaupstað

Annað árlegt utanvegaævintýri! Hlaupið hefst á Barðsnesi og þaðan er hlaupið til Norðfjarðar um eyðifirðina Viðfjörð og Hellisfjörð og endað í miðbæ Neskaupstaðar þar sem gestir fjölskylduhátíðarinnar Neistaflugs taka á móti keppendum. Hlaupið er u.þ.b. 27 km. Boðið er upp á styttri valkost líka en þá hefst hlaupið í Hellisfirði.

Gönguferðir, hjólreiðar og fleira

Þú þarft auðvitað ekki að taka þátt í skipulögðum keppnum til að auka hjartsláttinn og upplifa það besta í náttúru Austurlands. Nóg er af göngu- og hjólaleiðum!


A man hiking near Hengifoss waterfallHengifoss. Ljósmynd: Þorsteinn Roy.

Gönguleiðir á Austurlandi

Austurland er paradís fyrir göngufólk og um allan landshlutann er að finna stíga og gönguleiðir þar sem allir ættu að geta fundið leiðir sem henta. Finna má upplýsingar um leiðirnar hér.

Annað þarfaþing fyrir alla göngugarpa er bæklingurinn „Perlur Fljótsdalshéraðs“ sem þú getur hlaðið niður en einnig fengið á öllum helstu upplýsingamiðstöðvum. Í bæklingnum eru útlistaðar 30 gönguleiðir um fjöll og tinda, fossa, vötn, læki, gljúfur, litla hella og víkur. Lengdir leiðanna eru frá 500 metrum til 15 km.

Það er Ferðafélag Fljótsdalshéraðs sem valdi leiðirnar auk þess að taka saman helstu upplýsingar um þær s.s. GPS hnit, lengd, hæð og erfiðleikastig.

Ferðafélagið rekur sex fjallaskála þar sem göngufólk getur fengið svefnpokapláss. Einn skáli er við Kverkfjöll í Vatnajökulsþjóðgarði, tveir skálar eru á Lónsöræfum við jaðar Vatnajökuls og þrír skálar eru í afskekktum víkum og fjörðum sunnan Borgarfjarðar eystra. Þessir skálar eru fyrst og fremst aðgengilegir á sumrin og yfirleitt borgar sig að panta gistingu tímanlega.

Hiker on the trail from Húsavík to Loðmundarfjörður which is a part of Víknaslóðir, a multi day hiking adventure
Víknaslóðir. Ljósmynd: Ingvi Örn.

Viknaslóðir
Víknaslóðir er víðfeðmt net vel merktra gönguleiða sem liggja frá þorpinu á Borgarfirði eystra suður í Loðmundarfjörð.

Í gegnum árin hafa heimamenn merkt og viðhaldið fjölmörgum gönguleiðum sem hefur með tímanum gert svæðið að sannri gönguparadís. Það er til vandað göngukort um svæðið og fyrir fólk sem er til í nokkurra daga gönguævintýri er rétt að geta þess að flotta fjallaskála má finna í Breiðuvík, Húsavík og Loðmundarfirði. Ferðaskipuleggjendur fyrir austan geta svo aðstoðað fólk við skipulag og jafnframt boðið upp á leiðsögn, trúss og aðra þjónustu.

Stórurð
Eftir því sem orðspor Borgarfjarðar eystra hefur vaxið fyrir þessar einstöku gönguleiðir hefur einn áfangastaður vakið sérstaklega mikla athygli: Stórurð.

Stórurð er mynduð úr risavöxnum móbergs- og þursabergsbjörgum sem fallið hafa ofan á skálarjökul sem legið hefur við Dyrfjöll og má enn sjá leifar af honum undir hömrum fjallanna. Í urðinni er einstök náttúra; sléttir grasbalar, hrikalegir grjótruðningar, steinblokkir, sumar tugir metra á hæð, blágrænar tjarnir og sérstakur gróður. Saman mynda þessi náttúrufyrirbrigði ævintýralega veröld sem lætur engan ósnortinn.

Fimm merktar gönguleiðir liggja að Stórurð. Sú mest gengna er frá Vatnsskarði en einnig liggur leið frá Héraði, úr Njarðvík og tvær frá Borgarfirði eystra. Ekki er ráðlegt að ganga í Stórurð án leiðsagnar staðkunnugra fyrr en orðið er snjólétt. Þar sem Stórurð er í meira en 400 metra hæð yfir sjávarmáli liggur snjór oft langt fram á sumar þannig að besti tíminn til að skoða þetta stórfenglega svæði er frá miðjum júlí til hausts. Gangan fram og til baka tekur um það bil fimm til sex klukkustundir.

Tindarnir sjö: Seyðisfjörður

Viltu vinna titilinn „Fjallagarpur Seyðisfjarðar“? Auðvitað gerirðu það! Hins vegar er þetta ekki auðvelt verk: Þú verður að klífa sjö tinda í nágrenni fjarðarins sem eru frá 938 metrum til 1154 metrar á hæð. Lestu meira um áskorunina á Visitseydisfjordur.is og vertu reiðubúin(n)! Veðrið er óútreiknanlegt og útsýnið svo hrífandi að göngugarpar standa á öndinni þegar upp er komið! Athugið að margir tindanna eru krefjandi og aðeins fyrir reynda göngugarpa.

Group of hikers on top of Mt. Holmatindur
Hólmatindur er einn af tindunum sem gengið er á í gönguviku Fjarðabyggðar. Ljósmynd: Jessica Auer.

Gönguvika Fjarðabyggðar: 24. júní til 1. júlí
Sveitarfélagið Fjarðabyggð stendur árlega fyrir hinni sívinsælu gönguviku undir yfirskriftinni „Á fætur í Fjarðabyggð“. Dagskrá vikunnar er fjölbreytt: Fjölskyldugönguferðir, alls kyns uppákomur undir berum himni, söguferðir með leiðsögn og síðast en ekki síst er boðið upp á krefjandi áskoranir fyrir fjallgöngufólk. Á kvöldin haldur skemmtunin áfram með söng, tónlist og veisluhaldi.

Sveitarfélagið nær yfir Eskifjörð, Neskaupstað, Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Stöðvarfjörð, Breiðdal og Mjóafjörð. Skemmtidagskráin, að undanskildum gönguferðunum sjálfum, fer fram á Eskifirði.

Nánari upplýsingar má t.d. finna á Facebook-síðu viðburðarins og hjá ferðaþjónustunni á Mjóeyri.

Hjólað á Austurlandi
Vissirðu að það er frábært að stunda fjallahjólreiðar á Austurlandi? Gönguleiðirnar hafa fengið mikla og verðskuldaða athygli en hjólaleiðirnar okkar eru ekkert síðri!

The mountain bikers view of a single track in Hallormsstaðaskógur
Það eru skemmtilegar fjallahjólaleiðir í Hallormsstaðaskógi. Ljósmynd: Ingvi Örn.

Hallormsstaðaskógur
Hallormsstaðaskógur er ekki bara stærsti skógur Íslands. Þar er líka ýmislegt hægt að gera! Um 10 km fjölskylduvæn hjólaleið hefst við Hótel Hallormsstað og fer síðan hring um neðri hluta skógarins (í 200 metra hæð). Önnur erfiðari leið liggur svo upp frá Hallormsstaðaskóla.

Hægt er að skoða nokkrar af nýju gönguleiðunum í skóginum og í nágrenninu, sem fara t.d. í gegnum birkiskóginn í Ranaskógi og í Norðurdal, á heimasíðu Hengifoss.is. Þá má líka finna leiðalýsingar á Visitegilsstadir.is.

Hægt er að leigja hjól og fá ýmis konar ráðgjöf hjá starfsfólki upplýsingamiðstöðvarinnar á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum, á Hótel Hallormsstað og í Óbyggðasetrinu.

Borgarfjörður eystra
Lundi og stórfenglegar gönguleiðir eru ekki það eina sem þú finnur á Borgarfirði eystra. Fyrirtækið Fjord Bikes hjálpar fólki að finna rétta hjólið fyrir ógleymanlegar hjólreiðar í stórbrotnu umhverfi Borgarfjarðar. Gestir geta leigt hjól og allan aukabúnað, fengið ráðleggingar um hvernig sé best að skipuleggja sig, hvort sem ætlunin er að hjóla um þorpið eða fjöllin.

Mt bikers hiking up a trail with their bikes. In the background there is a magnificent view of Dyrfjöll

Borgarfjörður eystra. Ljósmynd: Fjord bikes.

Annars staðar á Austurlandi
Þú getur yfirgefið þjóðveginn nánast hvar sem er á Austurlandi og fundið spennandi gönguleiðir og frábært útsýni.

Þú getur t.d. keyrt gömlu leiðina (vegur 955) á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar í stað þess að fara í gegnum Fáskrúðsfjarðargöng (55 km, mestanpart malbikaður vegur). Nú, ef þið langar til að hjóla á malarvegi er tilvalið að skoða veginn niður í Mjóafjörð en gættu þess að eiga næga orku eftir svo þú komist upp aftur!

Aðrir valkostir

Við hvetjum þig til að setja þig í samband við ferðaskipuleggjendur á Austurlandi. Þeir geta aðstoðað þig, hvort sem þú ferðast gangandi eða á hjóli, jeppa, á hesti eða kajak. Þannig nærðu líka sambandi við heimamenn sem þekkja svæðið vel og finnst fátt skemmtilegra en að segja þér frá því helsta sem hægt er að upplifa á Austurlandi.

Til dæmis getur þú farið í skipulagða jeppaferð, siglingu á kayak eða hestbak og þannig upplifað nýtt sjónarhorn á staði sem eru utan seilingar ferðamanna ef rétti fararmátinn er ekki til staðar. Hér eru að finna sérfróða leiðsögumenn og með réttu reynsluna til að takast á við allskonar, og flest ef ekki öll kunna skemmtilegar sögur líka! 

father and daughter with one of their horses at Skorrahestar, tour operator in Norðfjörður
Skorrahestar farm. Ljósmynd: Jessica Auer.

Nokkrar spennandi uppástungur fyrir sumarið – ekki tæmandi listi!

      • Njóttu miðnætursólarinnar í „White night experience“ kajakferð nálægt Djúpavogi, brottför klukkan 23, eða miðnæturferð á hestbaki um afskekktan dal.
      • Tveggja tíma reiðtúr með fjölskyldu sem þekkir hvern krók og kima á Norðfirði og næsta nágrenni. Njóttu náttúrunnar, sagnanna og endaðu ferðina á gómsætum pönnukökum!
      • Næturganga með leiðsögn að Blágili, falinni perlu í Breiðdal.
      • Farðu í göngu með leiðsögn upp á á Snæfell, hæsta fjall Íslands sem ekki er hulið jökli. Fjallið er 1833 metrar á hæð og 14 km leiðin er fyrir vana göngumenn.
      • Farðu í „ofurjeppaferð“ inn á miðhálendið frá Möðrudal og skoðaðu hina mögnuðu Öskju. Askja er aðgengileg í nokkra mánuði á ári og aðeins fjórhjóladrifnum bifreiðum.

Texti: Carolyn Bain
Íslensk þýðing: Jón Knútur Ásmundsson