Fara í efni

Eða prófaðu að leita eftir flokki og/eða staðsetningu

Hvernig væri að prófa eitthvað nýtt?

Haustið er komið með sínum mögnuðu litum, norðurljósin dansa á himnum og fjallstindar eru farnir að hvítna. Á Austurlandi hitum við kakóið og hugum að ævintýrum vetrarins sem eru ekki síðri en sumarævintýrin.
Stuðlagil. Ljósmyndari: Bjarki Jóhannsson
Stuðlagil. Ljósmyndari: Bjarki Jóhannsson

Á Austurlandi er að finna fjölda gönguleiða sem henta allan ársins hring, hvort sem er þægilegar útsýnisgöngur, rölt í skjóli skógarins eða ferð á fjallstind. Aðstæður til göngu- og fjallaskíðaiðkunar á Austurlandi eru frábærar, hér er um margar leiðir að velja og góðir möguleikar á að ná fyrsta rennsli dagsins. Og hver veit nema þið rekist á hreindýr í útivistinni? Þið getið valið á milli fjölda notalegra gististaða og sumarhúsa. Hér eru baðstaðir og sundlaugar, söfn og setur, náttúrulíf og áhugaverðir viðburðir í boði allt árið um kring. Veitingastaðirnir eru rómaðir og leggja margir hverjir áherslu á mat úr héraði.

Fólk á göngu í Loðmundarfirði á leið í skálannLoðmundarfjörður. Ljósmyndari: Ingvi Örn

Ævintýri á Austurlandi
Hér fyrir neðan höfum við tekið saman upplýsingar sem grunn að einstöku austfirsku ævintýri. Við leggjum mikið upp úr hæglæti á ferðalögum; þannig gefst tími til að njóta og koma endurnærð heim.

Október – nóvember
Haustlitirnir hérna fyrir austan eru magnaðir og aðstæður til þess að dást að norðurljósunum eru eins og best verður á kosið enda ljósmengun er með minnsta móti á Austurlandi.

Norðurljósin dansa yfir Vök bathsVök baths

Við mælum með:

 • Haustlitaferð í Hallormsstaðaskóg.
  Hallormsstaðaskógur er stærsti skógur á Íslandi og litir laufanna í skóginum á haustin eru magnaðir. Við mælum með gönguferð um trjásafnið eða upp í Bjargselsbotna með heitt kaffi eða kakó og kruðerí. Ef norðurljósaspáin er góð er kvöldferð í skóginn og rölt niður að Lagarfljóti með höfuðljós spennandi ævintýraferð. Ef þú vilt upplifa þinni innri víking mælum við með axarkasti hjá East Highlanders. (athugið að aðeins er opið fyrir hópa í axarkast yfir vetrartímann).
 • Heimsókn í Fljótsdalinn
  Dagsferð í Fljótsdalinn hentar allri fjölskyldunni. Við mælum með gönguferð að Hengifossi, öðrum hæsta fossi landsins. Gangan að fossinum tekur 40-60 mínútur aðra leið og er mjög falleg og aðgengileg flestum. Athugið þó að vera vel búin og mögulega er gott að vera með brodda í pokanum ef það skyldi vera hált. Eftir gönguferðina mælum við með hinu einstaka Skriðuklaustri og klausturrústunum þar við, sýningu og spjalli um Vatnajökulsþjóðgarð í Snæfellsstofu og svo að sjálfsögðu kaffihlaðborðið á Klausturkaffi. Þeim sem finnst gaman að leika ættu að kíkja á svæðið þar við, en það eru klifurveggur, völundarhús og fleira. Vorum við búin að nefna Óbyggðasetrið? Það er mögnuð upplifun og stökk aftur í tímann.
 • Viðburðir og tónleikar
  á viðburðadagatalinu okkar finnur þú upplýsingar um tónleika, myndlistarsýningar og margt fleira. Við mælum sérstaklega með tónleikum Nönnu úr Of Monster and men í Neskaupstað, en hún verður með tónleika í Egilsbúð á Neskaupstað þann 11. nóvember. Þar mun hún flytja efni af sólóplötu sinni, How to start a garden ásamt frábærri hljómsveit. Tónleikarnir eru hluti af Tónaflugi, tónleikaraðar sem haldin er ár hvert í Fjarðabyggð.
 • Borgarfjörður eystri
  Þau sem vilja algjöra afslöppun fjarri amstri hversdagsins ættu að bóka sér ferð til Borgarfirði eystri. Þó aðeins um 100 manns búi þar að staðaldri er þorpið lifandi og notalegur staður þar sem fólk er á röltinu, enda þorpið umlukið tignarlegum fjallgörðum og einstakri sjávarsýn. Á haustin mælum við með því að þú skoðir það sem er í boði á Blábjörg resort en þar getur þú notið fyrsta flokks matar, slakað á í heitum pottum við sjóinn, farið í Þarabað og smakkað „lókal“ bjór, gin og borgfirskan landa. Einnig eru fjöldi gönguleiða í kringum þorpið, kynntu þér gönguleiðakortið á ferðavef þeirra eða hafðu samband við fjord bikes eða Álfheima og kynnist nágrenninu með reyndum leiðsögumanni.

Við mælum með því að þið kannið opnunartíma staðana sem þið ætlið að heimsækja þar sem þeir geta verið óreglulegir eða samkvæmt samkomulagi yfir vetrartímann.

Hreindýrabræðurnir Garpur og MosiHreindýrabræðurnir Garpur og Mosi búa á Vínlandi í Fellum. Ljósmyndari: Fannar Magg

Desember
Timeout í desember? Er það ekki eitthvað. Austurland er næstum alveg laust við lengda opnunartíma, umferðaröngþveiti og örtröð. Hér er hinsvegar mjög jólalegt, þú getur valið úr fjölda jólahlaðborða, heimsótt hreindýrabræðurnar Garp og Mosa og slakað á og notið þess að vera til. Og ef þú vilt endilega versla fallegt handverk, er í góðu lagi að kíkja í hið frábæra Hús handanna á Egilsstöðum, nú eða Blóðberg á Seyðisfirði.

Við mælum með

 • Upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar í Skriðuklaustri en þessi saga á hvergi betur heima en í húsi Gunnars og umlukin sögusviðinu. Svo er ómissandi að fara á upplestur rithöfundalestarinnar þar sem höfundar lesa úr nýútgefnum bókum sínum.
 • Austfirsku jólahlaðborði. Á Austurlandi er hefð fyrir jólahlaðborðum og fjölbreytnin er mikil. Við mælum með því að þú kannir hvað Nielsen býður uppá eða klassísku jólahlaðborði á Hótel Hallormsstað.Á Seyðisfirði er alltaf frábær stemning á jólahlaðborði Hótel Öldunnar og ef þú ert að ferðast með fjölskylduna er jólahlaðborðið á Klausturkaffi algjörlega málið.
 • Jólainnkaupum á jólamarkaði Barra. Þar getur þú keypt matvöru, hönnun og handverk frá smáframleiðendum af svæðinu. Við mælum með því að þú kannir hvaða sýningar eru í gangi í Skaftfelli á Seyðisfirði og í Sláturhúsinu.
 • Heimsókn til Garps og Mosa í Vínlandi. Garpur og Mosi eru hreindýrastrákar sem fundust yfirgefnir á hálendinu og hafa síðan búið á Vínlandi í Fellum. Þeim finnst mjög gaman að fá fólk í heimsókn til sín.

Horft yfir skíðasvæðið í OddskarðiOddskarð. Ljósmyndari: Gunnar Freyr Gunnarsson

Janúar – febrúar
Í byrjun janúar opna skíðasvæðin í Stafdal og Oddskarði og þegar kominn er nægur snjór er tilvalið að fara á gönguskíði, hvort heldur er í Selskógi við Egilsstaði eða finna skemmtilega gönguleið sem hentar vel til gönguskíðaiðkunar.  Einnig eru þorrablót í hverju plássi sem eru hvert öðru skemmtilegra, að ekki sé talað um þá sem eiga ættir að rekja á svæðið og langar til að endurnýja kynnin við frændfólk. Í febrúar er komu sólarinnar fagnað með listahátíðinni List í ljósi á Seyðisfirði.

Við mælum með

 • Heimsókn á skíðasvæðin. Stafdalur og Oddskarð eru frábær skíðasvæði með fjölbreyttum leiðum sem henta öllum getustigum. Á báðum svæðum er hægt að kaupa kennslu hjá reyndum þjálfurum og þar eru troðin gönguskíðaspor.
 • Þorrablóti. Örlítil tenging við svæðið gerir upplifunina ógleymanlega.
 • List í ljósi, Listahátíð á Seyðisfirði sem haldin er ár hvert um miðjan febrúar. Listamenn allsstaðar að úr heiminum taka þátt í að lýsa upp fjörðinn á fjölbreyttan hátt sem hentar öllum aldurshópum. Samhliða List í ljósi er opnun vorsýningar listamiðstöðvarinnar Skaftfells.
 • Sólarkaffi og pönnsum. Við fögnum endurkomu sólar um miðjan febrúar í mörgum þorpum hér og sumsstaðar er enn haldið í þá góðu hefð að bjóða íbúum og gestum í sólarkaffi.
 • Gönguskíðanámskeiði í Selskógi eða Stafdal sem haldið er af gönguskíðadeild skíðafélagsins í Stafdal.

Fjallaskíða og brettafólk spjallarFrá fjallaskíða og brettahátíðinni Austurland freeride sem haldin er árlega. Ljósmyndari: Chris Burkard.

Mars – apríl
Í mars er daginn farið að lengja og tækifæri til útivistar orðin töluvert meiri. Snjórinn ætti að vera búinn að binda sig vel í fjöllunum og fjallaskíða og útivistarfólk farið að skinna og eða ganga á fjöll. Ef þú stundar vetrarfjallamennsku og langar til að kynnast nýjum svæðum ættir þú klárlega að kynna þér möguleikana á Austurlandi.

Við mælum með

 • Austurland freeride festival er haldin á Eskifirði. Hátíðin hefur vaxið og dafnað undanfarin ár og er ótrúlega skemmtilegur viðburður þar sem deginum er eytt í að ferðast um fjöll í nágrenninu á fjallaskíðum eða splitboard og svo nýtur fólk góðs matar og tónlistar á kvöldin.
 • Gönguskíðum á Fjarðarheiði. Í byrjun mars er lagt gönguskíðaspor á Fjarðarheiði (600 m yfir sjávarmáli). en heiðin hentar ótrúlega vel til gönguskíðaiðkunar og útsýnið þaðan er magnað.
 • Á þessum tíma eru margir veitingastaðir að vakna eftir vetrardvalann og opna með nýja og spennandi matseðla.
 • Nestisferð í síðdegissólinni. Á sólardögum er fátt betra en að keyra út með firði eða fara í fjallgöngu með nesti og kakó á brúsa og njóta síðdegissólarinnar. Víða eru þægilegir göngustígar og fallegt útsýni og svo gætuð þið rekist á tignarleg hreindýr, sem eru oft á ferðinni á þessum árstíma, hvort heldur er við Reyðarfjörð, í mynni Fljótsdals eða á fótboltavellinum á Djúpavogi! Það er ráðlegt að keyra varlega þar sem þau eru á ferð.
 • Innlit í Sláturhúsið á Egilsstöðum, sem ber ekki nafn með rentu, því þar eru í boði listsýningar í hæsta gæðaflokki.
 • Hestaferð á Finnsstöðum. Það er fjöldi skemmtilegra reiðleiða á Héraði enda hentar svæðið einstaklega vel til útreiða. Stuttir útreiðartúrar í vetrarsólinni eru einstök náttúrutenging.

Það sem við töldum upp hér að ofan er alls ekki tæmandi listi. Það er svo miklu meira í boði í landshlutanum. Þú finnur upplýsingar gististaði, veitingastaði, kaffihús, viðburði og ótal margt fleira á vefnum okkar.